Viðskiptabann gegn Írak

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 13:57:17 (3387)

1998-02-04 13:57:17# 122. lþ. 58.2 fundur 418. mál: #A viðskiptabann gegn Írak# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[13:57]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Aðalatriði þessa máls er að öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna er skylt að virða ályktanir öryggisráðsins og framfylgja refsiaðgerðum gegn einstökum ríkjum sem ráðið setur hverju sinni. (ÖJ: Það er rangt.) Hv. þm. hefur talað hér lengi og hátt og ég ætla ekki að gefa honum tíma af mínum stutta tíma, en hann hélt því fram að það væri rangt að framfylgja ályktunum öryggisráðsins. Hvernig halda hv. þingmenn að væri umhorfs í heiminum og hvernig væri friðarástand í heiminum ef allar þjóðir hugsuðu þannig að menn gætu beitt geðþóttaákvörðunum að því er varðar ályktanir öryggisráðsins? (Gripið fram í.) Þá væri skrýtið um að litast í heiminum. Og ég vil spyrja þá sem halda því fram að Sameinuðu þjóðirnar eigi nú að aflétta viðskiptabanninu, hvernig þeir sjái fyrir sér þróun öryggismála á svæðinu verði banninu aflétt. Í ljósi reynslunnar, hvaða aðferðir aðrar að frátöldum hernaðaraðgerðum hefur hið alþjóðlega samfélag yfir að ráða til að þrýsta á íröksk stjórnvöld?

Málflutningur þeirra sem vilja afnema viðskiptabannið byggir á þeirri staðhæfingu að Sameinuðu þjóðirnar og aðildarríki þeirra, þar á meðal okkar ástkæra þjóð, Ísland, séu að brjóta alþjóðalög. Halda menn virkilega að það verði forgangsverkefni Saddams Husseins og hans skósveina allra að bæta hag hins almenna borgara í Írak verði banninu aflétt? (Gripið fram í.) Að maður sem er fær um slíka ógnarstjórn skeyti um hag hins almenna borgara? Trúir hv. þm. Össur Skarphéðinsson því?

Ég trúi því ekki að fólk sé haldið slíkri blindni og skora á menn að sýna samstöðu með Sameinuðu þjóðunum, framverði alþjóðafriðar, og beina spjótum sínum frekar að írökskum stjórnvöldum og hvetja þau til að fara að samþykktum Sameinuðu þjóðanna og hlíta þeim samþykktum og vinna undir merki Sameinuðu þjóðanna og það ættu allir hv. þingmenn að gera.