Fjöldatakmarkanir við Háskóla Íslands

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 14:07:41 (3391)

1998-02-04 14:07:41# 122. lþ. 58.3 fundur 380. mál: #A fjöldatakmarkanir við Háskóla Íslands# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[14:07]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir þessi skýru svör. Þetta voru mjög jákvæð svör. Efnislega fólu þau í sér eftirfarandi tvo þætti. Í fyrsta lagi að hæstv. ráðherra telur að skortur verði á læknum innan ákveðinna ára og hún ætlar að láta fara fram sérstaka könnun á því. Í öðru lagi, ef grunur hennar reynist á rökum reistur, hyggst hún beita sér fyrir því að útskrifuðum læknum á Íslandi verði fjölgað. Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en svo, herra forseti, en að hæstv. heilbrrh. sé að lýsa því skorinort yfir að hún muni að öllum líkindum beita sér fyrir því að fjöldatakmarkanir verði rýmkaðar.

Það er mjög athyglisvert að hæstv. ráðherra nefndi sérstakt aldursbil sem væri mjög fámennt og það væri út af því sem líklegt væri að það yrði læknaekla innan ákveðinnar tíðar. Það eru læknar á aldrinum 30--34 ára gamlir. Það eru með öðrum orðum læknar sem útskrifast eftir árið 1992.

Og hvað gerist árið 1992? Þá allt í einu, samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið í svari við fsp. frá hæstv. menntmrh., fellur fjöldi sem tekinn er inn í deildina úr 36 niður í 30. Þetta er heimatilbúinn vandi stjórnvalda. Þetta er rugl í einhverjum ráðuneytum eða einhverjum kontórum háskólans sem gerir það að verkum að hér er verið að búa til vandræði. Hæstv. ráðherra sagði að það væri m.a. klínísk geta sjúkrahúsanna sem réði fjölda þeirra sem færu í gegnum námsferilinn á sjúkrahúsunum. Hvaða klíníska breyting var það sem gerði það að verkum að árið 1992 féllu námsstöðurnar úr 36 niður í 30? Hvaða klíníska breyting var það sem leiddi til þess að 1996 fjölgaði þeim úr 30 upp í 39? Getur hæstv. ráðherra sagt mér hvaða breytingar urðu á klínískri getu sjúkrahúsanna til að taka við læknum í námsstöður, sem leiddu til þessara óútskýranlegu breytinga sem hafa leitt til heimatilbúins vanda í íslenska spítalakerfinu?