Fjármagnstekjuskattur

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 14:35:44 (3403)

1998-02-04 14:35:44# 122. lþ. 58.6 fundur 416. mál: #A fjármagnstekjuskattur# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[14:35]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Þegar fjármagnstekjuskattur var til umræðu fyrir um tveimur árum voru mjög skiptar skoðanir um hvernig staðið skyldi að framkvæmd og álagningu skattsins. Stjórnarandstaðan lagði áherslu á að skattheimtan yrði af hinum raunverulegu fjármagnseigendum og ákveðið frítekjumark tryggði að almennum sparnaði yrði hlíft við skattlagningu. Stjórnarflokkarnir kusu að fara aðra leið með 10% flötum skatti á fjármagnstekjur. Stjórnarandstaðan hélt því fram að það þýddi að tekjur af fjármagnstekjuskatti myndu að verulegu leyti koma frá hinum almenna sparifjáreiganda. Það var ekki síst vegna áforma um að lækka skattgreiðslur á arð og söluhagnað og að þeir sem stofnuðu til einkahlutafélags gætu tekið verulegan hluta þess fjár sem nú er skattlagt hjá þeim sem reiknað endurgjald, launatekjur eða rekstrarhagnaður, fært yfir í arð og greitt af því 10% skatt í stað þess að greiða af tekjum sínum eða hagnaði um 40% skatt.

Hvað sem mismunandi sjónarmiðum um leiðir til skattlagningar líður, verður auðvitað að ganga út frá því að allir vilji hafa skattlagninguna sem réttlátasta og sanngjarnasta. Í því sambandi hljóta þeir að vera tilbúnir að endurskoða framkvæmdina ef í ljós kemur að skattlagningin sé óeðlileg, ósanngjörn og lendi fyrst og fremst á hinum almenna sparifjáreiganda. Því er nauðsynlegt að þingið fylgist með framkvæmdinni frá upphafi, leggi mat á hana og kanni hvort breytinga sé þörf, bæði hvað skattlagninguna og eftirlitið varðar. Af því tilefni er þessi fyrirspurn fram komin til hæstv. fjmrh. þó ég geri mér vissulega grein fyrir því að skammt er liðið frá álagningu fjármagnstekjuskatts og erfitt getur reynst að fá umbeðnar upplýsingar. Þó hlýtur að vera stefnt að því að þær geti legið fyrir í nánustu framtíð. Því hef ég, herra forseti, lagt fram fyrirspurn til hæstv. fjmrh. um fjármagnstekjuskatt þar sem spurt er:

1. Hve miklar tekjur skiluðu sér í ríkissjóð af fjármagnstekjuskatti á sl. ári, skipt eftir fjármálastofnunum?

2. Er hægt að fá fram upplýsingar um skiptingu fjármagnstekjuskattsins eftir eigna- og tekjustöðu og aldri greiðenda og ef svo er, hvernig var skiptingin? Ef svo er ekki, telur ráðherra rétt að hægt væri að kalla fram slíkar upplýsingar og ef ekki, hver er skýringin á því?

3. Telur ráðherra að komið hafi fram einhverjir gallar á framkvæmd laganna, svo sem vegna nauðsynlegs eftirlits eða sanngirni í álagningu skattsins, sem kalla á breytingu?