Fjármagnstekjuskattur

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 14:38:10 (3404)

1998-02-04 14:38:10# 122. lþ. 58.6 fundur 416. mál: #A fjármagnstekjuskattur# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[14:38]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Fyrst langar mig að segja örfá orð um fjármagnstekjuskattinn en hann var fyrst lagður á árið 1997. Um er að ræða 10% tekjuskatt af vöxtum, söluhagnaði, leigutekjum og arði. Skatturinn er innheimtur í staðgreiðslu og skal standa skil á honum að tekjuári loknu. Því mun fjármagnstekjuskattur vegna ársins 1997 ekki koma til greiðslu fyrr en á árinu 1998 og uppgjöri á skattinum verður ekki lokið fyrr en álagningu vegna ársins 1997 verður lokið. Til að skýra þetta betur er framkvæmdin sú að þær innlánsstofnanir sem innheimta skattinn taka skattinn af öllum vöxtum og þar sem fyrirtækin í landinu fá vextina frádregna í sínu bókhaldi er engin leið að sjá hver nettóniðurstaðan verður fyrr en uppgjör á sér stað á miðju þessu ári. Á árinu 1997 var eingöngu greiddur fjármagnstekjuskattur vegna söluhagnaðar hlutabréfa en sérákvæði þess efnis komu fyrr til framkvæmda.

Svarið við fyrstu fyrirspurninni er það að á síðasta ári voru greiddar tæplega 62 millj. kr. í ríkissjóð í fjármagnstekjuskatt og var þar um að ræða fjármagnstekjuskatt vegna sölu hlutabréfa. Þegar spurt er um upplýsingar um skiptingu fjármagnstekjuskatts eftir eign, tekjustöðu og aldri, þá liggur það að sjálfsögðu ekki fyrir fyrr en í álagningu í júlí og reyndar kann að verða erfitt að gefa fullnægjandi svar við þessari fyrirspurn, því suma reikningana eiga margir og ekki nokkur leið að greina í sundur eftir aldri o.s.frv.

Þá er að lokum spurt hvort gallar hafi komið fram við framkvæmdina. Ég tel ekki tímabært að svara þessari spurningu fyrr en reynsla er komin á. Það ætti að sjást á síðari hluta þessa árs. Á þessu stigi málsins hefur ekkert komið fram sem segir okkur að það kerfi sem við tókum upp gangi ekki upp.

Ég minni á, virðulegi forseti, að þetta mál fékk meðferð í nefnd allra stjórnmálaflokkanna, flestra a.m.k. og allra held ég þegar að lokum dró. Jafnframt áttu þar aðild ASÍ og VSÍ. Í nefndinni var mikil samstaða en á síðari stigum, eftir að nefndin hafði lokið störfum, kom hins vegar fram hér í þinginu að einstakir flokkar höfðu aðra skoðun en þeir menn sem störfuðu í nefndinni. Þetta minni ég á og ég tel að svo komnu máli ekki hægt að segja annað en að framkvæmdin hafi gengið nokkuð sæmilega. Eins og ég hef rakið er ekki hægt að gefa haldbær svör við því sem hv. þm. er að spyrja um. Lögin leyfa einfaldlega ekki að upplýsingarnar liggi fyrir fyrr en síðar á þessu ári, líklega í byrjun ágúst.