Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 11:56:44 (3446)

1998-02-05 11:56:44# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[11:56]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Í upphafi framsöguræðu sinnar óskaði forsrh. þess að frv. væri rætt sérstaklega og ekki yrði blandað inn í umræðu um þetta frv. öðrum sjónarmiðum sem tengjast öðrum frumvörpum og öðrum tillögum sem liggja fyrir þinginu. Ég skil þá ósk mætavel og ég hefði kosið að við værum hér og nú að ræða frv. um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta eitt og sér og Alþingi samhent og í sátt mundi marka stefnu um þjóðareign á landi. Að því loknu mundi önnur lagasetning taka mið af þeirri mikilvægu stefnu.

En því er ekki að heilsa. Á Alþingi hefur þegar farið fram 1. umr. um sveitarfélagafrv., sem okkur er tíðrætt um, sem gjörbreytir anda þeirrar stefnumörkunar sem ríkisstjórnin er að flytja okkur í frv. um þjóðlendur. Hins vegar hlýnar okkur alþýðuflokksmönnum vissulega um hjartaræturnar við að fjalla um þá hugmynd sem fram kemur í frv. til laga um þjóðlendur. Þetta er eins og að hitta fyrir gamlan vin enda höfum við verið, eins og fram kom í máli formanns Alþfl., að flytja þingmál á þinginu um landið, eign allra landsmanna, allar götur síðan árið 1970 þegar Alþfl. flutti tillögu um að sett yrðu skýr ákvæði um eignarréttindi, afnot og umgengni um óbyggðir landsins, svo og um nýtingu auðlinda, fallvatna, jarðhita og hvers konar námaur og vinnslu verðmæta úr jörðu.

Árið 1971 lögðum við fram tillögu um að allt hálendi landsins og óbyggðir yrði alþjóðaeign að svo miklu leyti sem skýlausar eignarheimildir annarra aðila en ríkisins lægju ekki fyrir. Í tillögunni var einnig lagt til að kveðið yrði á um mörk þeirrar ríkiseignar, þ.e. nákvæmlega sama tillaga og er hér til meðferðar. Sama þingmál var lagt fyrir aftur og aftur, lagt fyrir Alþingi á hverju ári á tímabilinu 1972--1978. Skoðun forsrh. breytir hér engu um.

Eins og fram hefur komið verða í dag jafnframt flutt nokkur frv. sem tengjast stefnunni um miðhálendið. Formaður Alþfl., Sighvatur Björgvinsson, hefur gert því vel skil að hvaða marki þau tengjast frv. og því mun ég bara vísa til orða hans.

Frv. um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta er að mörgu leyti vönduð smíð. Með frv. fylgir ítarleg grg. um þau hugtök sem íslenskur eignarréttur grundvallast á svo sem skilgreining á hugtakinu ,,beinn eignarréttur`` eða ,,fullkominn eignarréttur``, hvað felst í hinum óbeina eignarrétti afréttareignar sem er eins og menn vita réttur til beitarnota, svo og hugtakið ,,almenningur`` en það er það landsvæði sem er núna einskismannsland.

[12:00]

Þessi hugtök og notkun þeirra verður að vera skýr við þessa umræðu því við erum hér að fjalla um mjög mikilvægt mál, líklega það mikilvægasta á þessum áratug, kannski allt frá upphafi. Við erum nefnilega að ákveða hér hver verður eigandi þess hluta landsins sem fólkið hefur litið á sem sína sameign. Ég vek sérstaka athygli á að við erum ekki bara að fjalla um eignarráðin yfir hálendissvæðum landsins, því vegna smáa letursins sem er að finna í frv. erum við líka að ákveða hver fer með stjórnsýslu á þessu sama svæði.

Í frv. er gert ráð fyrir fullkomnum eignarrétti ríkisins að þjóðlendunum, eða eins og segir í 2. gr., að íslenska ríkið verði eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendum sem ekki eru háð einkaeignarrétti. Þó er gert ráð fyrir því að þeir sem hafa nýtt land innan þjóðlendu sem afrétt fyrir búfénað eða haft þar önnur not, haldi þeim rétti þó ríkið fari með grunneignarréttinn.

Þetta er nákvæmlega sama hugsun og við jafnaðarmenn höfum verið að boða sl. 30 ár a.m.k.

Í frv. er einnig gert ráð fyrir því að forsrh. veiti heimild til nýtingar á auðlindum innan þjóðlendna svo sem til nýtingar vatns- og jarðhitaréttinda, náma og annarra jarðefna. Gert er ráð fyrir að hann veiti einnig heimild til hagnýtingar og afnota af landi og landgæðum. Við jafnaðarmenn getum ekki einungis tekið undir hugmyndir um gjaldtöku fyrir nýtingu auðlindanna heldur höfum við á undanförnum árum verið, eins og þjóðin veit, ötulir talsmenn slíkra hugmynda og oftast í óþökk sjálfstæðismanna. Þessar hugmyndir getum við jafnaðarmenn tekið undir enda ríma þær við okkar hugmyndafræði. Öræfi landsins þjóðareign. Hálendið fyrir alla Íslendinga.

En frv. villir á sér heimildir því smáa letrið í því gjörbreytir efni þess og hugsunarhætti og það gerir það óaðgengilegt fyrir okkur jafnaðarmenn að óbreyttu. Mun ég nú víkja að því, virðulegi forseti.

Í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir því að miðhálendinu verði skipt upp milli sveitarfélaganna sem færir þeim valdið á þessu svæði, þvert ofan í það sem segir í 2. gr. þar sem ríkinu eru færð eignarráð þess. Ef við skoðum þetta nánar og veltum fyrir okkur hvað felst í hugsuninni: Hálendissvæði landsins eru eign allrar þjóðarinnar. Það merkir að landskjörin stjórnvöld fari með eignarráðin og megi þar með ráðstafa eigninni, svo sem veita leyfi til nýtingar vatns og jarðvarmanýtingar svo og nýtingar ýmiss konar jarðefna. En ég hygg að fólkið í landinu skilji það svo að samfara þjóðareignarhugtakinu fylgi einnig rétturinn til að ákveða hvað verði gert við hið viðkvæma svæði, þ.e. hvernig skipulagi þessa svæðis verði háttað. Hvar verði byggt, hvar verði lagðir vegir, hvaða svæði verði vernduð, hvar verði virkjað og svo mætti lengi telja. Það eru einmitt þessir hlutir sem fólkið í landinu telur að sig varði um. Um það hefur umræðan á síðasta ári vitnað.

Það er á þessum sviðum sem fólkið vill hafa áhrif. Það hefur berlega komið í ljós að meginþorri þjóðarinnar telur það vera brýnt réttlætismál að fleiri en þau sveitarfélög sem liggja að hálendinu komi að stefnumótun og skipulagningu miðhálendisins, enda yrði tveim þriðju hluta þjóðarinnar haldið utan áhrifa ef miðhálendinu yrði skipt upp milli hlutaðeigandi sveitarfélaga. Ég get ekki skilið hvað ætti annað að felast í greininni en það að hlutaðeigandi sveitarfélög séu þau sveitarfélög sem liggja að miðhálendinu. Ef ríkisstjórnin ætlar að þvinga þetta frv. í gegnum þingið í skjóli þingstyrks mun það leiða til mikillar óeiningar í þjóðfélaginu því umræðan hefur sýnt að ágreiningurinn er mikill. Og þá er ég að vísa til 3. mgr. 3. gr. þar sem segir að til að nýta land og landsréttindi innan þjóðlendu að öðru leyti en greinir í 2. mgr. þurfi leyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar.

Vissulega fjallar frv. ekki um stjórnsýslu. Frv. fjallar um eignarréttindi. En eins og ég hef þegar getið um gerir frv. ráð fyrir skiptingu sveitarfélaganna, eða eins og þar segir, að hlutaðeigandi sveitarstjórnir veiti leyfi til nýtingar á landi og landsréttindum innan þjóðlendna enda erum við farin að fjalla um stjórnsýsluna.

Ég tel nauðsynlegt að flytjendur skýri hvað átt sé hér við. Hvaða sveitarstjórnir er átt við? Frv. er galopið hér. Byggir frv. á þeirri hugsun að þjóðlendum verði skipt upp milli sveitarfélaga eins og frv. hæstv. félmrh., Páls Péturssonar, gerir ráð fyrir? Það kemur ekki fram í frv.? Menn vita að það frv. hefur mætt mikilli andstöðu í samfélaginu.

Í 1. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986, kemur fram sú meginregla að sveitarfélögin stýri sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð og í 4. gr. skipulagslaga, nr. 19/1964, segir að öll sveitarfélög séu skipulagsskyld. Enn fremur segir að allar byggingar ofanjarðar og neðan og önnur mannvirki, sem áhrif hafa á útlit umhverfisins, aðrar en byggingar á lögbýlum, skuli byggð í samræmi við áður gerðan skipulagsuppdrátt, sem samþykktur hefur verið af hlutaðeigandi sveitarstjórn og skipulagsstjórn ríkisins.

Hér erum við komin að kjarna málsins. Ef þjóðlendufrumvarpið gerir ráð fyrir að skipta miðhálendinu upp milli sveitarfélaga þá eru sveitarfélögin komin með forræði á skipulagi miðhálendins. Þá kemur það í hlut einstakra sveitarfélaga að ákveða samspil landnýtingar og náttúruverndar. Þau skipuleggja þetta sameiginlega svæði, fara með byggingarmál, eftirlit með hollustu o.s.frv. eins og áður hefur verið rætt í þessum þingsal.

Það er hlutverk ríkisins, landskjörinna stjórnvalda, að fara með þessi mál. Með því er tryggt að meiri hluti þjóðarinnar komi að ákvörðun um landnýtingu og stjórnsýslu á miðhálendinu. Það er eðlilegt að landskjörin stjórnvöld ákveði stefnu í ferðamálum og í orkumálum, að landskjörin stjórnvöld ákveði náttúruvernd, landnýtingu o.s.frv. á þessu sameiginlega svæði okkar landsmanna.

Ókostirnir við það að hin staðbundnu stjórnvöld fari með þetta vald koma berlega fram í svæðaskipulaginu sem er auðvitað, eins og menn vita, skipulagstillögur þeirra sveitarfélaga sem liggja að miðhálendinu, eða umboðsmanna mikils minni hluta þjóðarinnar. Þar speglast að mörgu leyti hagsmunir viðkomandi sveitarfélaga sem í mörgum tilvikum ríma ekki við heildarhagsmuni þjóðarinnar. Fram kemur í athugasemdum við svæðaskipulagið að það rími ekki við þær virkjunarhugmyndir sem landskjörin stjórnvöld hafa mótað. Þá er mjög óeðlilegt að staðbundin stjórnvöld séu að skipuleggja svæði áður en stefnumótun í ferðaþjónustu hefur litið dagsins ljós. Í skipulagstillögum kemur fram að staðbundnir hagsmunir eru í fyrirrúmi enda er lítið gert með beitarfriðun þar sem hún er ekki talinn þáttur í skilgreiningu verndarsvæða í skipulagstillögunni.

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka að málflutningur félmrh. hefur verið mjög villandi þegar hann klifar stöðugt á því að sá hluti lands sem er utan eignarlanda og afrétta sé ekki annað en jöklar. Af hans málflutningi má ráða að sveitarfélög séu þegar komin með stjórnsýslu á þessu svæði.

Þetta er fráleitur málflutningur. Hann er bæði villandi og beinlínis rangur enda notar hann gjarnan orð eins og: ,,næstum allt svæðið``. Hið rétta er að drjúgur hluti landsins flokkast undir eignarréttarhugtakið ,,almenning`` og er einskismannsland, enda væri félmrh. ekki svo umhugað um að skipta þessu svæði upp milli sveitarfélaga ef þau væru þegar komin með stjórnsýslu á þessu svæði.

Virðulegi forseti. Ég tel að frv. um þjóðlendur sé mjög gott frv. að mörgu leyti og við jafnaðarmenn styðjum megininntak þess. En ég tel þó að ekki verði unað við þá hugmynd sem fram kemur í 3. gr., þ.e. skiptingu landsins milli sveitarfélaga. Ég tel vel koma til greina að ljúka þjóðlenduferlinu fyrst og fá úr því skorið hvar mörk þjóðlendna og einkaeignarlaga liggja. Síðan er hægt að taka afstöðu til þess hvers konar stjórnsýslumörk við viljum hafa. Það er alls ekki sjálfgefið að skipta miðhálendinu upp á milli sveitarfélaga og þar með skipta stjórnsýslunni á milli þeirra. Það kæmi allt eins til greina að miðhálendið yrði allt ein stjórnsýsluleg heild. Síðan færi landskjörið stjórnvald með stjórnsýsluna, en nauðsynlegt væri að tryggja aðkomu sveitarfélaganna að henni. Með því móti væru áhrif og völd allrar þjóðarinnar tryggð.

Virðulegi forseti. Formaður Alþfl., Sighvatur Björgvinsson, gerði það að tillögu sinni hér fyrr í dag að hin skyldu frumvörp sem eru til umræðu í dag og eiga eftir að koma til umfjöllunar Alþingis, fari til sérstakrar nefndar þannig að tryggt sé að þau verði unnin skilmerkilega út frá því sjónarmiði sem hvert þeirra setur fram og með það að leiðarljósi að Alþingi vinni sem best og afgreiði mál eins og best verður unað við.