Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 12:50:45 (3458)

1998-02-05 12:50:45# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[12:50]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um þjóðlendur sem er eitt fjölmargra frv. sem liggja fyrir þinginu um eignarhald á landi, ákvarðanir um stjórnsýslu, nýtingu og umhverfismál á miðhálendi Íslands.

Þjóðlenda er nýtt hugtak eins og fram kemur í greinargerð og í frv. sjálfu. Ég held að rétt sé að íhuga vel skilgreiningu á því. Þetta er hugtak sem er okkur ekki tamt en eins og kemur fram í greinargerð er það notað fyrir landsvæði utan eignarlanda sem tekur til landsvæða sem nú eru ýmist nefnd afréttur, almenningur, óbyggðir eða hálendi utan eignarlanda. Þá falla jöklar sem teljast ekki innan eignarlanda undir þjóðlendur.

Með frv. er verið að slá eign ríkisins yfir þau landsvæði sem enginn á og því er ég fyllilega sammála og ég fagna því að mörgu leyti þessu frv. Samkvæmt frv. er forsrh. yfirmaður þjóðlendna og getur einn veitt leyfi til að nýta vatns- og jarðhitaréttindi, námur og önnur jarðefni innan þjóðlendna. Til að nýta land og landréttindi að öðru leyti þarf leyfi viðkomandi sveitarstjórna og bæði sveitarstjórnum og forsrh. er heimilt að semja um gjald fyrir nýtingu.

En hvernig á að verja gjaldinu? Skv. 3. gr. frv. á að verja tekjum af leyfum til nýtingar lands skv. 2. mgr. til landbóta, umsjónar, eftirlits og sambærilegra verkefna innan þjóðlendna eftir nánari ákvörðun forsrh. Tekjur af leyfum sem sveitarstjórn veitir skal varið til svipaðra verkefna innan þeirrar þjóðlendu sem leyfið tekur til.

Virðulegi forseti. Kannast þingheimur ekki við þessa nálgun frá öðrum lögum, nefnilega lögum um stjórn fiskveiða? Jú, það er viðurkennt samkvæmt frv. og lögum um stjórn fiskveiða að þjóðlendurnar séu almenningseign á sama hátt og fiskimiðin en nýtingarrétturinn á að fara til einstaklinga gegn vægu gjaldi, sem rennur til viðkomandi málaflokks, þ.e. til þjóðlendnanna sjálfra eða hins vegar til sjávarútvegsins. Ekki er litið á þetta sem grundvallarauðlindir þjóðarinnar sem þjóðin öll eigi að njóta afrakstursins beint. Þó að ríkisstjórnarflokkarnir viðurkenni með frv. að miðhálendið, þjóðlendurnar, eigi að vera sameign íslensku þjóðarinnar eins og þeir hafa formlega gert um fiskimiðin er augljóst hvers vegna Sjálfstfl. náði ekki saman með Alþfl. um þessi mál í síðustu ríkisstjórn því í raun er um grundvallar\-ágreining að ræða. Grundvallarágreiningurinn felst m.a. í því hvernig á að fara með afraksturinn af auðlindunum, af þjóðlendunum, þó að raunar sé mun skýrar tekið á því máli í frv. iðnrh. um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu sem verður til umræðu á eftir. Þar er nefnilega skýrt kveðið á um hvernig á að fara með nýtingarrétt á auðlindum í jörðu á eignarlandi.

Ég verð, herra forseti, að leyfa mér að fara aðeins út fyrir frv., það er mjög erfitt að ræða það eitt og sér því að þessi mál hanga öll saman. Í frv. iðnrh. er gert ráð fyrir og að landeigendur eigi land alveg niður að miðpunkti jarðar og það er þá augljóslega stefna ríkisstjórnarinnar og þetta frv. breytir engu um það. Í frv. ríkisstjórnarinnar er ekki gert ráð fyrir að ríkið og landsmenn allir njóti góðs af gjaldtöku af þessum auðlindum eins og gert er í frv. jafnaðarmanna og Kvennalista. Þar er hugsunin alveg skýr að almannahagsmunir séu ráðandi, að auðlindirnar séu sameign þjóðarinnar. Því eigi að taka auðlindagjald sem ásamt umhverfissköttum geti smám saman verið uppistaðan í skattheimtu á landsmenn og leyst hinn óréttmæta tekjuskatt einstaklinga smám saman af hólmi sem eina helstu tekjulind ríkisins.

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að þrátt fyrir beiðni forseta er mjög erfitt að ræða þetta mál eitt og sér því að þetta tengist mjög mörgum frv., bæði þeim sem hér liggja fyrir svo og lögunum um stjórn fiskveiða. Með frv. er forsrh. fengið mjög mikið vald, bæði til að skipa alla nefndarmenn í óbyggðanefnd og til að setja reglugerð um nýtingu þjóðlendna, samanber 4. gr. frv. Óbyggðanefnd er falið stórt hlutverk sem er þó útfært nokkuð vel í frv., samanber 7. gr. og síðan ýmsar greinar þar á eftir. Í frv. er þó mjög óljóst hvaða reglur eiga að gilda um umhverfismat í kringum nýtingu á landi, vatni eða jarðhita innan þjóðlendanna. Ég spyr hvort það sé vegna þess að þarna eiga að gilda almenn lög um umhverfismat. Ég væri mjög ósátt við það. Eða hefur hreinlega gleymst að fjalla um þennan mikilvæga þátt í frv.? Ég vil gjarnan spyrja hæstv. forsrh. um þetta.

Ég get tekið undir með hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að hér er að mörgu leyti um gott frv. að ræða og það er gott markmið að með þjóðlendufrv. er viðurkennt að ríkið eigi þau landsvæði sem eru til umræðu. Stóri vandinn er hins vegar sá að þetta virðist vera meira formleg viðurkenning en nokkuð annað, samanber við fiskveiðistjórnarlögin, og engan veginn er tryggt að hálendið verði skipulagslega á einni hendi, sem ég tel mjög mikilvægt, þrátt fyrir yfirlýsingu hæstv. félmrh. áðan.

[13:00]

Ekki er heldur tryggt að þjóðin njóti afrakstursins af þeim auðlindum sem í þjóðlendusvæðunum finnast og kemur þar tvennt til. Annars vegar er gefið til kynna að gjaldtaka af nýtingarleyfum verði mjög hógvær þar sem hún á fyrst og fremst að renna til uppbyggingar innan þjóðlendnanna og í öðru lagi má ætla að forræði sveitarfélaga verði til þess að hugsanleg aðstöðugjöld af virkjunum og öðru renni til einstakra sveitarfélaga en ekki til ríkisins.

Það sem ekki er síður athyglisvert er að umræðan er um margt á mjög svipuðum nótum og umræðan um forræði íslensku þjóðarinnar yfir fiskimiðunum. Þar á ég bæði við afstöðu stjórnarflokkana núv. annars vegar og þingflokka jafnaðarmanna og Kvennalista hins vegar eins og hún kemur fram í þeim frumvörpum sem hér liggja frammi og einnig við sérstöðu Alþb. í þessu máli sem um margt virðist svipa til sérstöðu þeirra varðandi lögin um stjórn fiskveiða. Sú afstaða til þessara mála sem fram kemur í frumvörpum jafnaðarmanna og Kvennalista samræmist að mestu því frv. sem nú er til umræðu um þjóðlendur, þ.e. þessu frv. sem nú er formlega eitt til umræðu, þó augljóslega verði að breyta 3. gr. varðandi forræði sveitarfélaganna og hugsuninni um gjaldtöku, ef þessi frv. eiga að samræmast.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. en vil að lokum taka undir þá skoðun að mikilvægt er að öll þau mál sem nú liggja fyrir þinginu um málefni miðhálendisins verði rædd í þessari lotu, þ.e. að þau komist öll fljótlega á dagskrá þingsins og að einhver ein nefnd fái þau öll til umræðu til nauðsynlegrar samhæfingar, hvort sem það er ein af fastanefndum þingsins eða sérnefnd.

Við kvennalistakonur leggjum mikla áherslu á að miðhálendi landsins verði gert að friðlandi sem lúti sérstakri stjórn og sérstakri löggjöf með vernd náttúrunnar í fyrirrúmi og að hvers konar nýting og mannvirkjagerð verði háð ströngu mati og skilyrðum um umhverfisvernd. Miðhálendið á að vera sameign þjóðarinnar allrar, bæði í orði og á borði. Þjóðlendurnar eru ómetanleg auðlind sem ekki eiga að lúta ströngum sérhagsmunum. Þær á að vernda og nýta í þágu almannaheilla.