Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 14:11:11 (3469)

1998-02-05 14:11:11# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[14:11]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er allt í graut hjá hv. þm. jafnaðarmanna hér í þessari umræðu og ekki síst hjá síðasta hv. ræðumanni. Hver lagði lagagrunninn að þeirri vinnu sem fram hefur farið varðandi skipulag miðhálendisins? Það var Alþingi allt að frumkvæði Alþfl., þingmanna hans og ráðherra. Þar sem vísað hefur verið til frv. félmrh. sem hefur komið með vissa leiðréttingu á sínum gjörningi, þá breytir það ekki því að landið er skipulagsskylt. Viðstaddir þingmenn jafnaðarmanna lögðu blessun sína yfir það sl. vor að áframhaldandi vinna að málinu yrði felld að þeim skipulags- og byggingarlögum sem þá voru samþykkt. Það samþykktu menn.

Það er bara allt annað mál hvort ég er samþykkur þessu skipulagi í hólf og gólf. Ég get upplýst hv. þm. um það að ég skilaði athugasemdum við skipulagið á tíu blaðsíðum samkvæmt auglýstum fresti. Ég veit ekki hvað hv. þm. hefur gert. Auðvitað þarf að gaumgæfa gjörninginn en það má ekki rugla öllu saman og tefla mjög þýðingarmiklum málum í tvísýnu, út af einhverjum áróðursbrögðum. Auðvitað er ekki hægt að kalla þetta neitt annað en ómerkilegan áróður þingmanna. Nema mönnum hafi svo snarsnúist hugur, þeir hafi kannski umpólast. Það væri verkefni fyrir þá sem hafa farið á pólinn að kanna sérstaklega hvort að þingflokkurinn hafi umpólast síðan sl. vor. Það kann að vera. En þetta er alveg með ólíkindum.

Af hverju flytur þingmaðurinn ekki brtt. um skipulagslög. Það kæmi vel til greina og þannig væri gætt fyllstu samkvæmni í sambandi við skipulagstök á miðhálendinu. Ég er þeirrar skoðunar að það þyrfti að gera. Það þyrfti að styrkja ákvæði skipulagslaga og ég er að sjálfsögðu reiðubúinn að skoða það.