Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 17:50:30 (3530)

1998-02-05 17:50:30# 122. lþ. 60.3 fundur 238. mál: #A stjórnarskipunarlög# (eignarréttur á náttúruauðæfum og landi) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[17:50]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér hefur verið mikil umræða í allan dag, um margt mjög athyglisverð og góð að mínu mati, þar sem að langmestu leyti málflutningur hefur verið á afar efnislegum og málefnalegum og upplýsandi nótum um stór og mikilvæg þjóðþrifamál sem eru fyrirkomulag og meðferð á eignarhaldi eða stjórnsýslu á hálendinu og mál af því tagi sem við ræðum nú sem er frv. til stjórnskipunarlaga og varðar það hvernig búið verði um í löggjöf eða stjórnarskrá, ákvæði sem varðar sameiginlegar eignir þjóðarinnar í formi lands, orku og annarra slíkra félagslegra sameigna, sem sameign þjóða á réttindum eða gæðum af þessu tagi hlýtur eðli málsins samkvæmt að vera.

Ég hef ekki, að því er ég hef heyrt umræðuna og fylgst með ýmist hér í salnum eða í gegnum sjónvarp, heyrt nema eitt frávik frá þessari málefnalegu og efnislegu umræðu í allan dag og það er innlegg formanns Alþfl. hér áðan sem var auðvitað með ólíkindum. Það er fullkomlega fráleitur málflutningur að mínu mati að kvarta undan þeim efnislegu athugasemdum sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og hv. þm. Ragnar Arnalds hafa gert undir umræðunni í dag og að mestu leyti sneru að sögulegum atriðum sem varða framlag flokka í gegnum tíðina, til þess að þróa umræður eða hugtök á þessu sviði og tillöguflutning hér á þinginu. Það er furðulegt að líkja því við árásir á Alþfl. eða tala um það sem stjórnarandstöðu við Alþfl. Ég vissi nú ekki að hann væri bara heil ríkisstjórn í sjálfu sér þannig að hægt væri að fara í stjórnarandstöðu við hann hvar sem hann er staddur í litrófinu og þó að hann sé í grenjandi minni hluta, þá sé hann samt einhvers konar ríkisstjórn sem menn geti lent í stjórnarandstöðu við. Það er sérkennilegt. Og enn furðulegra er að líkja t.d. athugasemdum eins og hv. þm. Ragnar Arnalds gerði í umræðunni í dag varðandi bæði efnislegan mun á áherslum Alþb. annars vegar og þingflokks Alþfl. eða jafnaðarmanna hins vegar, við árásir. Það er bókstaflega fráleitt.

Enn ósmekklegri, herra forseti, voru tilraunir hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, formanns Alþfl., til að fara að reka fleyg á milli þingmanna í öðrum flokkum. Ég minnist þess ekki oft að hafa heyrt slíkt uppi haft og framkoma hans í garð formanns Alþb. var með ólíkindum í þessari umræðu. Það var þá aldeilis innleggið í gott samstarf og góð samskipti þessara flokka.

Auðvitað hlýtur það að vera svo, herra forseti, að eðli málsins samkvæmt koma upp mál milli flokka þó að þeir séu saman í stjórnarandstöðu eða saman í ríkisstjórn þar sem þeir eru ekki með sameiginlegar áherslur og þá er eðlilegt að gerð sé grein fyrir því og menn geti ekki vikist undan því. Það eru ekki árásir þó að farið sé yfir mismunandi áherslur tveggja stjórnarandstöðuflokka í máli af þessu tagi og það er óskaplegur misskilningur ef hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gengur orðið um með þá grillu í höfðinu að hann ráði orðið yfir eða fyrir málflutningi þingmanna Alþb. Það er ekki svo. Við höfum enn prókúruna á því og gerum vonandi áfram um skeið að ráða orðum okkar og það gera auðvitað þingmenn hver fyrir sig. Þess vegna er með öllu fráleitt að blanda sér inn í umræðurnar á þeim nótum sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gerði áðan.

Herra forseti. Efnislega um þetta mál er ég þeirrar skoðunar að það sé mjög mikilvægt að koma grundvallaratriðum af því tagi sem fyrirkomulag á sameiginlgum eignum eða auðlindum þjóðarinnar eru, inn í stjórnarskipunarlögin, inn í stjórnarskrána, þ.e. almennum leiðbeinandi reglum í þeim efnum og taka þar af tvímæli. Síðan má að sjálfsögðu, og er yfirleitt gert, útfæra einstök atriði nánar í sérlögum. Þess vegna held ég að viðbótargrein við stjórnarskrána af því tagi sem hv. þm. Ragnar Arnalds ásamt fleirum, hefur flutt í frumvarpsformi --- hann hefur reyndar lengi flutt sambærileg ákvæði --- eigi tvímælalaust heima í stjórnarskrá. Að sjálfsögðu er ég svo einnig efnislega sammála því að þessi réttind eigi að vera félagslegar sameignir.

Reyndar vil ég láta það sjónarmið mitt koma fram að ég er hrifnastur af því sem ég kalla stundum grænlenska fyrirkomulagið. Í menningu Grænlendinga var og er hugtakið séreign á landi eða veiðislóð ekki til og Grænlendingum gekk lengi mjög illa að skilja það þegar aðrar þjóðir fóru að nema þar land eða koma þar við sögu, hvað menn væru að fara þegar þeir voru að helga sér land eða ætluðust til þess að þeir gætu átt einhvern blett því að þeim var það í blóð borið og það var inngróið í þeirra menningu að þetta ættu allir saman, þ.e. réttinn til að ferðast um landið, setja sig niður, taka sér bækistöð og veiða, þetta væri sameiginleg eign allra. Og vegna þess að séreignaréttur var ekki kominn á í Grænlandi og var ekki í þeirra menningu, þá gátu þeir komið í lög þeirri skipan mála að það á enginn land. Það sem menn eiga er þá tiltekinn réttur tímabundinn. Það er t.d. ekki hægt að eiga lóð undir hús í Grænlandi en hægt er að hafa byggingarrétt eða lóðarrétt í 99 ár. Þetta held ég að sé besta fyrirkomulagið og það fari best á því að það sem menn hafa sé afnotaréttur en ekki eignarréttur. Það mundi greiða úr annars mörgum vandamálum af því tagi sem við höfum verið að ræða einmitt í dag og varðar fyrirkomulag á almenningum og þess hvernig mörkin eru dregin milli almenninga í sameign og einkaeignar á afmörkuðu landi.

En því er ekki að heilsa að sú skipan mála hafi verið við lýði hér á Íslandi, enda er okkar saga og okkar menning önnur. Hér hafði séreign að sjálfsögðu komist á fyrir löngu síðan. Menn helguðu sér tiltekið land þegar þeir námu land eins og kunnugt er og æ síðan hefur sú skipan verið við lýði hér. Þar af leiðandi er ég sammála þeirri niðurstöðu að það var ekki raunhæft og er ekki raunhæft að flytja tillögur af því tagi sem Alþfl. gerði á áttunda áratugnum um að þjóðnýta allt land á Íslandi eða ég ímynda mér ekki að um það geti orðið mikil sátt í fyrirsjáanlegri framtíð. Því er tillöguflutningur eða fyrirkomulag af því tagi sem þetta frv. gerir ráð fyrir tvímælalaust skynsamlegri nálgun.

Hv. þm. Ragnar Arnalds rakti mjög ítarlega, að vísu greinilega við litla hrifningu sumra, frumkvæði Alþb. í þessu máli. En ætli mönnum muni ekki ganga seint að endurskrifa söguna svo nærri atburðunum eins og hér er verið að reyna þegar ekki er um meira en 30 ára sögu að ræða eða svo og gögnin liggja fyrir í jafnmerkilegum pappírum og þingskjölunum, þingtíðindunum og þingskjölunum, að þá verði því við snúið hverjir eiga frumkvæðið að þessu. Ég held ekki þannig að ég held að þessi þræta sé tilgangslaus fyrir hv. þingmenn Alþfl., þeir séu fyrir fram dæmdir til að tapa henni, ef ekki í núinu þá a.m.k. í framtíðinni því að vandaðir sagnfræðingar munu væntanlega ekki láta taka sig í bólinu hvað það snertir að reyna að falsa þingtíðindin.

Sömuleiðis er ástæða til að minna á að alveg nákvæmlega sams konar tilburðir hafa verið uppi af hálfu alþýðuflokksmanna --- og nú er ég sjálfsagt orðinn einn af þessum vondu mönnum sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson var að gráta undan áðan --- en það er nú staðreynd samt að nákvæmlega sömu tilburðir hafa verið hafðir uppi til þess að þegja yfir eða beinlínis rangfæra frumkvæði þingmanna Alþb. að því að koma inn í lög ákvæðum um sameign á fiskstofnum. Því hverjir voru það sem fluttu það fyrst í formi þingmála hér þar sem tekið var til fiskstofnanna sérstaklega? Það voru þingmenn Alþb. Í neðri deild í byrjun desember 1983 fluttum við þrír þingmenn Alþb., sá sem hér talar, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og hv. þm. Geir Gunnarsson, fyrstu brtt. um það efni og hún var felld svo merkilegt sem það nú er og mönnum til umhugsunar. Þá var málið ekki lengra komið en svo að meiri hluti þáverandi þingmanna hikaði ekki við að fella ákvæði nákvæmlega samhljóða því sem síðar kom inn í lög um að fiskstofnanir ættu að vera sameign þjóðarinnar. En sem betur fer þróaðist málið og umræðan og menn tóku rökum og þar kom að um miðjan níunda áratuginn var orðinn meiri hluti fyrir þessu og það var fært inn í lögin á árunum 1987--1988, ef ég man rétt, og síðan voru þau ákvæði aftur styrkt í sessi árið 1990, um sameign þjóðarinnar á fiskstofnunum. Ég leyfi mér að fullyrða að sömuleiðis hvað þetta mál snertir sem við erum hér að tala um, þá hefur dropinn holað steininn og það eru greinilega miklu jákvæðari viðhorf ríkjandi gagnvart því að ganga lögformlega frá því í stjórnarskrá eða lögum t.d., að þjóðin eigi sameiginlega almenningana og miðhálendið og það er vel. Og því ber að fagna að þetta frumkvæði þingmanna Alþb. hefur skilað sér í verulegum árangri á þessu sviði.

[18:00]

Að lokum, herra forseti, er vert að minnast aðeins á auðlindagjaldsákvæðin í frv. þessu sem við hv. þingmenn Alþb. stöndum að í sameiningu. Ég tel þá nálgun sem þar er mjög skynsamlega og ég ætla að gerast svo spámannlega vaxinn að segja að það verði niðurstaðan í þessu mikla máli sem svo mikið hefur verið rætt í tengslum við gjaldtöku fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum. Ég tel a.m.k. að nálægt þessu muni niðurstaðan að liggja að lokum. Ég held sæmileg sátt muni takast um það með þjóðinni að eðlilegt sé að atvinnugreinar sem njóta auðlinda af þessu tagi og hafa í sínum höndum réttinn til þess að nýta gæðin í þágu þjóðarinnar, leggi sitt af mörkum. Þeir fá þennan rétt frá þjóðinni gegnum löggjafann og greiða til baka hófsamlega til að standa straum af þeim kostnaði sem hlýst af nauðsynlegum rannsóknum af stýringu nýtingarinnar og af öðru því sem tengist því máli. Að öðru leyti séu þær greinar eins settar og aðrar atvinnugreinar, greiði sína skatta og skili verðmætum sínum inn í þjóðarbúið nákvæmlega eins og aðrar. Í sjónmáli er farsæl niðurstaða í þessum efnum, enda hafa andstæð sjónarmið nálgast.

Það er athyglisvert að talsmenn þeirra tillagna sem Alþfl. hefur borið inn í þingið í þessu efni eru smátt og smátt að ná sér niður úr skýjunum eins og hæstv. forsrh. hefur reyndar verið iðinn við að benda á. Að því leyti til má segja að málin hafi nálgast úr báðum áttum og það stefni í niðurstöðu nákvæmlega á þeim nótum sem við þingmenn Alþb. erum að leggja hér til. Ég spái því að það verði að lokum niðurstaðan. Hvað þetta atriði varðar tel ég eðlilegt að einfalt ákvæði um það komi inn í stjórnskipunarlög. Síðan geta menn útfært nákvæmar hvernig búið verði að þessu að öðru leyti í sérlögum.

Ég hef að vísu á þann fyrirvara að ákveðnir þættir sem tengjast auðlindanýtingu af þessu tagi, eins og annarri atvinnustarfsemi, eigi ætíð að greiðast af ríkinu. Ég er t.d. þeirrar skoðunar að grunnrannsóknir eigi að greiðast af ríkinu ótengt atvinnugreinum. Ég held að það sé nauðsynlegt svo þekkingaröflun og rannsóknir á hverjum tíma séu ævinlega og örugglega óháðar skammtímahagsmunum. Grunnrannsóknirnar séu þá kostaðar af sameiginlegu aflafé en ekki af tengdum atvinnugreinum til að mynda.

Þjóðir sem hafa leiðst út á þá braut að hagsmunir atvinnulífsins hafi ráðið ferðinni um of hafa oft lent úti í mýri vegna þess að að þá hafa skammtímahagsmunir ráðið of miklu um áherslu þá sem lögð er á þekkingaröflun og menn hafa ekki reynst nægilega framsýnir í þeim efnum. Varðandi það orðalag sem ég hef af okkar hálfu sett, set ég þennan fyrirvara. Ég sé það ekki endilega þannig að t.d. grunnrannsóknir í háskólastofnunum eigi að færast undir þennan hatt en það geta ýmsar hagnýtar rannsóknir gert. Ýmis þjónustustarfsemi af hálfu stjórnvalda við atvinnugreinina gæti gert það og reyndar eru atvinnugreinarnar þegar farnar að sjá sjálfar um að standa straum af kostnaði í ríkum mæli, t.d. ýmiss konar eftirlitsstarfsemi sem sjávarútvegurinn hefur tekið á sínar herðar, veiðieftirlitið, og fleiri greinar hafa tekið á sig kostnað.

Þetta vildi ég, herra forseti, láta koma fram í tengslum við þessa umræðu þó ég neyddist til að taka nokkrar mínútur í hinn sérkennilega málflutning þingmanna Alþfl. sem reyndu að búa til storm af litlu tilefni.