Þjóðgarðar á miðhálendinu

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 18:38:09 (3536)

1998-02-05 18:38:09# 122. lþ. 60.5 fundur 406. mál: #A þjóðgarðar á miðhálendinu# þál., Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[18:38]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að taka þetta mál fyrir á þessum fundi. Það er nýlega fram komið í þinginu, þessi till. til þál. um þjóðgarða á miðhálendinu. Ég vil leyfa mér að lesa tillögutextann, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta undirbúa, í samvinnu við skipulagsyfirvöld og hugsanlega rétthafa, stofnun fjögurra þjóðgarða á miðhálendi Íslands er hafi innan sinna marka helstu jökla og aðliggjandi landsvæði. Ráðherra kynni Alþingi stöðu málsins á vorþingi 1999 og stefnt verði að formlegri stofnun þjóðgarðanna árið 2000.``

Þetta er tillögugreinin. Tillögunni fylgir greinargerð og sérstakur uppdráttur sem fylgiskjal til glöggvunar á tillöguflutningnum. Þar eru lauslega dregin hugsanleg mörk umræddra þjóðgarða og þeirra svæða sem þeim gætu tengst í nágrenni umræddra jökla.

Ástæður fyrir því að þessi tillaga kemur nú fram eru kannski fleiri en ein. En það sem hvatti flutningsmann þó mjög til að leggja málið fram var sú tillaga að svæðisskipulagi fyrir miðhálendi Íslands sem kynnt hefur verið og lá frammi til umsagnar til 10. desember sl. Í athugasemdum mínum við það svæðisskipulag sem ég kom á framfæri við samvinnunefndina vék ég að því máli sem hér er reifað sem þingmál, að vænlegt væri til árangurs sem vinnuaðferð, að koma á fót þjóðgörðum sem tækju til helstu jökla miðhálendisins og aðliggjandi svæða. Eftir að ég hafði rætt þetta mál við nokkra aðila fann ég að hljómgrunnur var fyrir því að skoða verndun á miðhálendinu út frá því sjónarmiði sem hér er lagt til.

Vissulega geri ég ráð fyrir því að talsverð umræða og athugun þurfi að fara fram áður en slík tillaga fær afgreiðslu. Ég lít því á það sem vænlega aðferð að þessi tillaga sem ég legg til að verði vísað til hv. umhvn. þingsins, verði send út til umsagnar. Ég er reiðubúinn til þess að endurskoða eða endurmeta málið út frá undirtektum, en jafnframt leita frekara fylgis á Alþingi við þá meginhugsun sem sett er fram í tillögunni. Þá geri ég ráð fyrir því að tillagan, verði hún ekki samþykkt á þessu þingi sem ég geri vart ráð fyrir að svigrúm verði til eða aðstæður, yrði endurflutt í byrjun næsta þings og þá hugsanlega breytt í ljósi þeirra ábendinga sem fram koma í þinginu og athugasemda þeirra sem umsögn gefa.

Gert er ráð fyrir samkvæmt tillögunni að stofnaðir verði fjórir þjóðgarðar á miðhálendinu og verði jöklar og aðliggjandi svæði kjarninn í hverjum þeirra. Samkvæmt alþjóðlegri hefð sem á uppruna sinn í Bandaríkjum Norður-Ameríku og mótast hefur frá því á 19. öld er litið á þjóðgarða sem víðlend og verðmæt náttúruverndarsvæði á landi í ríkiseign. Við Íslendingar höfum tekið upp þessa stefnu sem endurspeglast m.a. í friðlýsingu í Skaftafelli þar sem stofnað var til þjóðgarðs 1967 og í stofnun þjóðgarðs í Jökulsárgljúfrum að náttúruverndarlögum nokkru síðar.

Kröfur til verndunar eru almennt miklar í þjóðgörðum, en jafnframt er gert ráð fyrir að fólki sé leyft að njóta náttúru þeirra ,,að svo miklu leyti og á þann hátt sem skili þeim óspilltum og til yndisauka fyrir ókomnar kynslóðir`` svo vitnað sé til bandarísku þjóðgarðalaganna.``

Í okkar náttúruverndarlöggjöf, nr. 93/1996, er kveðið á um skilyrði varðandi stofnun þjóðgarða í 29. gr. Ég tel rétt að lesa þá grein hér upp, með leyfi forseta, en þar stendur:

,,Umhverfisráðherra getur, að fengnum tillögum eða áliti Náttúruverndar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruverndarráðs, lýst landsvæði þjóðgarð, enda sé það sérstætt um landslag, gróðurfar eða dýralíf eða á því hvílir söguleg helgi þannig að ástæða sé til að varðveita það með náttúrufari sínu og leyfa almenningi aðgang að því eftir tilteknum reglum.

Landsvæði þjóðgarða skulu vera í ríkiseign, nema sérstakar ástæður mæli með öðru og um það náist samkomulag milli umhverfisráðherra og landeigenda.

Ráðherra er heimilt að stofna ráðgjafarnefnd með þátttöku hlutaðeigandi sveitarstjórna til að fjalla um rekstur og skipulag þjóðgarða.

Umhverfisráðherra setur, að fenginni tillögu Náttúruverndar ríkisins, reglugerð um meðferð og rekstur þjóðgarða og umgengni almennings.``

Þetta er 29. gr. laganna, en nánar er kveðið á um framkvæmd friðlýsingar í 33. gr. náttúruverndarlaga og um umsjón og rekstur friðlýstra svæða í 6. og 7. gr. sömu laga.

[18:45]

Ég legg áherslu á það við flutning þessa máls að ekki aðeins æðstu stjórnvöld náttúruverndarmála, hæstv. umhvrh., Náttúruvernd ríkisins og fleiri sem vísað er til í lögunum komi að þessu máli heldur tel ég brýnt að fólk á þeim svæðum sem liggja að miðhálendinu líti á stofnun þjóðgarðanna sem jákvæða aðgerð og komi að undirbúningi hennar og eigi hlut í stjórnun svæðanna. Því ber að leggja áherslu á nána samvinnu stjórnvalda við heimaaðila, hlutaðeigandi skipulagsyfirvöld og hugsanlega rétthafa við undirbúning málsins.

Ég vek athygli á því og vísa þá til uppdráttar og nánari lýsingar á hugsanlegri afmörkun umræddra þjóðgarða að að hluta til liggja þessi mörk að heimalöndum jarða. Það á m.a. við um svæðin við sunnanverðan Vatnajökul og sunnanverðan Mýrdalsjökul og Eyjafjallajökul svo dæmi séu tekin. Það eru kannski aðalsvæðin þar sem svona hagar til. Í þessum efnum reynir að sjálfsögðu, þegar kemur að svæðinu utan sjálfra jöklanna, á samkomulag við heimamenn og rétthafa og verður ekki lengra gengið en samkomulag næst um.

Auðvitað má hugsa sér, og það er tekið fram í greinargerð með tillögunni og kemur fram í uppdrætti, að einstök svæði hljóti verndun samkvæmt öðrum ákvæðum náttúruverndarlaga en greininni um þjóðgarða en verði samt með vissum hætti felld að þjóðgörðunum sjálfum og gætu notið þess hagræðis að umsjón væri samræmd og yrðu þá hluti af umsjón þjóðgarðanna með nánara samkomulagi. Það tel ég að komi fyllilega til álita. Svo hagar til að sum þeirra svæða sem eru í nágrenni við stóru jöklana hafa einmitt verið sett á náttúruverndarskrá eða verið friðlýst beint. Dæmi um slíkt er friðland á Lónsöræfum eða í Stafafellsfjöllum, Kringilsárrani og Hvannalindir norðan Vatnajökuls. Þetta eru dæmi. Sama gildir um Eldborgaraðir sem almennt eða oftast eru kallað Lagagígar, en hér er fylgt málvenju heimamanna í nafngift. Einnig má nefna Þjórsárver við sunnanverðan Hofsjökul sem er þegar friðlýst svæði.

Með þeirri gjörð sem hér er gerð tillaga um væri verið að tryggja og ákvarða betur en nú er, verndun á stórbrotinni og einstæðri náttúru sem tengist jöklum miðhálendisins og næsta nágrennis þeirra. Jöklarnir sjálfir verðskulda að sjálfsögðu vernd og þarf að hafa uppi ákveðnar reglur í sambandi við meðferð þeirra. Ég vek athygli á því að jöklarnir eru bakhjarl í vatnsbúskap landsins á vissan hátt, jafnt vatni á yfirborði sem og grunnvatni sem sumpart kemur fram í lindám þannig að af þeim sökum er að sjálfsögðu skylt að tryggja hreinleika þessara svæða þannig að þau mengist ekki af gáleysi eða vegna mannanna tilverknaðar. Einnig eru þessi svæði í vaxandi mæli með mikið aðdráttarafl fyrir ferðaþjónustu og nú þegar að nokkru leyti nýtt af aðilum í ferðaþjónustu. Við þá þarf að sjálfsögðu að leita samkomulags í sambandi við þessi mál sem hér er gerð tillaga um og gildir það um þá sem aðra sem teljast ljóslega rétthafar.

Ég vek einnig athygli á því að jöklar landsins eru það afl sem hefur verið mikilvirkast í landmótun hérlendis eftir að ísöld gekk í garð eða það tímabil sem við köllum einu nafni ísöld og hófst hér fyrir nokkrum milljónum ára. Algeng viðmiðun er fyrir rösklega 3 millj. ára, en kannski var hún hafin að einhverju leyti nokkru fyrr en það tímatal segir til um. Það er því engin tilviljun að í nágrenni jöklanna er að finna bæði stórbrotið land vegna rofs og veðrunar en einnig mjög verðmætar minjar um landmótun sem vekja hvarvetna athygli þeirra sem fást við jarðfræðileg efni. Hér á Íslandi er að finna í náttúru landsins og ekki síst á miðhálendinu sýnishorn af aðstæðum sem ríktu sunnar í Evrópu og annars staðar en á Íslandi, á Norðurlöndum, suður af Þýskalandi og víðar og einnig er að finna í Norður-Ameríku, leifar af samspili jökla ísaldarskeiðanna og landsins sem var sunnan þeirra. Það er því eðlilegt að sjónir manna beinast að Íslandi þar sem þessar myndanir er að finna og þær liggja fyrir eins og kennslubók, opin bók til skoðunar og rannsókna.

Ferðaþjónustan er orðinn gildur þáttur í búskap okkar Íslendinga. Við þurfum að huga mjög vandlega að því að tryggja undirstöðu undir þá mikilvægu atvinnugrein. Það er alveg ljóst að náttúra landsins er aðalaðdráttaraflið fyrir þá sem sækja okkur heim og eins fyrir okkur Íslendinga sem ferðast um okkar land. Það fer því mjög vel á því og væri tvímælalaust til mikils stuðnings við þessa atvinnugrein, að stofnað væri til þjóðgarða eins og hér er gerð tillaga um og því er ástæða til þess að hvetja til þess að ráðist verði í slíkt við fyrstu hentugleika og það færi mjög vel á því að til slíkrar stofnunar þjóðgarða kæmi einmitt í tilefni komandi aldamóta þó ég geri mér ljóst að tíminn fram að þeim er ekki langur.

Ég legg líka áherslu á að auðvitað koma upp álitaefni í sambandi við þetta mál. Auðvitað er um að ræða hagsmuni af ýmsum toga sem tengjast þeim svæðum sem hér er gerð tillaga um. Á þá er að sjálfsögðu rétt og skylt að líta og meta. En þá verða menn einnig að fara yfir málin með opnum huga og gæta þeirra verðmæta sem við þurfum að gæta, gæta þess að þeim verði ekki spillt með mannlegum athöfnum og vera mjög gætnir þegar um er að ræða breytingu og röskun á þeim víðernum sem tengjast víða jöklum landsins og öðrum svæðum sem skylt er að vernda. Þó hér sé fyrst og fremst hugað að nágrenni stóru jöklanna, þá tek ég fram að auðvitað þarf að skoða allt hálendið eins og landið allt út frá verndunarsjónarmiði til viðbótar við það sem hér er lagt til.