Þjóðgarðar á miðhálendinu

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 19:02:26 (3538)

1998-02-05 19:02:26# 122. lþ. 60.5 fundur 406. mál: #A þjóðgarðar á miðhálendinu# þál., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[19:02]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þátttöku í umræðunni og það sem fram kom í máli hans. Ég er alveg sammála þeim ábendingum sem ráðherrann kom með og þær falla alveg að þeim sjónarmiðum sem bæði sumpart koma fram í tillögunni eða ég tel réttmæt í sambandi við meðferð mála af þessum toga. Það má e.t.v. segja að mér hafi láðst í framsögu minni áðan að taka skýrt fram að þó að ég hafi komið þessum sjónarmiðum á framfæri sem ábendingu eða athugasemd við tillögu að svæðisskipulagi miðhálendisins, þá var á mjög ákveðinn hátt höfð hliðsjón af þeim tillögum sem þar lágu fyrir og ég taldi mig geta tekið undir.

Sú skipan mála að tala um fjögur svæði eða fjóra þjóðgarða er einmitt til komin vegna þeirrar hugsunar sem einnig kemur fram í tillögu að svæðisskipulagi miðhálendisins, að gera ráð fyrir mannvirkjaleið eða mannvirkjabeltum eins og það er kallað, á tveimur stöðum yfir miðhálendið frá norðri til suðurs eða öfugt eftir því hvert menn horfa, þ.e. um Sprengisand og um Kjöl. Sama er látið gilda í þessari tillögu um Fjallabaksveg nyrðri eins og hann er stundum kallaður nú til aðgreiningar frá leiðinni nær Mýrdalsjökli, þannig að um Fjallabaksveg nyrðri þar sem er að finna vegslóða og raflínu, stofnlínu sem tengir hluta af hringtengingu landsins, er gert ráð fyrir aðgreiningu á milli Vatnajökulsþjóðgarðs og Mýrdalsjökulsþjóðgarðs eins og þeir eru hér kallaðir. Þetta eru ástæðurnar fyrir því að þarna er horft til aðgreiningar.

Jafnframt er í tillögunni lögð áhersla á það að til hagræðis og vegna þess hve þessi svæði eru landmótunarlega skyld og að mörgu leyti svipaðs eðlis, mætti hugsa sér allnána samfellu í yfirstjórn og eftirliti þessara svæða til sparnaðar varðandi aðkomu hins opinbera að málinu.

Ég óska hæstv. ráðherra til hamingju með það hvernig miðar með þjóðgarð á Snæfellsnesi og að það stefni í að þar verði hægt að ganga frá málum og tek mjög eindregið undir þau sjónarmið sem fram komu hjá hæstv. ráðherra um gildi þess máls og að við þurfum að gæta þess --- og það er einmitt ágætt dæmi --- að leggja ekki jöklana okkar undir umferð í of ríkum mæli. Það þarf að gæta hófs í því og verndarsjónarmiða að sjálfsögðu. Og vegna þess að hér er á ferðinni tillaga sem varðar miðhálendið sérstaklega, vil ég þó vekja athygli á því að auðvitað eru svipaðar aðstæður víðar á landinu og mætti með vissum hætti færa ekki ósvipuð rök fyrir því að bæta við verndarsvæði með sömu rökum. Þar nefni ég sérstaklega Drangajökul og svæðið hið næsta honum þar sem er að finna geysilega litríka og verðmæta náttúru sem dregur að sér fólk til skoðunar, hvort sem menn eru að halda á Hljóðabungu og Hrolleifsborg eða njóta veðurblíðu í Reykjafirði í næsta nágrenni.

Ég bendi á að á uppdrætti sem fylgir þessari tillögu hafa verið færð inn þau svæði sem eru á opinberri náttúruminjaskrá frá árinu 1996 á því sem kallað er miðhálendi Íslands. Eins og menn sjá er þar að finna allstór svæði. Raunar er sett undir sömu skilgreiningu á uppdrætti þau svæði sem eru vernduð samkvæmt sérlögum, þ.e. Mývatns- og Laxársvæðið með verndun sem nær alveg suður í jökul. Sama gildir um þjóðgarð á Þingvöllum sem er verndaður samkvæmt sérlögum. Hugmyndir hafa verið uppi um að færa út mörk hans til norðausturs sem mundu þá tengjast nokkurn veginn eða geta tengst Langjökulsþjóðgarði, hugsanlega með aðgreiningu um vegslóða sem er kominn ásamt raflínu norðan Skjaldbreiðar milli Langjökuls og Þórisjökuls og Skjaldbreiðar. En það er mál sem hugsanlega ber fyrir innan tíðar, þ.e. stækkun þjóðgarðs á Þingvöllum þó að ég véli ekki um málefni hans nú eins og á meðan ég átti sæti í Þingvallanefnd.

Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að orðlengja þetta frekar hér. Ég tek það fram að þó að megintillaga mín um nefnd sem fjalli um þetta efni sé umhvn. þá hef ég ekkert á móti því, ef að það þætti betra --- hugmynd er um að vísa ýmsum málum sem snerta eignar- og umráðarétt á miðhálendinu, til sérnefndar --- og ef það yrði að ráði, að tillaga þessi mætti út af fyrir sig alveg hljóta slíka vísun frá þinginu til sérnefndar. En aðaltillaga mín er samt um umhvn. sem auðvitað er eðlilegt að fái þetta mál til skoðunar og mun þá væntanlega leita álits margra á þeirri tillögu sem hér er flutt.

Ég fagna jákvæðum undirtektum hæstv. ráðherra við málið. Ég átta mig fyllilega á því að þetta mál er það stórt í sniðum að það þarf að gaumgæfa það. En vonandi verður það til þess að menn fái á vissan hátt nýja sýn til möguleikanna á því að vernda þarna stór svæði með því einmitt að taka jöklana inn í sem ekki er umdeilt að eru að langmestu leyti a.m.k. almenningar að gömlu tali, þjóðlendur þá samkvæmt skilgreiningum þess frv. sem rætt var fyrr á þessum fundi í dag.