Afturköllun stjórnarfrumvarps um bann við verkföllum sjómanna

Miðvikudaginn 11. febrúar 1998, kl. 13:35:52 (3636)

1998-02-11 13:35:52# 122. lþ. 64.91 fundur 210#B afturköllun stjórnarfrumvarps um bann við verkföllum sjómanna# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[13:35]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Í bréfi sem fulltrúar Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands sendu til ríkissáttasemjara er hvergi minnst á hið mikla þrekvirki stjórnarandstöðunnar sem nefnt var. Á hinn bóginn er vísað til fram komins frv. ríkisstjórnarinnar sem ástæðu til þess að bréfið er skrifað.

Í annan stað er vísað til þeirrar forsendu sem í því frv. er getið, að það þurfi sérstaka óháða nefnd til að koma málinu af stað.

Í þriðja lagi er því lýst yfir, með leyfi forseta: ,,Deiluaðilar hafa til þessa ekki fundið grundvöll til lausnar á yfirstandandi deilu en telja að starf nefndar óháðra aðila gæti hugsanlega leitt til lausnar á ágreiningi aðila á meðan frestun verkfalls stæði.``

Mér þykir fyrir því eins og fleirum að sjómannasamtökunum hafi yfirsést hið mikla þrekvirki stjórnarandstöðunnar og hin mikla framganga þeirra í þingsalnum. Auðvitað er miður að það afrek skuli hafa farið svona alveg fyrir ofan garð og neðan hjá þessum aðilum. En það er komið á daginn og orðið ljóst að deilan var í fullkomnum hnút og frv. ríkisstjórnarinnar varð til þess að aðilar leita nú annarra leiða en vísa í forsendur ríkisstjórnarinnar. Auðvitað er það svo að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa ætíð lýst því yfir að þeir vildu fyrst og fremst að aðilar hefðu sjálfir forræði málsins. Fyrst frv. ríkisstjórnarinnar varð til þess að mál skipuðust eins og stendur í bréfinu, sem ég vitnaði til, er sjálfsagt að láta á það reyna og ef sú verður niðurstaðan mun það frv. sem nú liggur fyrir að sjálfsögðu verða kallað til baka.