Lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 10:57:48 (3807)

1998-02-13 10:57:48# 122. lþ. 67.1 fundur 445. mál: #A lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara# (heildarlög) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[10:57]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég vil fagna því að þetta frv. er aftur komið fram. Eins og kom fram í framsöguræðu hæstv. menntmrh. var frv. flutt í fyrra eða á síðasta þingi en var þá ekki útrætt. Það er hins vegar fyllilega tímbært að sett verði ný lög um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra og það frv. sem hér liggur fyrir er mörgu leyti gott og tímabært.

Það er alveg ljóst að það sem helst kemur til með að valda ágreiningi varðandi frv. sem hér liggur frammi er 12. gr. Ég held að mjög mikilvægt sé að hv. menntmn. skoði það mál alveg sérstaklega vegna þess að þar takast auðvitað á tvö mikilvæg sjónarmið, annars vegar sjónarmið kennarasamtakanna og einnig Kennaraháskólans að aukin fagmenntun kennara sé ekki bara faggreinar heldur líka uppeldis- og kennslufræði og þess vegna sýna þessir aðilar því mikið viðnám að verið sé að slá af í þeim efnum. En á móti koma þau viðhorf sem hæstv. menntrh. túlkar og snúa að því að opna verði leiðir og stuðla að samvinnu og samstarfi atvinnulífs og skóla.

Hægt er að hafa samúð með báðum þessum sjónarmiðum og þess vegna held ég að mjög mikilvægt sé að hv. menntmn. taki þetta sérstaklega fyrir og skoði allar mögulegar leiðir til að brúa það bil sem greinilega er þarna á milli aðila.

Það sem strandar kannski á að mörgu leyti og hefur strandað á varðandi það að sú fagmenntun sem felst í uppeldis- og kennslufræði gæti verið jafnmikil innan skólanna og æskilegt hefði verið, eru fjárveitingar til réttindanáms. Ljóst er að fleiri leiðbeinendur og þeir sem eru með fagréttindi eða fagnám af einhverju tagi sækja um réttindanám á hverju ári en komast að. Skref í því að efla uppeldis- og kennslufræðiþekkingu innan skólanna væri að auka fjárveitingar til réttindanámsins þannig að fleiri kæmust til slíks náms.

[11:00]

Herra forseti. Ég kom með fyrirspurn til hæstv. menntmrh. fyrir nokkru síðan þar sem ég spurði m.a. um það hversu margir leiðbeinendur hefðu lokið réttindanámi síðan lögin voru sett um lögverndun árið 1986 og hversu margir þeirra væru við kennslu. Það er ljóst af þeim svörum sem ég fékk að mjög hátt hlutfall, eða nær 80%, þeirra sem fara í réttindanám staðnæmist síðan við kennslu og það er hærra hlutfall en hlutfall þeirra sem útskrifast úr kennaranámi. Þess vegna er þetta mjög mikilvægur þáttur í menntun kennara á Íslandi.

Ég vil fara yfir nokkur atriði þessa frv. sem mér finnst annaðhvort ástæða til að gera athugasemdir við eða lýsa skoðun minni á í einhverjum efnum. Í fyrsta lagi finnst mér mikilvæg sú áhersla að leggja meira upp úr þýðingu aukinnar fagmenntunar kennara að svo miklu leyti sem hún snýr að faggreininni sjálfri og fram kemur hér í frv.

Í 5. gr. frv. er sérstaklega vísað í kennslugreinar í 8.--10. bekk. Ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvort ástæða er til þess að tilgreina þessa bekki sérstaklega. Það hefur komið fram vilji til þess innan Kennaraháskólans --- ekki er ólíklegt að fleiri kennaramenntunarstofnanir velti því fyrir sér --- að bjóða upp á sérnám kennara sem kenna t.d. byrjendum eða yngri börnum. Þá er spurning hvort það eigi að festa í lögum nákvæmlega 8.--10. bekk því að ef farið verður að mennta kennara með það sem sérgrein að kenna byrjendum, má velta því fyrir sér hvort þeir eigi þá ekki að njóta sama forgangs til þeirra starfa og aðrir, eða þeir sem hér er getið um.

Í öðru lagi fagna ég því að gamla kennaraprófið skuli nú fá þann sess sem það hefur átt skilið hvað varðar mat á uppeldis- og kennslufræði, þ.e. að það próf skuli þykja fullgilt til kennslu á framhaldsskólastigi. Mér fannst alltaf dálítið merkilegt að gamla kennaraprófið skyldi nægja til að kenna byrjendum og grunnskólabörnum þar sem að mínu mati er enn þá brýnna að menn hafi staðgóða uppeldis- og kennslufræði sem hluta af sinni þekkingu en í framhaldsskólanum. Þess vegna finnst mér þetta vera skref sem er mjög eðlilegt og gott að er stigið.

Ég velti fyrir mér ákvæði 2. gr. og 12. gr. frv. þar sem talað er um að heimilt sé að meta kennslureynslu sem hluta af kennslufræðum til kennsluréttinda. Ég þykist sjá í hendi mér að að einhverju leyti er reiknað með því að þetta mat eigi að ríma við 3. lið 12. gr. þar sem gerð er krafa um annaðhvort 15 eininga próf í uppeldis- og kennslufræði eða 30 eininga eftir reynslu manna. Mér finnst eðlilegt að litið sé til þessa. Hins vegar veltur á miklu hvernig sú reglugerð verður sem um þetta verður sett.

Ég velti því líka fyrir mér, herra forseti, varðandi 3. gr. hvort það þurfi að taka eitthvað fram í lögum um íslenskuþekkingu þeirra kennara sem fá leyfi til að nota starfsheitið grunnskólakennari samkvæmt umsókn ríkisborgara frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Það er spurning hvort það sé tekið fram annars staðar og þurfi þess vegna ekki.

Í 6. gr. frv. sjáum við ruglingslegan texta sem stafar af því að ákveðnir hlutar laga sem snúa að stöðu kennara voru teknir óbreyttir yfir þegar grunnskólinn fór yfir til sveitarfélaganna. Ég met það a.m.k. svo að þetta hljóti að vera leifar af slíku sem við munum koma til með að laga að breyttum veruleika jafnharðan og kennarasamtökin semja við sína nýju viðsemjendur um aðra skipan þessara mála sem ég hef reiknað með að hljóti að verða vegna þess að hér, eins og menn lesa 6. gr., hlýtur að vera um fyrirkomulag að ræða sem þarf að einfalda einhvern veginn og ekki ólíklegt að þess muni sjá stað í samningum á milli aðila.

Ég ætla ekki að setja á langa ræðu um þetta frv. eins og það liggur fyrir. Fjallað verður um ýmsar greinar þess og ákvæði í hv. menntmn. En eins og ég sagði áðan er mikilvægast að menn reyni að ná saman um stærsta ágreiningsatriðið og í rauninni eina ágreiningsatriðið sem skiptir máli, þ.e. þá afslætti sem talið er að verið sé að gefa í 12. gr., vegna þess að mikilvægt er að það sé ákveðin sátt um það eftir hvaða leiðum kennarar fá réttindi sín. Það þarf jafnframt að hafa í huga að við þær breytingar sem hafa orðið og eru að verða í umhverfi skólanna og í umhverfi kennara, verður kennslufræði líklega mikilvægara fag á næstu árum en hún hefur verið. Verið er að setja nýjar kröfur á skólana og kennarana um námsmat og mat á skólastarfi. Það krefst aukinnar þekkingar á eðli náms og kennslu sem hlýtur þá að leiða af auknu kennslufræðinámi.

Sömuleiðis met ég það svo, herra forseti, að breyting á sviði fjarskipta sem hefur leitt af sér og mun sýna okkur í æ ríkari mæli nýja upplýsingatækni, geri líka nýjar kennslufræðilegar kröfur vegna þess að miðað við þetta breytta umhverfi sem við bæði sjáum nú þegar inni í skólunum og sjáum fyrir, er ljóst að kennarar hafa þurft og verða í auknum mæli að breyta kennsluaðferðum sínum og einnig að þróa námsefni og framsetningu þess í takt við nýja tækni. Þess vegna, herra forseti, held ég að mjög mikilvægt sé að við skoðum mjög vel í hv. nefnd hvernig við getum náð þessum sjónarmiðum saman, þ.e. þeim sjónarmiðum sem sannarlega og réttilega leggja áherslu á aukna uppeldis- og kennslufræði í námi kennara annars vegar og hins vegar því sjónarmiði sem leggur áherslu á að opna leiðir og stuðla að samvinnu og samstarfi atvinnulífs og skóla. Endurskoðun á kennaranámi og umfjöllun um kennaranám hlýtur einnig að taka mið af þessum breyttu aðstæðum.

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því að ég fái í hv. nefnd tilefni til að fjalla um og kalla eftir upplýsingum um önnur atriði sem mér finnst ástæða til að ræða.