Grunnskóli

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 12:35:36 (3829)

1998-02-13 12:35:36# 122. lþ. 67.4 fundur 199. mál: #A grunnskóli# (fulltrúar nemenda) frv., Flm. SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[12:35]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á grunnskólalögum, nr. 66/1995, en það er 199. mál á þskj. 208. Meðflm. mínir að frv. eru hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir, Guðrún Helgadóttir og Rannveig Guðmundsdóttir.

Með frv. er gert ráð fyrir því að fulltrúar nemenda eigi rétt til setu bæði á kennarafundum og skólanefndarfundum með málfrelsi og tillögurétti þegar fjallað er um mál sem snerta beint hagsmuni nemenda í viðkomandi skóla.

Herra forseti. Samningurinn um réttindi barna, oftast nefndur barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, var undirritaður fyrir Íslands hönd 26. janúar 1990 og með samþykkt þingsályktunar á Alþingi 13. maí 1992 var ríkisstjórninni heimilað að fullgilda samninginn fyrir Íslands hönd. Það var gert hinn 28. október sama ár. Með fullgildingu barnasáttmálans skuldbinda íslensk yfirvöld sig til að tryggja íslenskum börnum öll þau réttindi sem þeim eru tryggð í sáttmálanum.

Frá því að barnasáttmálinn var undirritaður af Íslands hálfu hefur íslenskur réttur víða verið aðlagaður ákvæðum barnasáttmálans og hafa verið gerðar ýmsar réttarbætur í því sambandi. Í byrjun árs 1996 bárust athugasemdir barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna þar sem lýst var ánægju með ýmsa þá þætti en það voru líka gerðar athugasemdir við aðra þætti um framkvæmd íslenskra stjórnvalda. Ég vil, herra forseti, nota tækifærið og nefna nokkra þá þætti þar sem vel hefur verið unnið í samræmi við sáttmálann en þar ber hæst að í VI. kafla stjórnarskrárinnar hefur verið lögfest ákvæði þar sem segir að börnum skuli í lögum tryggð vernd og umönnun.

Með lögum nr. 58/1992, um vernd barna og ungmenna, var starfsháttum Barnaverndarráðs breytt og lögfestar voru reglur um starfsaðferðir og málsmeðferð barnaverndarnefnda. Við úrlausn barnaverndarmála var lögfestur réttur barna til að tjá sig um málið, og þegar sérstaklega stendur á heimilað að skipa barni eða ungmenni sérstakan talsmann.

Árið 1995 var Barnaverndarstofa sett á laggirnar en tilvist hennar skapar ákveðna festu og samfellu í störfum barnaverndaryfirvalda og skapar barnaverndarmálum góðan ramma. Þá hafa barnalögin verið endurbætt og afnumin hugtökin skilgetið og óskilgetið barn og réttur barna þannig jafnaður að lögum.

Árið 1994 var síðan stofnað embætti umboðsmanns barna og þannig sköpuð umgjörð og aðstaða til að lyfta málefnum barna, þörfum þeirra og réttindum og þannig að styrkja stöðu þeirra. Þó eru dæmi um löggjöf sem sett hefur verið frá því að barnasáttmálinn var undirritaður og staðfestur þar sem löggjafanum virðist hafa yfirsést. Dæmi um það eru núgildandi grunnskólalög. Í ljósi þess er þetta frv. fram komið en meginefni þess er, eins og ég gat um, að grunnskólanemum verði með lögum tryggður formlegur réttur til þess að setja fram skoðanir sínar og viðhorf varðandi þá þætti skólastarfsins sem með beinum hætti snerta hagsmuni þeirra.

Í 12 gr. barnasáttmálans segir, með leyfi forseta: ,,Aðildarríki skulu tryggja barni sem getur myndað eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska.``

Flest börn dvelja stóran hluta dagsins í skóla og viðurkennt er að skólinn hefur mikil áhrif á uppeldi og félagsmótun barna og ungmenna. Fyrir mörg börn er skólinn bæði leik- og vinnustaður. Því er mikilvægt að börn og unglingar eigi þess kosta að setja formlega og skipulega fram skoðanir sínar og álit á skipulagi vinnunnar, aðstöðu sem þeim er búin og vinnubrögðum sem notuð eru á þessum mikilvæga vinnu-, uppeldis- og leikstað sínum.

Í núgildandi lögum um grunnskóla er hlutur foreldra við stjórn grunnskólans og möguleikar til að hafa áhrif á störf hans auknir frá því sem var. Er það vel vegna þess að það er nokkuð ljóst þegar skoðaðar eru þær athuganir sem gerðar hafa verið á skólastarfi a.m.k. erlendis, ég veit ekki hvort þær athuganir hafi nokkurn tíma farið fram hérlendis, að einn af stóru lyklunum að góðu starfi í skólunum er þátttaka og afskipti foreldra. En í þessum sömu lögum er réttur nemenda til að geta formlega komið skoðunum sínum á framfæri um skipulag skólastarfsins eða annað sem hefur bein áhrif á aðstæður þeirra skertur frá áður gildandi lögum.

Í eldri grunnskólalögum var gert ráð fyrir því að fulltrúi nemenda eða nemendaráðs ætti rétt til setu á fundum skólastjóra og kennararáðs svo og á kennarafundum með málfrelsi og tillögurétti þegar rætt er um skipulag skólastarfs. Við setningu núgildandi laga var þetta ákvæði fellt út með þeim rökstuðningi í grg. að rétt þætti að hafa það á valdi hvers skóla hvernig formlegri aðild nemenda að stjórn skólans væri fyrir komið. Í ljósi ákvæða barnasáttmálans um að börnum skuli tryggður réttur til að láta í ljós skoðanir á öllum málum sem þau varða teljum við flm. rétt að afdráttarlaus ákvæði séu í grunnskólalögum þess efnis að börn eigi þennan rétt án tillits til aðstæðna í viðkomandi skóla. Það er ólíklegt að nemendur sæki það almennt að tekin verði afstaða í hverjum skóla fyrir sig til þess hvort þeir fái aðild og þá hvernig að stjórn skólans. Þá virðist það vera alfarið á valdi skólans hvernig hann tekur á slíkri ósk komi hún fram.

Flm. telja heldur ekki rétt að staða nemenda til að koma skoðunum sínum skipulega á framfæri sé svo miklu lakari að lögum en annarra sem koma að skólastarfinu sem og foreldra. Með frv. er því gert ráð fyrir því að fulltrúar nemenda eigi rétt til setu bæði á kennarafundum og skólanefndarfundum með málfrelsi og tillögurétti þegar fjallað er um mál sem snerta beint hagsmuni nemenda í viðkomandi skóla.

Gert er ráð fyrir því að fulltrúar nemenda verði ætíð tveir og þannig tekið tillit til þess að staða barna er veikari en staða hinna fullorðnu. Ætla má að það styrki stöðu nemenda að þeir séu jafnan tveir við þessar aðstæður.

Í eldri lögum var ekki ákvæði þess efnis að fulltrúar nemenda ættu rétt til setu á skólanefndarfundum þegar fjallað væri um málefni sem snerta hagsmuni nemenda sérstaklega eins og hér er gerð tillaga um.

Í eldri grunnskólalögum var einnig ákvæði um skólaráð sem skipað skyldi fulltrúum starfsfólks skóla, foreldra og nemenda. Skólum var þó heimilt að sækja um undanþágu frá þessu ákvæði og fámenni nefnt sem gild ástæða. Ákvæði þess efnis í núgildandi lögum að skólastjóri skuli a.m.k. tvisvar á ári boða til sameiginlegs fundar kennararáðs, foreldraráðs og nemendaráðs til að veita upplýsingar um skólastarfið og til að fjalla um starfsemi þessara ráða er e.t.v. sambærilegt við eldri ákvæði um skólaráð. Þetta ákvæði kemur alls ekki í stað ákvæðis um rétt barna til að koma skoðunum sínum á framfæri enda, eins og segir í lögunum, hugsað sem vettvangur þar sem skólayfirvöld koma upplýsingum sínum á framfæri og fjalla um starfsemi ráðanna, foreldraráðs, kennararáðs og nemendaráðs. Í þessu sambandi er líka rétt að geta þess að ekki er skylda samkvæmt lögum að nemendaráð séu í hverjum skóla heldur er það heimilt.

Með barnasáttmálanum er börnum veittur réttur til að láta í ljós skoðanir sínar um öll mál sem snerta þau sjálf. Samkvæmt íslenskum rétti fá alþjóðlegir samningar ekki sjálfkrafa lagagildi þó að þeir hafi verið fullgiltir heldur þarf löggjafinn að taka sérstaklega á þeim ákvæðum sem hinn staðfesti samningur kann að fela í sér.

Ég rakti fyrr í ræðu minni, herra forseti, nokkur þau ákvæði þar sem löggjafinn hefur þegar tekið á ákvæðum sem lúta að réttindum barna til bóta fyrir börn. Til að tryggja, betur en nú er, formlegan farveg fyrir nemendur grunnskólans til að láta í ljós skoðun sína á málefnum skólans eru þetta frv. lagt fram, á þskj. 208, um breytingu á grunnskólalögum.

[12:45]

Í 1. gr. er lagt til að nemendum sé bætt við í upptalningu 4. mgr. 13. gr. laganna á þeim sem rétt eiga til setu á fundum skólanefndar þegar fjallað er um skipulag skólastarfsins eða önnur bein hagsmunamál nemenda.

Í ljósi þeirra verkefna sem skólanefnd eru falin þykir eðlilegt að nemendur eigi rétt til setu á fundum skólanefnda með málfrelsi og tillögurétti þegar skólanefnd fjallar um málefni sem snerta nemendur í viðkomandi skóla sérstaklega en í sumum skólahverfum eru fleiri en einn skóli. Skólanefnd staðfestir m.a. áætlun um starfstíma nemenda ár hvert og fylgist með námi og kennslu, skólanefnd getur gert tillögur til skólastjóra um umbætur í skólastarfi og skólanefnd fylgist með og stuðlar að því að jafnan sé fyrir hendi fullnægjandi húsnæði og annar aðbúnaður, þar með talin útivistar- og leiksvæði nemenda. Allt eru þetta verkefni sem eðlilegt er að nemendur fái að láta í ljós skoðun á þegar um þau er fjallað.

Ég tók eftir því, herra forseti, á ágætum málfundi um stöðu ungmenna með virkri þátttöku félagsmiðstöðva sem umboðsmaður barna gekkst fyrir á Akureyri sl. haust, að nemendum fyrrv. Gagnfræðaskóla Akureyrar fannst sér hafa verið misboðið freklega þegar ákvarðanir voru teknar um grundvallarbreytingu á skólanum þeirra. Það var gert án þess að þeim væri gefinn kostur á að tjá sig um þær breytingar. Þeim var formlega greint frá yfirvofandi breytingu rétt áður en endanleg ákvörðun var staðfest. Þau höfðu verið sniðgengin af skólayfirvöldum við allan undirbúning. Þeim ekki verið gefinn kostur á að koma skoðunum sínum á framfæri. Þetta var ekki til þess fallið að gera þau jákvæð og skilningsrík gagnvart því umróti sem breytingin hafði í för með sér. Í þessu tilviki var verið að fella saman tvo gamalgróna skóla, Barnaskóla Akureyrar og Gagnfræðaskóla Akureyrar og gera að einum heildstæðum grunnskóla.

Þá er lagt til að ný málsgrein bætist við 13. gr. laganna sem fjallar um fyrirkomulag kosninga á fulltrúum nemenda til setu á skólanefndarfundum. Rétt þykir að nemendur kjósi fulltrúa beint úr sínum hópi þar sem einungis er heimilt en ekki skylt samkvæmt núgildandi lögum að stofna nemendaráð. Einnig þykir rétt að fulltrúar nemenda séu tveir svo þeir hafi stuðning hvor af öðrum. Með því yrði tekið tillit til veikrar stöðu barna gagnvart hinum fullorðnu.

Samkvæmt 2. gr. frv. á að fella nýja 2. mgr. inn í 17. gr.

Með málsgreininni er gert ráð fyrir því að nemendur, eða nemendaráð, eigi tvo fulltrúa á kennarafundum. Þetta er stutt sömu rökum og sett eru fram fyrir tveimur fulltrúum nemenda í skólanefnd, þ.e. að þeir styrki hvor annan vegna veikrar stöðu barna gagnvart hinum fullorðnu.

Á seinni árum, herra forseti, hefur umræða um mannréttindamál farið mjög vaxandi. Ég hef velt því fyrir mér hvernig á því stóð að réttur barna til þess að láta í ljós skoðanir sínar og hafa áhrif á það sem þau varðar, fór forgörðum við lagasetninguna um grunnskóla vorið 1995. Af umræðum sem þá urðu og þeim brtt. sem fram voru bornar er ljóst að hugur þingmanna var á þeim tíma ekki bundinn við nemendur og þeirra rétt. Menn voru greinilega mjög uppteknir, mér liggur við að segja helteknir, af yfirvofandi flutningi grunnskólans til sveitarfélaganna, þeim breytingum á réttindum kennara sem því kynnu að fylgja og þeim breytingum sem grunnskólanum væri ætlað að takast á við á næstu árum.

Nú getum við, herra forseti, hins vegar farið af sæmilegri yfirvegun yfir lögin og fært ákvæði um réttindi einstaklinga til betri vegar og nær umræðunni. Eins og ég sagði fyrr, álít ég að þau ákvæði sem lutu að rétti barna hafi ekki fengið þá athygli sem þau verðskulda.

Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.