Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 14:21:00 (3836)

1998-02-13 14:21:00# 122. lþ. 67.7 fundur 70. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., ÓÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[14:21]

Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er líka staðreynd að samvinnuhreyfingin naut stuðnings miklu fleiri aðila en framsóknarmanna. (GÁS: Sambandið.) Jafnaðarmenn studdu samvinnuhreyfinguna (GÁS: Sambandið.) og erlendis var það t.d. víða þannig að jafnaðarmenn voru aðalstjórnendur samvinnuhreyfingarinnar. Í Reykjavík voru það alþýðubandalagsmenn sem stýrðu mestu, á Ísafirði voru þetta kratar. (GÁS: Í Hafnarfirði líka.) Og þannig er hægt að fara yfir þetta.

Ég er bara hissa á því að menn telji að það sé allt í lagi að stórfyrirtæki styðji vissa flokka en aftur á móti að svona fyrirtæki megi ekki styðja aðra. Ég er sannfærður um að Alþfl. hefur fengið stuðning frá samvinnuhreyfingunni á Íslandi. En mikið væri nú fróðlegt ef þeir mætu menn, Guðmundir Í. og Stefán Jóhann væru nú til staðar og segðu sannleikann um fjáröflun Alþfl. Ég gæti trúað því að við Guðmundur yrðum nú báðir mun fróðari á eftir,

(Forseti (ÓE): Hv. þm., á að segja.)

... hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, svo allt sé með réttu, því það er ekki ætlun mín á nokkurn hátt að vega að hans persónu eða æru Alþfl. En ég vil undirstrika það að ég tel þá peninga sem Roosevelt hefur sent af stað eða Truman ekki óhreinni peninga heldur en þá sem hafa komið frá Evrópu og því jafnaðarmannaliði sem þar er.