Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 13:31:26 (3916)

1998-02-17 13:31:26# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), Flm. LB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[13:31]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Fá mál í samfélaginu ef nokkur eru jafnvandmeðfarin í almennri umræðu og málefni lögreglu. Verkefni lögreglu eru einhver þau mikilvægustu sem nokkur stofnun hefur á hendi, enda felast þau m.a. í því að vernda borgarana í sínu daglega lífi og halda uppi allsherjarreglu í samfélaginu. Vegna mikilvægis hennar eru störf stofnunarinnar einnig viðkvæm þannig að hvatvís og óábyrg umræða á opinberum vettvangi getur skaðað orðstír hennar og hætta er á að sá skaði gæti orðið okkur öllum til mikillar óþurftar. Á hinn bóginn breytir það ekki því að umræða um starfsemi lögreglu verður að fara fram. Skynsamleg, fordómalaus og gagnrýnin umræða er forsenda allra framfara og það á einnig við um starfsemi og starfshætti lögreglu.

Markmiðið með þessari umræðu hefur frá upphafi verið það að um lögregluna fari fram skynsamleg, gagnrýnin og uppbyggileg umræða. Umræðan hefur aldrei verið hugsuð þannig að henni sé beint að eða eigi að beinast gegn persónu eins eða neins og breytir þá engu hvort hæstv. dómsmrh. á í hlut eða einhverjir aðrir þó verk þeirra komi að sjálfsögðu til skoðunar við þessa umræðu. Ég vil því í upphafi vekja sérstaka athygli á því að ábyrgð okkar hv. alþingismanna sem tökum þátt í þessari umræðu er mikil og við verðum að gæta þess að hún verði ekki til þess að skaða orðstír lögreglu og trúverðugleik gagnvart almenningi.

Það er mín skoðun að sú umræða sem fram hefur farið undanfarin ár um starfsaðferðir, starfsemi og skipulag lögreglu hafi verið til góðs og leitt af sér margt jákvætt. Í fyrsta lagi hefur hún orðið þess valdandi að löngu tímabær rannsókn eða skoðun á starfsemi, skipulagi og stjórnun á stærsta lögregluembætti í landinu hefur farið fram og menn eru almennt sammála um að niðurstaða þeirrar skoðunar hafi verið sú að þar á bæ hafi ekki allt verið eins og best verður á kosið. Upplýsingar um niðurstöður þessarar skoðunar koma m.a. fram í skýrslu sem hæstv. dómsmrh. birtir á hinu háa Alþingi 20. desember sl. og var rædd 2. febrúar sl. Í henni segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Þær upplýsingar sem fram koma í skýrslu setts rannsóknarlögreglustjóra vekja að sjálfsögðu upp réttmætar spurningar um hvort skipulag og starfsemi ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík hafi á umræddu tímabili verið í samræmi við þær kröfur sem eðlilegt er að gera til slíkrar deildar. Til þess verður hins vegar að líta nú að umtalsverðar breytingar hafa verið gerðar til bóta á starfsháttum og skipulagi innan einstakra rannsóknardeilda hjá lögreglustjóranum í Reykjavík, auk þess sem yfirstjórn lögreglunnar hefur verið endurskipulögð í grundvallaratriðum. Það er mat ráðuneytisins að þær breytingar sem nú hefur verið ráðist í ... hafi leitt til þess að skipulagslega sé stjórnun og ábyrgð yfirstjórnar lögreglunnar í Reykjavík nú með eðlilegum hætti.``

Af orðum hæstv. dómsmrh. verður því ekki annað ráðið en rannsóknin hafi verið löngu tímabær og hann hafi brugðist við niðurstöðum hennar. Það sem á hinn bóginn vekur kannski sérstaka eftirtekt í þessu sambandi er sú staðreynd að skoðun á starfsemi, skipulagi og yfirstjórnun á lögreglustjóraembættinu í Reykjavík skuli ekki hafa farið fram fyrr en gerð var um það krafa á hinu háa Alþingi í mars í fyrra. Í því sambandi hef ég m.a. í huga upplýsingar sem fram koma í Morgunblaðinu á síðasta ári því strax á árinu 1992 ritaði þáv. lögreglufulltrúi í ávana- og fíkniefnadeild dómsmrh. og fleirum greinargerð þar sem kvartað var undan skorti á markvissri yfirstjórn á embættinu, vöntun á lögfræðilegri ráðgjöf auk skorts á stjórnunarlegu og fjárhagslegu sjálfstæði deildarinnar.

Allar götur síðan sú greinargerð var rituð og til dagsins í dag hefur sami einstaklingur gegnt starfi dómsmrh. Því beini ég þeirri spurningu til hans hvort hann hafi í engu sinnt þessum ábendingum lögreglufulltrúans. Hafi hann sinnt þeim eða brugðist við, er nauðsynlegt að hann upplýsi þing og þjóð um hver þau viðbrögð hafa verið. Það breytir því hins vegar ekki að umræðan undanfarna mánuði varð til þess að þessi löngu tímabæra skoðun á embætti lögreglustjórans í Reykjavík fór fram auk þess sem þingflokkur jafnaðarmanna ásamt hæstv. dómsmrh. hafa farið þess á leit í kjölfar hennar að fram fari almenn stjórnsýsluendurskoðun á embættinu í samræmi við lög um Ríkisendurskoðun.

Í öðru lagi hefur umræðan undanfarna mánuði leitt til þess að gerð hefur verið gangskör að því að settar verði reglur um óhefðbundnar rannsóknaraðferðir lögreglu því nú loksins hefur verið sett á laggirnar nefnd sem á að gera tillögur að reglugerð um það efni sem mun vonandi leiða til þess að starfsumhverfi þeirra manna sem að þessum rannsóknum starfa batni til mikilla muna.

Það er mitt mat að helsta átæða þess að þeir óvanalegu atburðir sem áttu sér stað í dómsmrn. fyrir um það bil sjö árum eigi rætur að rekja til þess að ekki voru til almennar verklagsreglur um óhefðbundnar rannsóknaraðferðir lögreglu. Það er því eftirtektarvert að nú fyrst í kjölfar þessarar umræðu skuli vera gerður reki að því að slíkar reglur verði settar þrátt fyrir að lögreglan hafi um langt skeið óskað eftir því að slíkar reglur yrðu settar, enda hafa yfirvöld í flestum þróuðum ríkjum fyrir nokkuð löngu sett reglur um þessa starfsemi lögreglunnar. Má í því sambandi nefna að Danir fóru í gegnum sambærilega umræðu og við höfum gert nú um miðjan síðasta áratug og settu þá í kjölfarið almennar reglur um óhefðbundnar rannsóknaraðferðir. Það er skoðun mín að enginn hafi rakið betur nauðsyn þess að slíkar reglur verði settar en fyrrv. lögreglufulltrúi í ávana- og fíkniefnadeild í greinargerð sem hann ritaði og birtist í Morgunblaðinu 19. ágúst sl. en þar segir hann svo, með leyfi forseta:

,,Starfsumhverfi það sem mönnum hefur hins vegar verið boðið upp á hefur verið vonlaust og í rauninni hlaut að koma að því að steytt yrði á skeri þar sem stjórnendur lögreglumála hafa aldrei fengist til að setja þessum viðurkenndu vinnubrögðum formlegan ramma en hafa haldið sig til hlés þegar á hefur reynt.``

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að vitna áfram til sömu greinargerðar lögreglufulltrúans fyrrverandi því að þar eru í hnotskurn dregin fram þau vandamál sem lögreglumenn hafa átt við að etja í starfi sínu sökum þess að stjórnvöld hafa ekki sinnt því hlutverki sínu að setja almennar reglur um óhefðbundnar rannsóknaraðferðir. Í umræddri greinargerð undir fyrirsögninni ,,Er lögreglumanni heimilt að vera í upplýsingasambandi við sölumann fíkniefna?`` segir, með leyfi forseta:

,,Slík vinnubrögð [en þar er vitnað til óhefðbundinna rannsóknaraðferða] hafa verið viðhöfð hér á landi frá því að rannsóknir fíkniefnamála hófust um 1970. Starfsmenn ávana- og fíkniefnadeildar voru á starfstíma lögreglufulltrúans fyrrverandi 1985--1990 hvattir til að ná sem bestum tengslum við fíkniefnaumhverfið sjálft, m.a. með því að komast í trúnaðarsamband við brotamennina sjálfa. Þar með hefur lögreglan ávallt tök á púlsinum, veit hvernig landið liggur, hverjir eru virkastir og hvað er í gangi á hverjum tíma. Lögreglumenn í fíkniefnarannsóknum hafa starfað samkvæmt línu sem lögð hefur verið af yfirvöldum lögreglumála að þessu leyti. En spurningin hvort rétt sé að rannsóknarlögreglumenn séu yfir höfuð í upplýsinga- og trúnaðarsambandi við brotafólk er afar erfið og viðkvæm. Í henni togast á ýmis sjónarmið. Þess vegna hafa yfirvöld allra þróaðra ríkja velt þessari spurningu rækilega fyrir sér og öll fyrir mörgum árum sett lögreglumönnum skýrar reglur um framkvæmd slíkra upplýsingasambanda sem og annarra óhefðbundinna rannsóknaraðferða nema reyndar Íslands.``

Enn fremur segir í sömu greinargerð lögreglufulltrúans fyrrverandi, með leyfi forseta:

,,Ég hef margoft bent á nauðsyn þess að setja nákvæmar reglur um framkvæmd allra þeirra óhefðbundnu rannsóknaraðferða sem yfirvöld vilja að stundaðar séu. Samstarfsmenn mínir í fíkniefnadeild á sínum tíma, á árunum 1985--1990, bentu einnig á þessa nauðsyn. Eftirmaður minn benti einnig á þessa nauðsyn. Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur bent á ríkissaksóknara en hann bent aftur á dómsmrn. Engar reglur hafa þó verið settar.``

Sú greinargerð sem hér er vitnað til og lögreglufulltrúinn fyrrverandi ritaði í Morgunblaðið snýst um grundvallaratriði. Það sem umræddur lögreglufulltrúi bendir réttilega á í greinargerð sinni er það að aldrei hafi verið tekist á við og reynt að svara þeirri grundvallarspurningu hvort rétt sé að rannsóknarlögreglumenn séu yfir höfuð í upplýsinga- og trúnaðarsambandi við brotafólk. Það hafa flestar þjóðir gert, sem við viljum bera okkur saman við, og sett um það skýrar reglur. Tilvist slíkra reglna er forsenda þess að lögreglumönnum sem eru að berjast við jafnalvarleg lögbrot og fíkniefnabrot sé búið það starfsumhverfi sem lögregla verður að hafa ef hún á að ná árangri í baráttu sinni við fíkniefnasala. En umræðan undanfarna mánuði virðist ætla að leiða til þess að loksins verði settar löngu tímabærar reglur um þetta atriði og því ber að fagna.

Í ljósi þeirra upplýsinga sem fram koma í greinargerð lögreglufulltrúans fyrrverandi um síendurteknar óskir af hans hálfu og fleiri á sínum tíma um að stjórnvöld settu almennar og skýrar reglur um óhefðbundnar rannsóknaraðferðir er nauðsynlegt að fá upplýst, það sem þetta einstaka atriði hefur ekki mér vitanlega verið borið sérstaklega undir ráðherra né umræðu á Alþingi fyrr, hvernig yfirlýsingar hæstv. ráðherra um að lögreglan hafi aldrei farið þess formlega á leit við ráðuneytið að settar yrðu reglur um óhefðbundnar rannsóknaraðferðir komi heim og saman við greinargerð umrædds fulltrúa. Þetta er nauðsynlegt að skýra við þessa umræðu því að upplýsingarnar sem fram eru komnar eru misvísandi auk þess sem ég tel nauðsynlegt að hæstv. dómsmrh. skýri það á hinu háa Alþingi hvers vegna þessar reglur hafa ekki verið settar fyrir löngu.

Þrátt fyrir að æskilegt sé að hæstv. ráðherra geri þingi og þjóð grein fyrir því hvers vegna hann hafi ekki fyrir löngu reynt að tryggja þeim lögreglumönnum sem starfa í fíkniefnadeild viðunandi starfsumhverfi með því að setja þessar almennu reglur er ekki þar með sagt að verið sé að leita að einhverjum sérstökum sökudólg. Á hinn bóginn virðist það nokkuð augljóst í ljósi sögunnar að Alþingi og stjórnvöld hafi gersamlega brugðist því hlutverki sínu að setja ramma utan um þessar óhefðbundnu rannsóknaraðferðir lögreglu. En sem betur fer er umræðan undanfarna mánuði að skila því að þessar reglur verði settar.

Það er enn fremur mín skoðun að sú umræða sem fram hefur farið að undanförnu hafi leitt í ljós ýmsa veikleika á störfum Alþingis, einkum er varðar það hlutverk Alþingis að veita ráðherrum aðhald og eftirlit í störfum sínum. Í fyrsta lagi tel ég það ekki ásættanlegt fyrir Alþingi að ráðherra, í þessu tilviki hæstv. dómsmrh., taki sér sjálfdæmi um það hvaða upplýsingar hann lætur þinginu í té og leyfi sér að bera fyrir sig ákvæði í almennum lögum í því skyni. Slík röksemdafærsla er að mínu viti gersamlega fráleit. Ég efa það stórlega að nokkurt þjóðþing, þar sem byggt er á sams konar stjórnskipun um þrígreiningu ríkisvalds, léti sér það nokkru sinni til hugar koma að láta svo lítið sem hlýða á röksemdafærslur af þessu tagi, svo fráleitar sem þær eru. Á hinn bóginn er hverjum manni ljóst að ýmsar upplýsingar geta verið þess eðlis að þær verða ekki gerðar opinberar í einu vetfangi. Í þessu ljósi tel ég nauðsynlegt að forusta þingsins taki þessa stöðu til alvarlegrar athugunar og leiti leiða til þess að Alþingi geti óhindrað aflað sér nauðsynlegra upplýsinga.

Enn fremur er það skoðun mín að forusta þingsins hafi átt að taka undir þær kröfur sem minni hlutinn í allshn. Alþingis hefur haft uppi um að þetta tiltekna mál verði tekið upp í fagnefnd án þess að slík upptaka sé háð fyrirvörum því um trúnaðarupplýsingar er að ræða og vitaskuld ber að fara með þær í slíkri nefnd sem slíkar. Reyndar skilst mér að samþykkt hafi verið í allshn. á fundi hennar í morgun að málið verði tekið til skoðunar í nefndinni og vil ég fagna því sérstaklega.

[13:45]

Ég tel það enn fremur vera veikleika í þingsköpum að þegar þingið vill bregðast svo skjótt sem auðið er við nýjum upplýsingum í málum sem þegar hafa verið til umræðu á þinginu, þá er umræða utan dagskrár nánast eina færa leiðin til þess að koma spurningum til ráðherra og fá svör.

Tilefni þess að þetta mál er nú rætt í þriðja sinn á hinu háa Alþingi, eru hinar nýju upplýsingar sem fram hafa komið í fjölmiðlum undanfarna daga, um það hvernig dæmdum fíkniefnasala var veitt reynslulausn eftir að hafa afplánað helming refsivistar. Fyrir mér vakir fyrst og fremst að bera hinar nýju upplýsingar sem fram hafa komið og lágu ekki fyrir þegar málið var rætt síðast, saman við þær yfirlýsingar sem hæstv. ráðherra hefur áður látið falla um málið. Ég mun ekki gera það að umræðuefni á hinu háa Alþingi hvort umrætt samkomulag ráðuneytisins og brotamanns hafi skilað tilætluðum árangri. Í ræðu minni ætla ég ekki að rekja allar þær upplýsingar sem fram hafa komið um þetta mál í fjölmiðlum, heldur einblína á það sem birtist í Morgunblaðinu sl. laugardag. Þar kristallast þær upplýsingar sem áður höfðu komið fram í dagblöðum og ljósvakamiðlum.

Í Morgunblaðinu, sl. laugardag, er haft eftir hæstv. dómsmrh. að vorið 1991 hafi komið á hans fund tveir lögreglumenn, óskað reynslulausnar fyrir umræddan brotamann og vísað til þess að Halldór Ásgrímsson, þáv. dómsmrh., hafi verið búinn að veita samþykki sitt en framkvæmdin ekki komist á. Þeir hafi enn fremur sagt að forveri hæstv. núv. dómsmrh. hafi veitt þeim leyfi til þess að afla upplýsinga frá brotamanni um starfsemi í fíkniefnaheiminum gegn vilyrði um reynslulausn. Hæstv. dómsmrh. segir enn fremur í umræddu viðtali að hann hafi fengið það staðfest hjá Halldóri Ásgrímssyni að hann hefði fallist á samkomulag um reynslulausn.

Hvað svo sem er rétt í allri þessari umfjöllun þá virðist mér að lögregla og dómsmrn. hafi á árinu 1991 staðið í þeirri trú að á árinu 1989 hefði verið gert samkomulag milli lögregluyfirvalda með vitund og vilja hæstv. dómsmrh. og umrædds sakamanns. Samkomulagið var að gegn því að hann veitti lögreglunni upplýsingar um fíkniefnaviðskipti yrði hann látinn laus eftir að hafa afplánað helming refsivistar. Samningur þessa efnis á að hafa legið fyrir. Skilningur lögregluyfirvalda á því herrans ári 1991 virðist samkvæmt greininni sá að þetta samkomulag hafi verið til staðar.

Að mínu viti hlýtur að þurfa að skoða ummæli í skýrslu dómsmrh. til Alþingis í nýju ljósi eftir að þessar upplýsingar liggja fyrir. Í þeirri skýrslu er að finna ummæli sem tekin eru upp úr bréfi setts rannsóknarlögreglustjóra, með leyfi forseta:

Af ferilsskýrslu hins dæmda brotamanns hjá lögreglustjóraembættinu má sjá að fyrir hafi legið margvíslegar upplýsingar um mikil umsvif hans sem fíkniefnasala og fíkniefnaneytanda það tíma bil sem rannsóknin setts rannsóknarlögleglustjóra tók til, þ.e. frá ársbyrjun 1988 til ritunardags bréfsins, 11. júní 1997. Mál hans höfðu lítt verið rannsökuð eða ekki til hlítar. Tvö dæmi séu, frá árinu 1988 og 1992, um rannsökuð mál sem ekki höfðu hlotið eðlilega framhaldsmeðferð.

Ég tel nauðsynlegt að bera þessar nýju upplýsingar um tilvist umrædds samkomulags saman við upplýsingar og yfirlýsingar sem þinginu hafa áður verið gefnar um þetta efni svo umræðan geti farið fram á grundvelli nýjustu upplýsinga.

Í fyrsta lagi sagði hæstv. dómsmrh. í umræðu utan dagskrár í mars á síðasta ári, með leyfi forseta: ,,að óheimilt væri með öllu og refsivert af hálfu lögreglu að semja um að menn geti sloppið við viðurlög ...`` Hér verður ekki annað skilið af ummælum hæstv. dómsmrh. en að ólöglegt sé að gera samninga um að brotamenn sleppi við viðurlög að hluta eða öllu leyti.

Í öðru lagi kemur ekkert fram um það í skýrslu hæstv. dómsmrh. til Alþingis að ráðuneytið hafi haft frumkvæði að því að koma upplýsingum um tilvist umrædds samkomulags á framfæri við fullnustumatsnefnd áður en hún gaf síðari umsögn sína um reynslulausn viðkomandi brotamanns. Þó virðist það koma fram í áðurnefndu viðtali við hæstv. dómsmrh. í Morgunblaðinu sl. laugardag að þessum upplýsingum hafi verið komið á framfæri við fullnustumatsnefnd.

Í þriðja lagi hefur hæstv. dómsmrh. lýst því yfir í fjölmiðlum að hvorki hann né dómsmrn. hafi haft áhrif á að umræddum fíkniefnasala yrði veitt reynslulausn eftir að hafa afplánað helming refsivistar. Því vil ég í ljósi nýrra upplýsinga um tilvist þessa samkomulags, umrædds brotamanns og lögregluyfirvalda, beina eftirfarandi spurningum til hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra fékk þessar spurningar í morgun:

1. Hvernig var nýjum upplýsingum um að vilyrði hafi legið fyrir um reynslulausn komið til nefndarmanna í fullnustumatsnefnd?

2. Hafði ráðherra persónuleg afskipti af því að þessum upplýsingum var komið á framfæri? Hafði ráðherra samband við einhvern nefndarmanna í fullnustumatsnefnd í því skyni að koma þessum upplýsingum á framfæri?

3. Telur ráðherra að þessar nýju upplýsingar hafi haft áhrif á að fullnustumatsnefnd tók nýja ákvörðun?

4. Voru nefndarmenn einróma um að taka nýja og breytta ákvörðun? Hafi svo verið, hvernig skýrir þá hæstv. ráðherra fréttir sem birtust í Dagblaðinu fyrir skömmu um að formaður fullnustunefndar hafi íhugað afsögn í kjölfar þessa máls?

5. Sat starfsmaður ráðuneytisins í nefndinni á þessum tíma, þ.e. fullnustumatsnefnd, og átti hann þátt í báðum ákvörðunum? Telur ráðherra eðlilegt að starfsmaður ráðuneytis sitji í nefnd ætlað er að veita lægra settu stjórnvaldi umsögn áður en ákvörðun er tekin þar?

6. Á hvaða lagaheimild var byggt þegar umræddur samningur var gerður? Ummæli hæstv. ráðherra verða ekki skilin öðruvísi en svo að lögregluyfirvöld, þar með talið dómsmrn., hafi litið svo á að samningur eða samkomulag lægi fyrir.

7. Stendur ráðherra enn við fyrri fullyrðingar sínar um að hann hafi, hvorki persónulega né gegnum ráðuneytið átt neinn þátt í því að dæmdur brotamaður fékk reynslulausn?