Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 15:55:19 (3934)

1998-02-17 15:55:19# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[15:55]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Þær þröngu skorður, sem hv. þm. talar um, eru svo að segja nákvæmlega þær sem hún samþykkti í morgun. Þau drög að bókun sem upphaflega voru lögð fram eru nánast það sem við náðum niðurstöðu um. Það var einfaldlega vegna þess, hv. þm. mega eiga það, að þeir áttuðu sig á því að það er ekki hlutverk löggjafarvaldsins að hafa afskipti af ákæruvaldinu. Það bjó undir í þessu máli. Þar greindi okkur á, meiri hlutann og minni hlutann, að minni hlutinn vildi hafa afskipti af ákæruvaldinu sem starfar sjálfstætt samkvæmt lögum.

Ríkissaksóknari var búinn að kveða upp að hann mundi ekki ásaka lögregluna í málinu. Engu að síður vildu hv. þm. rannsaka þetta frekar og fara inn á verksvið ríkissaksóknara. Við gátum ekki samþykkt það. Þess vegna gengur þessi bókun út á það að gera það ekki heldur áskiljum við okkur rétt til þess að fara í ákveðna þætti málsins, fá dómsmrh. á okkar fund o.s.frv. En það er alveg skýrt að við munum ekki óska eftir því í nefndinni að fá skýrslu Atla Gíslasonar hæstaréttarlögmanns til umfjöllunar.