Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 17:18:46 (3945)

1998-02-17 17:18:46# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[17:18]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru nú fremur þungar fullyrðingar sem koma hér frá hv. þm. og nauðsynlegt að hann skýri þær. Eru þess raunveruleg dæmi að lögreglumenn hafi sagt upp störfum sínum vegna þess að þingmenn hafi hér í þingsölum tekið þátt í slefburði götunnar gegn lögreglunni og dómsmrn. og þeim sem barist hafa móti eiturlyfjavánni í landinu? Ég veit ekki betur en að þeir sem hér hafa talað í dag hafi aftur og aftur rætt um eiturlyfin, um þá þróun sem hér hefur átt sér stað og hvernig eigi að bregðast við. Menn hafa leitað eftir samstöðu um að bregðast við þessum mikla vanda. Mér finnst þetta mjög þung orð og mér finnst þau ljót, ef menn geta ekki staðið við þau að fullu og svarað: Hversu margir lögreglumenn hafa sagt upp störfum vegna þess að við hv. þm. tökum þátt í slefburði götunnar? Og kannski að hv. þm. skýri út fyrir mér um leið hvað ,,slefburður götunnar`` er.