Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 17:21:09 (3947)

1998-02-17 17:21:09# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[17:21]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að sú umræða sem hefur átt sér stað um störf lögreglunnar hafi ekki einkennst af slefburði. Fjarri því. Í þeirri skýrslu sem hér var skilað af hæstv. dómsmrh. koma ýmsar athugasemdir mjög skýrt fram. Ákveðnar fyrirspurnir hafa verið lagðar fram um störf lögreglunnar. Lögreglan hefur við athugun Atla Gíslasonar fengið fremur harða dóma. Hæstv. dómsmrh. hefur brugðist við ýmsum þeim athugasemdum sem gerðar voru.

Enginn getur sagt að hér hafi verið hafður uppi málflutningur sem einkenndist af einhvers konar slefburði. Þannig er það ekki. Menn hafa reynt að vera málefnalegir, viljað styrkja stöðu lögreglunnar og lagt fram tillögur, m. a. stjórnarandstaðan, um að efla lögregluna. Hluti af vandamálum lögreglunnar og ekki síst fíkniefnalögreglunnar hefur verið sá að ekki hefur fengist nægjanlegt fjármagn. Það er okkar að sjá til þess að bæta úr því. Hún þarf að fá alla þá möguleika og vinnuaðstöðu sem til þarf í baráttunni við þetta vandamál. Það er hin raunverulega ástæða fyrir því að við tökum þessi mál upp.

Að segja ætlun okkar aðra er slæmt. Slíkur málflutningur í okkar garð er afar ósanngjarn.