Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 17:40:31 (3950)

1998-02-17 17:40:31# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), Flm. LB
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[17:40]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég gerði þá tilraun í dag að reyna að eiga vitrænan málflutning við hæstv. dómsmrh. Ég hlýddi á hæstv. dómsmrh. flytja mál sitt hér í gær í umræðu um svokallað ÞÞÞ-mál þar sem honum tókst með einstaklega snjöllum hætti að koma málum þannig fyrir að allur vandræðagangur í tveimur ráðuneytum og hjá sýslumanninum á Akranesi væri Ríkisendurskoðun að kenna. Ég verð að viðurkenna að ég átti ekki von á því að hæstv. dómsmrh. kæmist jafnlangt eða gæti orðið jafnómerkilegur í umræðu eins og hann var í gær. En ég held að ég verði að fullyrða það, virðulegi forseti, að þann skamma tíma sem ég hef setið á þingi, þá held ég að fyrri hluti ræðu hæstv. dómsmrh. í dag sé líklega það ómerkilegasta sem ég hef heyrt í málflutningi og er þá miklu til að jafna.

Ég vakti athygli á því í upphafi máls míns í dag að veikleiki væri í þingsköpunum, þ.e. að ef nýjar upplýsingar koma fram um þau mál sem rædd hafa verið á Alþingi þá sé vart annar möguleiki fær til að taka þau upp aftur í umræðu en að gera það í umræðu utan dagskrár. Þetta mál hafði þegar verið rætt tvisvar í umræðu utan dagskrár en í ljósi þeirra nýju upplýsinga og þess hvaða möguleikar eru á því að taka mál hér upp, þá taldi ég ekki fært annað en gera þetta með þessum hætti.

Eftir að hafa hlýtt á hæstv. dómsmrh. bera okkur þingmönnum jafnaðarmanna það á brýn að upptaka þessa máls og umræða um lögregluna almennt sé í raun samsæri þingmanna gegn, ég veit ekki hverjum, hæstv. dómsmrh. eða lögreglunni, að þingmenn jafnaðarmanna hafi það eitt að markmiði að brjóta niður lögregluna ef marka má orð hv. stjórnarsinna sem hafa talað hér í dag, mætti spyrja hvert menn séu að fara? Hvað í veröldinni eru menn að fara? Er öll umræða um lögregluna einungis til þess fallin að brjóta niður lögregluna? Ég er alveg sannfærður um að sú umræða sem fram hefur farið, og ég nefndi í máli mínu fyrr í dag, hefur orðið til þess að kannski verði hæstv. dómsmrh., loksins eftir sjö ára veru í dómsmrn., rifinn upp á rassinum til að gera eitthvað. Það er kannski það sem hefur gerst. Það hefur kannski komið í kjölfar umræðunnar að loksins reif hæstv. dómsmrh. sig upp á rassinum til að setja t.d. á fót nefnd til að gera tillögu að reglugerð um óhefðbundnar rannsóknaraðferðir. Það er kannski kjarni málsins.

Hæstv. dómsmrh. talaði um að þingmenn jafnaðarmanna hefðu verið að dylgja um sitt lítið af hverju, verið með dylgjur um alla skapaða hluti, verið að dylgja um að einhver hefði brotið lög o.s.frv. Ég skora á hæstv. dómsmrh., þar sem hann situr nú í sæti sínu, að koma hér upp á eftir og nefna eitt dæmi um að þingmenn jafnaðarmanna hafi verið með dylgjur á hendur honum, eitt dæmi. Það verður fróðlegt að heyra nákvæmlega það dæmi. Ég þori að fullyrða að sú umræða öll sem fram hefur farið hefur verið mjög málefnaleg og við gerðum heiðarlega tilraun til þess strax í upphafi þessa dags að halda hér uppi málefnalegri umræðu. Því miður fór það úr þeim farvegi strax eftir að hæstv. dómsmrh. hafði flutt fyrri hluta ræðu sinnar í dag.

Hann sagði um þann sem hér stendur, að hann hefði ekki þorað að biðja um umræðu utan dagskrár. Ég spyr og vænti þess að hann svari því þá á eftir: Hvað var að óttast? Það væri fróðlegt að heyra hvað hann á við þegar hann talar um að menn hafi ekki þorað að biðja um umræðu. Það skyldi þó ekki vera eitthvað að óttast. Það væri þá fróðlegt ef það kæmi fram hvað er að óttast. Þetta er náttúrlega hreint með ólíkindum, virðulegi forseti, og kannski er það svo að hæstv. forseti hefði hugsanlega átt að stöðva ræðu hans áðan. En ég held að það sé hans lán að hún var flutt innan þingsala en ekki utan.

[17:45]

Í öðru lagi sagði hæstv. dómsmrh. í ræðu sinni að þingmenn Alþfl. gengju hagsmuna fíkniefnasala. Ég held að við verðum að fá þessi ummæli skýrð. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt. Það er ekki nóg að flytja einhverja lærða, æfða ræðu frá Heimdallartímanum, það verður að vera eitthvað á bak við það. Ég krefst þess að hann komi upp á eftir og geri okkur grein fyrir því hvernig þingmenn jafnaðarmanna gangi erinda fíkniefnasala. Ég held að það sé hreinlega ekki hægt að sitja undir ásökunum af þessu tagi. En það var eitt aðalinntak ræðu hæstv. dómsmrh. fyrr í dag að hv. þm. Alþfl. og væntanlega jafnaðarmanna gangi erinda fíkniefnasala.

Svo bætti hann við, virðulegi forseti, að þeir væru á mála við að brjóta niður lögregluna í landinu. Það væri þá líklega hjá fíkniefnasölunum því að það er væntanlega ekki hægt að vera á mála hjá mörgum öðrum. Er einhver möguleiki, virðulegi forseti, að reyna að halda uppi einhverri málefnalegri umræðu í þingsal ef hæstv. ráðherrar bregðast við með þessum hætti? Er það einhver möguleiki? Ég segi alveg eins og ég sagði í upphafi máls míns að ég hélt að hæstv. dómsmrh. hefði kórónað málflutning sinn í gær þegar hann fann Ríkisendurskoðun allt til foráttu vegna þess að menn sem heyra undir hana töpuðu tryggingum sem ríkissjóður hafði og fyrst og síðast vegna klaufagangs. Ég hélt að hann hefði toppað málflutning sinn þar en ég er ekki frá því að hann hafi gert betur í dag en hann gerði í gær og er þá langt til jafnað.

Virðulegi forseti. Eftir að hafa hlýtt á stjórnarliða í dag, sem eru þó kannski tíðindi þessa máls að stjórnarliðar tóku a.m.k. til máls og reyndu að setja upp leikrit sitt, verð ég að segja að af málflutningi þeirra mátti ráða að sú umræða sem fram hefur farið í samfélaginu væri að undirlagi þingmanna jafnaðarmanna og hefði ekkert með raunveruleikann að gera. Ég veit ekki betur en að hæstv. dómsmrh. hafi óskað eftir því og skipað rannsóknarlögreglustjóra í þessu sérstaka máli sem hafi skilað skýrslu og dómsmrh. síðan skilað þinginu a.m.k. einhvers konar útdrætti, eða hvað sem kalla má skýrslu hans. Þar koma fram mjög mörg gagnrýniverð atriði og það eru þau sem við höfum verið að ræða. Við höfum verið að ræða lögregluna því að umræðan er nauðsynleg ef við ætlum að byggja hana upp og styrkja hana. Menn mega ekki dæma allar umræður með þeim hætti að ef viðkvæm mál eru rædd þá sé það gert af einhverjum annarlegum hvötum. Það er voðalega erfitt að eiga samskipti við dómsmrh. Ég held hann hafi í dag nánast dæmt sig úr leik í málefnalegri umræðu á þinginu. Ég held að hann hafi gert það einn og óstuddur.

Virðulegi forseti. Ég lagði fyrr í dag nokkrar spurningar fyrir hæstv. ráðherra sem ég vil endurtaka á eftir vegna þess að hann sá sér ekki fært í skítkastinu fyrr í dag á hendur þingmönnum jafnaðarmanna að svara þeim spurningum þannig að ég mun í lok ræðu minnar endurflytja þær spurningar og vænti þess að hæstv. dómsmrh. svari einhverju. Það er kannski vert að nefna það sérstaklega þar sem hæstv. dómsmrh. sagði í morgun að ég hefði ekki látið svo lítið nema láta hann hafa þessar spurningar um tólfleytið í morgun svo að hann hefði lítinn tíma til að svara. Það vill þannig til að hér er símbréfið sem hann fékk. Á því stendur kl. 10 þannig að hæstv. ráðherra gat ekki einu sinni farið rétt með það hvenær hann fékk spurningarnar. Það er alveg með ólíkindum hvernig málflutningurinn hefur verið.

Markmið mitt með umræðunni í dag var eins og ég sagði áðan fyrst og fremst að reyna að ræða málefnalega þær upplýsingar sem hafa komið fram frá því að málið var rætt síðast. Við þingmenn höfum ekki aðra leið ef við ætlum að ræða þessi mál en taka þau upp með þessum hætti og spyrja þá hæstv. dómsmrh. því að það er ekki við neinn annan að tala. En ég verð að segja eins og er að maður hlýtur að hugsa sig tvisvar um áður en maður gerir það aftur eftir þær svívirðingar sem yfir þingmenn jafnaðarmanna hafa gengið í dag. Ég ætla ekki einu sinni að elta ólar við það sem hv. þm. Hjálmar Jónsson sagði í dag um slefbera götunnar. Ég ætla ekki að leggjast svo lágt að svara þeim áburði.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að fara að ræða um það í dag hvort birta eigi þessa skýrslu eða ekki. Ég nefndi sérstaklega að ég taldi og tel að þessa skýrslu eigi að skoða sérstaklega í allshn. og mér virðist sem svo að hlutirnir muni veltast á þann veg að það verði gert. Úr því sem komið er held ég að það sé óhjákvæmilegt að ræða sérstaklega þá ákvörðun dómsmrh. að birta hluta skýrslunnar. Það held ég sé alveg nauðsynlegt vegna þess að í þeim hluta skýrslunnar sem er birtur koma fram mjög harðar ásakanir á starfsmenn lögreglustjóraembættisins í Reykjavík þar sem gefið er í skyn að þeir hafi ekki sinnt starfi sínu sem skyldi. Með öðrum orðum að um vanrækslu í starfi væri að ræða. Það eitt getur leitt til þess að menn þurfi að sæta ákæru skv. 141. gr. almennra hegningarlaga. Röksemdir hæstv. ráðherra fyrir því að birta þennan kafla en ekki annan eru engar. En það hefur verið dálítið sérstakt við þetta mál að það eru alltaf að koma fram nýjar upplýsingar. Það er kannski þess vegna sem þetta mál hefur lifað áfram. Það er vegna þess að það hefur alltaf verið hálfgerð skítalykt af málinu. Þrátt fyrir að búið sé að ræða málið tvisvar á þinginu og það er nú rætt í þriðja sinn eru alltaf að koma nýjar upplýsingar og virðist enginn endir vera á því. Ég dreg ekki í nokkurn efa að það koma líka fram nýjar upplýsingar í allshn. Ég held að leikrit eins og það sem hæstv. ráðherra flutti í fyrri hluta ræðu sinnar komi ekki í veg fyrir það. Staðreyndin varðandi birtingu þessa hluta skýrslunnar virðist vera sú að hæstv. ráðherra birtir bara það sem honum sýnist. Það eru engin rök til að birta þennan hluta frekar en annan vegna þess að hann getur líkt og aðrir hlutar skýrslunnar, ef þeir eru sama eðlis og það sem þarna er birt, leitt til þess að einhver tiltekinn starfsmaður yrði ákærður því að þetta varðar við almenn hegningarlög. Það eru engin rök að birta þennan hluta skýrslunnar frekar en annan, a.m.k. ef taka má mið af þeirri röksemdafærslu sem hæstv. dómsmrh. hefur haft í frammi þegar hann hefur verið að rökstyðja það að skýrsluna eigi ekki að birta.

Virðulegi forseti. Ég fjallaði um það í ræðu minni í dag að markmið umræðunnar væri fyrst og síðast að styrkja lögregluna því að almenn umræða um málefni, gagnrýnin, markviss og rökföst er til þess fallin að tryggja að um framfarir sé að ræða. Málefnin verða að vera rædd og þau verða að vera rædd á þeim nótum að það leiði eitthvað jákvætt af sér og það hefur umræðan gert þrátt fyrir hnútur og skítkast hæstv. dómsmrh. í dag. Hún hefur í fyrsta lagi leitt til þess að í skýrslu setts rannsóknarlögreglustjóra kemur fram að það er löngu tímabært að skoða starfsemi, skipulag og stjórnun á lögreglustjóraembættinu í Reykjavík. Það gerist núna í kjölfar umræðunnar á hinu herrans ári 1998. Hæstv. dómsmrh. er búinn að sitja síðan 1991 og ætlar einhver að ímynda sér að þessi skoðun hefði farið fram ef þessi umræða hefði ekki komið til? Er einhver að ímynda sér það? Af einhverjum ástæðum þurfti hæstv. dómsmrh. að ryðjast fram fyrir þingflokk jafnaðarmanna sem hann hefur hnýtt vel í í dag þegar hann óskaði eftir því að stjórnsýsluendurskoðun yrði gerð á embættinu. Að mínu viti hefur verið með ólíkindum hvernig hæstv. ráðherra hefur haldið á málinu frá upphafi og reyndar kórónað málflutning sinn í dag.

Í öðru lagi er loksins von á því að reglur verði settar um óhefðbundnar rannsóknaraðferðir eftir allan þennan tíma og hæstv. ráðherra sagði í dag í ræðu sinni að sig minnti að ekki væri önnur formleg erindi að finna í ráðuneytinu en á einhverjum tíma sem honum hentaði.

Ég fór í ræðu minni í dag vel yfir greinargerð fyrrverandi lögreglufulltrúa í ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans í Reykjavík. Þar kemur fram að í hátt í áratug hafi verið óskað eftir þessum reglum. Þessar reglur eru forsenda þess að rannsóknarlögreglumenn í fíkniefnadeild standi föstum fótum í samskiptum sínum við fíkniefnasala sem er algerlega nauðsynlegt ef einhver árangur á að nást í þessu starfi. Ég vitnaði til þess þar sem hann sagði að það gæti ekki farið öðruvísi en svo að steytt yrði á skeri ef þessar reglur yrðu ekki settar enda hefur það komið á daginn. Þetta mál er allt saman þannig til komið og upplýst er um að í þessu máli er algerlega steytt á skeri þrátt fyrir leikrit hæstv. dómsmrh. í dag. Öðruvísi gat það ekki farið.

Ætlun mín í upphafi var að fara yfir þær upplýsingar sem hefðu komið nýjar í málinu. Ég taldi reyndar nægjanlegt að ræða málið á hálftíma og ræða það eftir þeim reglum en hæstv. ráðherra þurfti í það minnsta hálftíma einn og sér til að svívirða heilan þingflokk með orðum sem ég man ekki eftir á mínum skamma þingferli að hafi verið viðhöfð í þingsal þannig að ég skil vel að hann hafi ekki treyst sér í stutta, hnitmiðaða og málefnalega umræðu. Það var svo mikið í skítakamrinum að það þurfti heilan hálftíma til að ausa því yfir þingheim.

Virðulegi forseti. Ég segi alveg eins og er að það er dálítill uppgjafartónn í mér að reyna að ræða málefnalega við hæstv. dómsmrh. Hann sýndi bakhliðina í gær og sparihliðina í dag svo ég ætla að lokum ræðu minnar að fara yfir þær spurningar sem ég lagði fyrir hæstv. dómsmrh. og hann treysti sér ekki til að svara í dag. Ég ætla ekkert að fara yfir ummæli hans þess efnis að eftirgjöf viðurlaga væri lögbrot. Ég ætla ekki að fara yfir neitt af því enda held ég að hæstv. dómsmrh. hafi skrifað hjá sér nokkuð margar spurningar sem menn hafa lagt fyrir hann í dag. Ég ætla aðeins að endurtaka þær spurningar sem ég lagði fyrir hæstv. dómsmrh. í dag og hann treysti sér ekki til að svara.

[18:00]

Ég spurði hæstv. dómsmrh.: Sat starfsmaður ráðuneytisins í fullnustumatsnefnd á þessum tíma og átti hann þátt í báðum ákvörðunum? Telur ráðherra eðlilegt að starfsmaður ráðuneytis sitji í nefnd sem ætlað er að veita lægra settu stjórnvaldi umsögn áður en ákvörðun er tekin? Þessar spurningar hefur hæstv. dómsmrh. undir höndum.

Ég spurði: Á hvaða lagaheimild var byggt þegar umræddur samningur um reynslulausn var gerður? Ummæli hæstv. dómsmrh. verða ekki skilin öðruvísi en að lögregluyfirvöld, þar með talið dómsmrn., hafi litið svo á að samningur hafi legið fyrir.

Jafnframt spurði ég: Stendur ráðherra enn við fyrri fullyrðingar sínar um að hann persónulega eða ráðuneyti hans hafi ekki átt nokkurn þátt í því að dæmdur brotamaður fékk reynslulausn?