Nýjar starfsreglur viðskiptabankanna

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 14:08:49 (4004)

1998-02-18 14:08:49# 122. lþ. 70.3 fundur 350. mál: #A nýjar starfsreglur viðskiptabankanna# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[14:08]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Allt er þetta nú í áttina og ljóst að aðhald og eftirlit þingsins með bönkunum og gagnrýni á starfskjör og fríðindi bankastjóra eru smám saman að skila árangri þó vissulega finnist mér ekki hafa verið settar nægilega skýrar reglur eða að nægilega hafi verið dregið úr þeim miklu starfs- og launakjörum sem bankastjórar hafa. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hafa heildarlaun bankastjóranna, þegar ekki er greitt sérstaklega fyrir setu í stjórnum og ráðum og þær greiðslur falla inn í launakjörin, staðið í stað við þá breytingu, hafa þau lækkað eða hækkað? Ég er ekki að spyrja neinna persónulegra spurninga varðandi einstaka bankastjóra þó að þessari spurningu sé svarað og bið um svör.

Ég fagna því vissulega að risnugreiðslur eru ekki lengur þáttur í launum bankastjóranna sem er með öllu óeðlilegt og settar eru ákveðnar reglur varðandi risnuna. En ég get ekki heyrt að verið sé að breyta dagpeningafyrirkomulagi til bankastjóranna. Ég gat ekki skilið það af orðum ráðherrans þannig að ég bið hann um að skýra það nánar hvort verið sé að breyta fyrirkomulaginu, t.d. þannig að dagpeningagreiðslur og ferðakostnaður hjá stjórnendum bankanna verði eins og er hjá opinberum starfsmönnum.

Síðan ber að fagna því að ekki skuli lengur greiddir dagpeningar til maka bankastjóranna sem var með öllu óeðlilegt. Samt er enn þá opnað fyrir það að makar bankastjóranna geti, ef nauðsyn beri til, farið í slíkar ferðir með bankastjórunum. Ég leyfi mér að draga í efa, herra forseti, að þarna sé kórrétt að öllu staðið og hafði vonast til að hinar nýju starfsreglur yrðu öðruvísi en hér er lýst. En ég spyr ráðherrann að því sérstaklega varðandi dagpeningana að skýra það aðeins betur, og hvort heildarlaunakjör bankastjóranna hafi breyst með nýjum starfsreglum.