Könnun á hagkvæmni kalkþörungavinnslu

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 15:45:40 (4044)

1998-02-18 15:45:40# 122. lþ. 70.10 fundur 409. mál: #A könnun á hagkvæmni kalkþörungavinnslu# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[15:45]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins hefur haft þetta mál til skoðunar og þar hafa verið uppi hugmyndir um möguleika á samvinnu við franska aðila. Verðáætlun fyrir slíka rannsókn, sem mundi beinast að almennri úttekt á framleiðslu kalkþörunga, hljóðar upp á 1,5--2 millj. kr. Jafnframt hefur Hafrannsóknastofnun haft málið til athugunar. Það liggja fyrir rannsóknir sem gerðar voru á árunum 1975--1979 en það er könnun á útbreiðslu kalkþörungs. Útbreiðslan var þá könnuð en ekki magn þörunga eða árleg framleiðsla þeirra. Einnig er til efnagreining á samsetningu mjöls úr kalkþörungum. Heildarkostnaður við þær rannsóknir sem þyrfti að fara í á kalkþörungaseti í Arnarfirði og Húnaflóa er áætlaður að muni liggja á bilinu 23--25 millj. kr. Þeim kostnaði er unnt að áfangaskipta niður í nokkra verkhluta.

Samkvæmt mati Hafrannsóknastofnunar yrði heppilegast að mælingar sem þessar færu fram að sumarlagi í tvö sumur og fyrra sumarið yrði notað til þykktarmælinga en það seinna til borana og þá væntanlega einnig til vaxtarmælinga. Það hefur ekki enn verið ákveðið hvenær unnt er að hefja þessar rannsóknir þar sem þær falla ekki inn í kostnaðarramma Hafrannsóknastofnunar en það mál er enn til athugunar.