Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 10:57:27 (4073)

1998-02-19 10:57:27# 122. lþ. 72.4 fundur 359. mál: #A eignarhald og nýting á auðlindum í jörðu# frv., SighB
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[10:57]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. síðasta ræðumanni Hjörleifi Guttormssyni að hér er um að ræða mikið og stórt mál. Það frv. sem hér er rætt er mjög merkilegt fyrir margra hluta sakir en e.t.v. fyrst og fremst vegna þess að þar er fjallað um eignarhald og nýtingu á öllum auðlindum í jörðu, ekki bara á jarðhita heldur grunnvatni, námum og öðrum auðlindum svo sem jarðefnum. Strax í 1. gr. er nákvæmlega skilgreint hvaða auðlindir í jörðu þetta viðamikla frv. tekur yfir, þ.e. hvers konar frumefni, efnasambönd og orku sem vinna má úr jörðu hvort heldur í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi og án tillits til hitastigs sem þau kunna að finnast við.

Þetta er í fyrsta skipti, virðulegi forseti, sem tilraun er gerð af hálfu stjórnvalda til að skilgreina nákvæmlega og setja lög um allar þær auðlindir sem finnast í og á jörðu á Íslandi. Að vísu hefur slíkt frv. áður verið flutt á Alþingi, þ.e. af þingmönnum jafnaðarmanna, en þetta er í fyrsta skipti sem stjfrv. um þau efni kemur fram. Um þetta viðamikla mál, um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu þar sem þessar auðlindir eru allar nákvæmlegar skilgreindar og tillögur gerðar um hvernig með skuli fara, liggja aðeins tvö frv. fyrir hv. Alþingi, þ.e. frv. hæstv. iðnrh. og frv. um jafnvíðtækt efni sem þingmenn jafnaðarmanna, þingmenn Kvennalista og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir flytja.

Athyglisvert er að mjög margt er líkt í þessum tveimur frv. Meðal annars er 1. gr. beggja frv. nánast orðrétt eins, þ.e. við erum sammála um að fullnægjandi og yfirgripsmikil skilgreining er þar á þeim auðlindum sem verið er að fjalla um og er það í fyrsta skipti sem slík skilgreining yrði fest í lög á Alþingi þannig að hennar þarf ekki frekar að leita. Tillögur um það liggja fyrir.

[11:00]

Það er ekki tilviljun að margt líkt er í þessum tveimur frv., frv. sem hæstv. iðnrh. flytur og frv. okkar. Ástæðan er m.a. sú að í stjórnarsáttmála fyrrv. ríkisstjórnar, ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, var samkomulag um að líkt mál skyldi flutt og var unnið að því í iðnrn. í tíð þeirra tveggja ráðherra Alþfl. sem þar voru og frumvarpssmíði a.m.k. tvívegis lokið um þau efni en samkomulag tókst aldrei um flutning málsins. Núv. hæstv. iðnrh. hefur að sjálfsögðu haldið áfram vinnu málsins eins og það var í iðnrn. en það sem gerst hefur er að sá ágreiningur sem var við samstjórnarflokk okkar, Sjálfstfl., í stjórnartíð fyrri ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, hefur nú verið leystur þannig að framsóknarmenn hafa fallist á sjónarmið Sjálfstfl. en ekki haldið til streitu þeim sjónarmiðum um þjóðareign sameiginlegra auðlinda sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gerði áðan að umtalsefni og hefur verið fram að þessu stefna allra þeirra forustumanna Framsfl. sem ég hef unnið með á þingmannsferli mínum.

Þetta kemur fram strax í 3. gr. frv., eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson benti á, þar sem ákveðið er með einu pennastriki að allur eignarréttur að auðlindum í jörðu teljist vera einkaeign, að allur einkaréttur á einkajörðum, eftir því sem má skilja, alveg niður að miðju jarðar, skuli falla í hlut viðkomandi jarðeiganda. Um þetta var tekist á öll þau fjögur ár sem fyrrv. ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sat, milli okkar og sjálfstæðismanna. Við héldum mjög sterklega fram þeirri stefnu að óréttlætanlegt væri með öllu að gera ráð fyrir því að landeigandi gæti átt öll verðmæti djúpt í iðrum jarðar sem kynnu að finnast undir landareign hans. Í frumvörpum okkar voru ákvæði þess efnis að það sem í vitund þjóðarinnar um aldir hefur verið sameiginleg auðlind okkar allra skyldi staðfestast í lögum. Þar erum við sammála Alþb. og höfum lengi verið. Sá ágreiningur sem verið hefur á milli flokkanna í þeim efnum er nánast um skilgreiningar en ekki um meginstefnu, hvort miða eigi við einhverja tiltekna dýpt eða hvort miða eigi við eitthvert tiltekið hitastig. En það eru að sjálfsögðu aukaatriði. Meginatriðin í stefnu flokkanna eru mjög ljós í þessum málum og þau eru hin sömu.

Á ágreiningi um þessi efni, þ.e. kröfu Sjálfstfl. til þess að allar auðlindir Íslands á einkajörðum og djúpt í iðrum jarðar á þeim slóðum yrðu einkavæddar, teknar af þjóðinni og færðar með lögum í hendur einstaklinga, strönduðu tilraunir okkar til koma fram frumvörpum til laga um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Ég átti satt að segja von á því miðað við fyrri málflutning forustumanna Framsfl., ekki síst m.a. þess forustumanns sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gerði að umræðuefni, núverandi bankastjóra í Seðlabankanum, að Framsfl. mundi ekki svo auðveldlega fallast á að láta af þessu sjónarmiði og fallast á niðurstöður Sjálfstfl. um að einkavæða auðlindir Íslands. En það hefur hann gert því að í 3. gr. frv. er afdráttarlaust farið þess á leit við Alþingi að Alþingi lýsi því yfir að allar auðlindir í jörðu, hversu djúpt sem farið er, hversu verðmætar sem þær eru, sem finnast kunni í einkalendum séu einkaeign viðkomandi. Þetta er ekki lítil ákvörðun sem verið er að taka því að við erum að fara inn í gerbreytt umhverfi. Við erum að fara inn í umhverfi þar sem Alþingi og ríkisvald hafa ekki nema takmarkað vald á því hvernig auðlindir á Íslandi eru nýttar, t.d. til raforkuframleiðslu. Við erum að fara inn í umhverfi þar sem bygging og rekstur orkuvera verða að meira eða minna leyti gefin frjáls og ekki háð einhverjum einkarétti. Á þeim tíma eða á þröskuldi þess tíma ætlar ríkisstjórn með aðild Framsfl. að afhenda einstaklingum t.d. rétt til þess að virkja djúphita á einkalöndum í því umhverfi sem við erum að fara inn í þar sem allir til þess bærir aðilar á hinu Evrópska efnahagssvæði geta gert samkomulag við slíkan landeiganda um virkjun, byggingu og rekstur virkjana. Með öðrum orðum er verið að skapa nýja gróðamöguleika fyrir útvalinn hóp manna á Íslandi, þá tiltölulega fáu Íslendinga sem geta gert eignarréttarlegt tilkall til jarðeigna þar sem mikil verðmæti kunni að finnast í iðrum jarðar. Framsfl. stendur að því að undirbúa slíkan eignaflutning frá almenningi til einkaaðila, að afgreiða þannig mál sem hefur verið til umfjöllunar á Alþingi Íslendinga meira og minna allar götur síðan á fyrstu áratugum aldarinnar þar sem almenningur og þingmenn stóðu lengi vel í þeirri meiningu að auðlindir, sem enginn gæti sannað eignarrétt sinn á, væru sjálfkrafa eign íslenska ríkisins. Nú ætlar Framsfl. með tilstyrk Sjálfstfl. að taka af öll tvímæli um það að einstaklingarnir skuli eiga. Nú er verið að svara spurningunni ,,hver á Ísland?`` í hverju málinu á fætur öðru. Það er ekki bara verið að einkavæða sameign þjóðarinnar í fiskimiðum, nú er líka hafin einkavæðing á sameign þjóðarinnar í auðlindum í og á jörðu.

Virðulegi forseti. Það eru mörg önnur atriði sem okkur greinir á við hæstv. iðnrh. í því frv. sem hann flytur hér. Ég leyfi mér t.d. að benda á að í frv. eru nánast engin ákvæði um umhverfisvernd. Ef menn skoða saman ákvæði í frv. um rannsóknir og leit í 4. og 5. gr. og um nýtingu auðlinda í 6. gr., sjá menn að ekki er gert ráð fyrir því að neitt umhverfismat eða umhverfisskoðun fari fram á neinu stigi málsins, allt frá rannsóknar- og leitarstigi og til nýtingarstigs, eftir því sem lesa má út úr frv. Þar segir t.d. um rannsókn og leit á einkalandi í 4. gr.:

,,Orkustofnun er heimilt að fengnu samþykki ráðherra að setja landeiganda þau skilyrði sem nauðsynleg eru talin vegna öryggis eða af tæknilegum ástæðum eða ef ætla má að leit eða rannsóknir geti spillt vinnslu sem fram fer á svæðinu eða möguleikum til vinnslu síðar.``

Ekki orð, ekki hálft orð um að krafist sé umhverfismats eða umsagnar umhverfisyfirvalda í þessa veru.

Í 5. gr. um rannsóknarleyfi er rætt um að áður en leyfi skuli veitt skuli leita umsagnar Orkustofnunar. Það er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt. Engin krafa er gerð um það að umhverfisyfirvöld komi að málinu ef marka má þessa grein.

Í 6. gr. um nýtingu auðlinda er sagt, með leyfi forseta:

,,Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar Orkustofnunar og viðkomandi sveitarstjórnar.``

Það sem vantar í þessi ákvæði, þ.e. um rannsóknir og leit og nýtingu, er að sjálfsögðu í fyrsta lagi að menn skilgreini hvað átt er við með leitarleyfum, nýtingarleyfum og rannsóknarleyfum. Hvað ná slíkar leyfisveitingar langt, hvaða skyldur fylgja þeim og hvaða réttindi? Hvernig ber ráðherra að haga sér við veitingu slíkra leyfa? Svo vantar algjörlega ákvæði um hvernig að skuli standa í frv., með hvaða hætti menn ætla að tryggja að leit, rannsókn og nýting valdi ekki umhverfisspjöllum, með hvaða hætti hæstv. ráðherra ætlar að tryggja að sú sterka krafa sem hefur komið fram, ekki síst á síðari árum frá almenningi á Íslandi, um að umhverfissjónarmiða verði gætt við allar rannsóknir og framkvæmdir af þessu tagi. Ákvæði um það vantar algjörlega í frv. ráðherrans.

Þar greinir mjög á við okkur jafnaðarmenn og kvennalistakonur sem stöndum að frv. um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu, sem er hitt frv., hinn valkosturinn sem fyrir Alþingi liggur um afgreiðslu málsins.

Síðasta atriðið þar sem mikill ágreiningur er á milli okkar og hæstv. ráðherra, er síðan varðandi XI. kaflann í frv. hæstv. ráðherra en þar gerir ráðherra sér lítið fyrir og leggur til að Alþingi veiti honum heimild til að semja við nýtingarleyfishafa um endurgjald fyrir auðlindir. Engar málsmeðferðarreglur, engar reglur til að tryggja jafnræði aðila. Enginn greinarmunur gerður á því hvort um er að ræða nýtingarleyfi fyrir tiltölulega lítið verðmæta auðlind eða jafnvel fyrir stórverðmæti svo sem virkjanaréttindi eða fleira. Gert er ráð fyrir því að ráðherra sæki sér heimild til Alþingis í eitt skipti fyrir öll til þess að semja um endurgjald fyrir slík réttindi án nokkurra meðferðarreglna, án þess að tryggja að aðilar njóti jafnræðis, án þess að ákvæði séu um það hvað gera eigi við þetta fé og með hvaða hætti eigi að meta það gjald sem greitt yrði fyrir afnot af slíkum auðlindum. Það er gjörsamlega fáránlegt að ráðherra skuli fengið svo víðtækt vald, eins og þarna er um að ræða, án þess að nokkur ákvæði séu fyrirfinnanleg í frv. um það hvernig hann eigi að beita því mikla valdi sem honum er fengið.

Ég ætla ekki að gera því skóna að hæstv. ráðherra mundi fara þá leið að semja t.d. við Norsk Hydro um virkjanir norðan Vatnajökuls og hvað þeir greiddu fyrir það því að ég býst ekki við að nokkrum ráðherra mundi detta í hug að taka sér slíkt samningsvald í hendur einhliða, jafnvel þó að hann gæti bent á að Alþingi hefði veitt honum slíkt vald.

[11:15]

Það er hins vegar ekkert sem kemur í veg fyrir það samkvæmt þessu eða neinar reglur um það að ráðherra geti ekki einn og sjálfur gert samkomulag við nánast hvaða aðila sem er um t.d. minni háttar aðstöðu á hálendi eða til nýtingar á jarðefnum eða til framkvæmda við þjónustumiðstöð eða hvað sem er, geti gert slíkt samkomulag um nýtingu auðlinda án þess svo mikið sem gefa nokkrum öðrum en þeim aðila sem hann semur við kost á eða jafnvel vitneskju um að slíkt standi til. Það er auðvitað gersamlega fráleitt að halda svona á málum og ég vísa á að sama ákvæði er í þjóðlendufrv. um vald til forsrh. og ég sé ekki betur en ákvæðin í 31. gr. þessa frv. og ákvæðin í þjóðlendufrv. forsrh. skarist að þessu leytinu til.

Við jafnaðarmenn flytjum hins vegar í frv. okkar mjög ítarlegar tillögur um hvernig að svona gjaldtöku skuli staðið, þ.e. hvernig með málið skuli fara. Og það má segja að þumalfingursreglan hjá okkur, herra forseti, sé sú að ef um er að ræða minni háttar nýtingarrétt á sameiginlegum auðlindum þar sem ekki eru miklar fjárhæðir í húfi, þá verði settar reglur um það í lög um aukatekjur ríkissjóðs. Ef hins vegar er um að ræða verðmæt réttindi sem samið er um við einkaaðila eða aðra hvað varðar nýtingu á sameiginlegum auðlindum, þá verði meginreglan sú að nýtingarrétturinn verði boðinn út. Þarna eru ráðherra settar ákveðnar málsmeðferðarreglur m.a. til þess að tryggja að ráðherra misbeiti ekki valdi sínu, allir séu jafnir fyrir lögunum og allir hafi sömu tækifæri til að fá afnot af þeim auðlindum í jörðu eða á sem eru okkur sameiginleg. Í öðru lagi að tryggja að almenningur, ríkissjóður, fái eðlilegt afgjald fyrir slíka notkun. Hins vegar er það í þessu frv. lagt einhliða í vald ráðherra án þess að nokkrar málsmeðferðarreglur séu gefnar. Það er, virðulegi forseti, gersamlega fráleit afgreiðsla.