Eignarhald á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 14:59:06 (4103)

1998-02-19 14:59:06# 122. lþ. 72.5 fundur 425. mál: #A eignarhald á auðlindum í jörðu# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[14:59]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Aðeins fáein orð í viðbót af minni hálfu. Vegna þeirra spaklegu umræðna sem hér fóru fram um surtarbrand og brúnkol væri kannski vert að fara betur yfir það mál úr því að menn vilja vera nákvæmir og fræðilegir. Menn telja það jafnvel móðgun við Vestfirðinga að líkja því sem stundum kallast brúnkol við surtarbrand. Fræðin eru þó þannig, ef ég get rifjað það eitthvað upp, að þarna eru ekki skörp skil á milli.

Staðreyndin er sú að allt eins oft er eingöngu fjallað um þetta í tveimur flokkum, það eru annars vegar kol eða steinkol og hins vegar aðrar lífrænar leifar af skyldum toga sem ekki eru orðnar steingerðar, þ.e. ekki eru ,,petrified`` eins og sagt er á fræðimáli. Brúnkolin, surtarbrandurinn og jafnvel mórinn í mýrunum eru nánast eitt litróf. Þetta eru mismunandi útgáfur af því hversu harðnaðar hinar kolefnisbundnu leifar eru.

[15:00]

Stundum er talað um kol og lignít. Ég held að Vestfirðingar þurfi ekkert að móðgast þó að þetta skarist eitthvað og sé jafnvel notað hvort í sínu orðinu, brúnkol eða surtarbrandur. Allt eru þetta plöntuleifar sem hafa kolast mismunandi mikið og harðnað mismunandi mikið við að hitna upp og grafast í jarðlögum, brenna ef þær eru þurrkaðar eða að þeim berst súrefni og eru nýtanlegar sem eldsneyti. Enda vita menn það og kunna úr sögunum að mór var mjög misgóður og surtarbrandur var misgóður sem eldsneyti. Án efa er það einnig með vestfirsku jarðleifarnar þó að brúnkolin séu vissulega stundum sérstaklega tilgreind sem sá hluti þessara tertíeru jarðleifa sem er kolefnisríkastur og best eldsneyti í þeim skilningi. Samt er langt í land að vinnsla á þessum efnum mundi skila miklu eða borga sig fyrir utan að þá fyrst held ég að menn færu að velta fyrir sér umhverfisáhrifunum ef menn færu í að nýta þetta í stórum stíl. Einhverjar svakalegustu hugmyndir sem ég hef nokkurn tíma séð eru hugmyndir um að grafa upp allar dýpstu mómýrar landsins og fletta ofan af þeim sverðinum til þess eins að ná í eins eða tveggja metra þykk mólög sem liggja í þeim. Ekki meira um þetta, herra forseti.

Að öðru leyti vildi ég segja vegna orðaskipta við hv. þm. og 1. flm. frv., Sighvat Björgvinsson, að ég leyfi mér að segja að það sé ofsagt að í þessum frv. sé útfærð nánast endanlega tilhögun gjaldtöku af þessum sameiginlegu auðlindum. Ég held að það sé fulldjúpt í árinni tekið. Ég sé ekki annað en að eftir stæðu, þótt menn samþykktu ramma af þessu tagi, ótal álitamál í útfærslunni um það hvernig slíkri gjaldtöku yrði fyrir komið, hve mikil hún yrði, hver yrði greiðandinn og hvaða áhrif sú gjaldtaka hefði. Mjög mörg álitamál eru eftir, bæði framkvæmdalega og þegar kemur að spurningunni um áhrif á eða spurningunni um þolendur gjaldtökunnar. Þó að við tækjum bara tvennt, t.d. raforkuna úr vatnsföllunum eða fallvötnunum og fiskinn í sjónum, og veltum aðeins fyrir okkur öllum þeim mörgu álitamálum sem upp koma þegar er í fyrsta lagi reynt að svara spurningunum: Hvernig á að innheimta gjaldið? Hver á að borga það? Hvernig á að taka það, á hvaða stigi í ferlinu o.s.frv.? Hvaða form á að vera á innheimtunni? Allir þekkja umræðuna hvað veiðileyfagjöldin snertir um það hvort þau eigi að taka sem flöt gjöld ofan á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi, þ.e. að við úthlutun á aflamarki innan ársins eigi bara að taka svo og svo hátt gjald en að öðru leyti eigi að úthluta eins og gert er. Það er ein aðferðin. Önnur er sú sem menn hafa líka verið að tala um og gengur miklu lengra og er róttækari, þ.e. að innkalla allar veiðiheimildirnar og bjóða þær upp og taka gjaldið í formi leigugjalds á uppboði. Það er gerbreyting á kerfinu.

Þriðju hugmyndirnar mætti kenna við einhvers konar aflagjöld sem ganga út á það að þegar afla er landað séu gjöldin dregin af í formi einhverra aflagjalda sem geta verið mishá, mismikil eftir tegundum o.s.frv. Allt eru þetta mögulegar leiðir í þessu efni. Ég þarf ekki að rekja það fyrir hv. þingmönnum Alþfl. sem buðu í þáltill. í fyrra upp á sex mismunandi aðferðir hrópmerktar, þ.e. sex mismunandi aðferðir í meginatriðum plús samblöndu af þessum aðferðum þar sem var jafnvel farið í að velta því fyrir sér, á að taka þetta eftir einhverjum leiðum með skattalegri stýringu? Það er einn möguleikinn enn þannig að til þess að hvorki sé ofsagt eða vansagt í umræðunni eru gífurlega mörg álitamál enn óleyst þó menn lögfestu einhvern ramma um gjaldtökuna eða gengju frá einhverri stefnumótun.

Varðandi orkuna yrðu menn t.d. að svara hver yrði greiðandinn. Ef menn færu út í að reyna að taka auðlindagjald vegna orkunýtingarinnar verður í fyrsta lagi að hafa í huga að varðandi alla stórnotendurna erum við bundin af áratuga löngum samningum við erlenda aðila og þá verður engum auðlindagjöldum eða sköttum komið við fyrr en smátt og smátt í áföngum á einhverju áratuga löngu tímabili sem þessir samningar eru endurnýjaðir. Hverjir eru þá eftir til að borga auðlindagjald af raforku? Það eru innlendu notendurnir. Hverjir kaupa mest af henni? Það er fólkið á köldu svæðunum sem kyndir upp húsin sín með rafmagni. Mundum við treysta okkur til að fara að leggja þetta gjald á það? Ég efast um það þannig að þarna eru framkvæmdaatriði, pólitísk álitamál sem eru gífurlega erfið úrlausnar ef við förum inn í efnislega umræðu um málið sem slíkt. Jafnvel þó menn mótuðu einhverja rammastefnu eða löggjöf mundi að mínu mati bíða mikil útfærsluvinna og það yrði jafnvel að einhverju leyti um að ræða óumflýjanlega áratuga aðlögun að því að slík gjaldtaka eða skattlagning, hvort heldur sem er, gæti komið að fullu til framkvæmda.

Ég er síðan ósammála því, eins og ég hef áður lýst mig vera, að menn fari út fyrir þau mörk sem snúa að auðlindunum sjálfum í aðalatriðum, nýtingu þeirra, stjórnun o.s.frv. Ég hef lýst mig andvígan sértækri skattlagningu, og ég er heldur ekki sammála þeirri áherslu sem að hluta til kemur fram í greinargerðum frumvarpanna um að þetta sé endilega betri skattstofn eða tekjuöflunartæki en margt af því sem fyrir er. Ég set stórt spurningarmerki við það og spyr mig stundum að því hvaða jafnaðarstefna sé fólgin í því að hugsa sér að fella kannski niður eða lækka verulega tekjuskatt á einstaklinga og koma með svona skatta í staðinn. Er það virkilega svo að umræðan sé að þróast inn á það spor að tekjuskattur á einstaklinga með persónufrádrætti sem er stighækkandi t.d. eftir hækkandi tekjum, sé ósanngjarn skattur? Er þetta ekki eitthvert virkasta tekjuöflunartækið í skattkerfinu? Ég sé alla þá vankanta á stórfelldri tekjuöflun, t.d. í gegnum sjávarútveginn sem yrði fyrst og fremst greiðandinn. Af sanngirnisástæðum og af prinsippástæðum er að sjálfsögðu rétt að tala um þetta sem samræmda auðlindagjaldtöku. En við vitum öll hér inni að ef kæmi til þess að greiða slíkt í einhverjum umtalsverðum mæli yrði greiðandinn fyrst og fremst sjávarútvegurinn á Íslandi. Hitt er meira og minna samræmingarinnar vegna. Jafnvel þótt menn vildu reyna að ná t.d. einhverjum auðlindanáttúruperluskatti af ferðaþjónustunni og segðu: Hann er sambærilegur við annað í þessum efnum. Hvernig ætla menn að innheimta hann? Hvernig ætla menn að koma því fyrir? Ekki er auðséð að það verði auðvelt. Ég hef áður nefnt raforku. Ég staðnæmist helst við að það væri sennilega hægt að leggja einhver smágjöld ofan á t.d. vikurútflutninginn og nokkra slíka hluti þannig að það væri fullkomlega ástæða til að skoða það ef menn væru farnir út í þetta á annað borð en það eru engar stórar fjárhæðir. Ef menn færu út í umtalsverða tekjuöflun í þessum efnum yrði það sjávarútvegurinn sem greiddi. Þá koma upp öll þau álitamál sem tengjast í fyrsta lagi hversu sveiflukenndur sá atvinnuvegur er og hvort menn væru tilbúnir til að henda tekjuskattinum og ætla að byggja afkomu ríkissjóðs í verulegum mæli á jafnsveiflukenndri grein og sjávarútvegurinn er. Hvaða auðlindaskatt hefðu síldveiðarnar borgað eftir 1968 og fram undir síðustu ár ef það hefði t.d. verið umtalsverður tekjustofn fyrir ríkið í gegnum einhver veiðileyfagjöld? Þá kom að því að hér er um undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar að ræða og hún er mismunandi stór eftir landshlutum, þá koma landsbyggðarsjónarmiðin inn í, þar koma fælingar\-áhrifin. Þetta er orðin atvinnugrein sem er að stórum hluta rekin af hlutafélögum á verðbréfaþingum og þau yrðu síðri fjárfestingarkostur ef þarna væru á ferðinni stórfelldar skattlagningarhugmyndir o.s.frv. Það er mjög margt af því tagi, herra forseti, sem menn þurfa líka að ræða og skoða.