Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 15:55:10 (4114)

1998-02-19 15:55:10# 122. lþ. 72.8 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[15:55]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Tillaga hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur og annarra hv. þm. Alþb. og óháðra er skref í átt að sjónarmiðum okkar jafnaðarmanna. Við höfum á hinu háa Alþingi lagt fram þrjár tillögur sem tengjast efni þessarar þáltill. Það er þáltill. um veiðileyfagjald, frv. um eignarhald á auðlindum í jörðu og frv. um virkjunarrétt fallvatna. Í þessum þingmálum eru auðlindir skilgreindar nákvæmlega og kveðið á um gjaldtöku. Þannig höfum við jafnaðarmenn þegar útfært mörg af þeim efnisatriðum sem nefndin sem skipa á samkvæmt þáltill. hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur mun vinna að.

Álitaefnum varðandi gjaldtöku af sameiginlegum auðlindum má skipta í fernt. Fyrsta stig auðlindagjaldtöku er sú ákvörðun hvort greiða eigi fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum. Þetta er grundvallaratriði í tengslum við auðlindagjald. Annað stigið er ráðstöfun á þessu gjaldi, einungis innan atvinnugreinarinnar, t.d. í rannsóknir. Þriðja stig auðlindagjaldtöku er að skipta gjaldinu einnig á sanngjarnan hátt til allra landsmanna. Fjórða stig auðlindagjaldtöku er að hækka gjaldið eftir því sem arður af nýtingu auðlinda eykst og nota slíkt auðlindagjald í stað annarra skatta.

Við jafnaðarmenn höfum lagt fram útfærðar hugmyndir um öll þessi fjögur stig og skilgreint þær auðlindir sem um ræðir. Tillagan sem hér er til umræðu fjallar um fyrstu þrjú stigin á mjög varfærinn hátt. Þar er gert ráð fyrir vinnu við skilgreiningu á auðlindum, hvernig auðlindagjald verði greitt og að það eigi að stuðla að réttlátri skiptingu afraksturs. Gallar tillögunnar eru í fyrsta lagi að ekki er ótvírætt kveðið á um stefnumörkun Alþingis um að taka beri upp auðlindagjald og í öðru lagi er ekki kveðið á um hvenær nefndin eigi að skila áliti. Ég vil hins vegar vitna til orða hv. frsm. áðan að hún telur að nefndin eigi að ljúka störfum fyrir áramót og ég fagna þeim orðum sérstaklega.

Einnig segir í tillögunni að ,,nefndin kanni möguleika á að nota auðlindagjald til að tryggja að afrakstur sameiginlegra auðlinda skili sér á réttmætan hátt til þeirra sem hagsmuna hafa að gæta ... og stuðli að réttlátri skiptingu afrakstursins``. Þetta er góð hugsun en veikt orðalag og ekki ótvíræð stefnumörkun.

Mest hefur borið á umræðu um veiðileyfagjald í tengslum við auðlindir. Tillaga okkar jafnaðarmanna er eftifarandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að taka beri upp veiðileyfagjald í sjávarútvegi. Með veiðileyfagjaldi er átt við gjaldtöku í tengslum við úthlutun veiðiheimilda fyrir afnot af sameiginlegri auðlind.

Alþingi kjósi nefnd til að undirbúa löggjöf um þetta efni. Nefndin skili áliti fyrir lok apríl 1998.``

Þetta er orðrétt, herra forseti, tillaga okkar jafnaðarmanna um veiðileyfagjald. Síðar í grg. þeirrar tillögu er vikið að því að nefndin undirbúi löggjöf um auðlindagjald á aðrar auðlindir í eigu þjóðarinnar. Tillaga okkar jafnaðarmanna sker sig á tvennan hátt frá tillögu þingflokks Alþb., þ.e. að afdráttarlaust er kveðið á um að taka beri upp auðlindagjald og að nefndin hafi einungis tiltekinn tíma til starfa. En ég vitna enn og aftur til orða hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur varðandi starfstíma nefndarinnar.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum, herra forseti, um hin sterku réttlætisrök fyrir gjaldtöku af sameiginlegum auðlindum. Þeir sem nýta sameiginlegar auðlindir hvort sem er á landi eða í sjó eiga að greiða sanngjarnt gjald til eigenda þessara auðlinda, almennings í landinu. Við jafnaðarmenn erum sammála alþýðubandalagsmönnum um að það eigi að skoða auðlindir í víðara samhengi en einungis fiskimiðin, enda höfum við beinlínis lagt það til í ýmsum af okkar tillögum.

Það hefur verið nokkur umræða í fjölmiðlum um afstöðu stjórnarflokkanna til þessarar tillögu. Ýmsir hafa sagt að þarna sé tillaga sem þeir geti hugsað sér að styðja. Það er einmitt gallinn við tillögu Alþb. að hægt er, ef menn vilja, að túlka hana á mismunandi vegu.

Davíð Oddsson, formaður Sjálfstfl., lagðist heiftarlega gegn veiðileyfagjaldi og auðlindagjaldtöku á síðasta landsfundi Sjálfstfl. og tók málið upp á flokksráðsfundi í vetur. Þar sagði hann efnislega að ef málið snerist um að borga 1--2 milljarða til að losna út úr þessari umræðu væri það vitaskuld aðferð sem hann vildi skoða. Davíð segir núna í viðtali við Morgunblaðið að tillögur sínar og Alþb. séu mjög í sama farvegi.

[16:00]

Halldór Ásgrímsson sagði í Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum að hann gæti hugsað sér að styðja meginatriðin í þessari till. en það þýddi ekki að hann styddi auðlindagjald. Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson vilja, eins og aðrir andstæðingar auðlindagjaldtöku og þá sérstaklega veiðileyfagjalds, svæfa þetta mál og styðja vitaskuld nefndarskipan án tímamarka til að geta geymt málið þar um ókomna tíð.

Það er ljóst, herra forseti, að hvorki Sjálfstfl. né Framsfl. hafa breytt um afstöðu í þessu máli. Þeir styðja gjafakvótakerfið. Þeir sjá hins vegar möguleika í því að grípa þessa till. á lofti. Þar með reyna þeir að reka fleyg milli vinstri flokkanna og koma málinu í þann farveg að ekki komist á auðlindagjald. Við sáum tilraunir Sjálfstfl. í þessa veru í umræðunni áðan. Ég vitna hins vegar í framsöguræðu hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur. Þar kom fram að hún hugsar sér að að lokinni skilgreiningu á auðlindum verði tekin upp sanngjörn gjaldtaka sem nýtist bæði atvinnugreininni og landsmönnum öllum. Það, herra forseti, er meginatriði þessa máls.

Áðan nefndi ég það sem tvo galla við tillöguna að ekki væri kveðið nógu afdráttarlaust á um gjaldtöku og að ekki væru sett tímamörk á nefndarstarf. Kostirnir eru að viðurkennd eru ákveðin prinsipp varðandi auðlindagjaldtöku auk þess sem sett er í gang ferli til nánari skoðunar. Ég ítreka þó að ýmislegt af þeirri vinnu hefur þegar verið unnið í tillögum okkar jafnaðarmanna.

Herra forseti. Í þjóðfélaginu er mikil undiralda í tengslum við auðlindanýtingu og auðlindagjald. Við höfum séð sjálfsprottin samtök koma fram á sjónarsviðið og vitum að meiri hluti þjóðarinnar styður gjaldtöku, til að mynda í sjávarútvegi eins og við jafnaðarmenn höfum lagt til. Tillaga Margrétar Frímannsdóttur og þingmanna Alþb. og óháðra er gott innlegg í þær viðræður sem eru nú eru milli vinstri flokkanna um samstarf. Kvennalistinn hefur lýst yfir stuðningi við till. okkar jafnaðarmanna um auðlindagjald. Alþfl. og Kvennalistinn hafa þegar tekið ákvörðun um að vinna að sameiginlegu framboði í næstu alþingiskosningum en Alþb. tekur ákvörðun um útfærslu samstarfsins í sumar. Það ber þó að hafa skýrt í huga að andstæðingar auðlindagjalds standa gráir fyrir járnum og hafa ekki annað markmið en að fresta þessu máli svo ekki komi til uppgjörs í næstu kosningum út af auðlindum, auðlindanýtingu og auðlindagjaldtöku.

Herra forseti. Ég er þess fullviss að sameiginleg stefna Alþb., Alþfl. og Kvennalista mun ná fram í þessu mikilvæga máli. Það samstarf sem nú er um allt land fyrir sveitarstjórnarkosningar mun bera árangur og hjálpa til við ákvörðun um sameiginlegt framboð til Alþingis á grundvelli jafnaðarstefnu, félagshyggju og kvenfrelsis.