Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 16:16:33 (4122)

1998-02-19 16:16:33# 122. lþ. 72.8 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[16:16]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki miklu nær um hvað það þýðir að tryggja afrakstur af auðlindum og sameign þjóðarinnar. (Gripið fram í: Eftir tegund.) Já, eftir þessu að dæma og ég skil heldur ekki hvernig gjaldtakan svokallaða, sem á að heita gjaldtaka en þýðir ekki skattur, á að koma öðruvísi út en sem greiðsla frá fyrirtækjum sem afla fiskjar í þessu tilfelli, ef við hugsum um gjald af sjávarútvegi. Hverjir aðrir eiga að greiða þetta gjald? Það hljóta að vera fyrirtækin. Það hlýtur að þýða að ef útgerðarfélag þarf að borga eitthvert auðlindagjald þá er það fyrir það fyrsta tekið af óskiptu sem þýðir að minna verður eftir til skiptanna. (Gripið fram í.) Og þá er væntanlega minna eftir fyrir sjómennina þegar búið er að taka gjaldið af útgerðinni. Ég hélt að það væri augljóst mál. Þetta er í mínum huga mjög skiljanlegt en ég er dálítið hræddur um að hv. þm. skilji þetta alls ekki og það er sorglegt.