Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 16:18:04 (4123)

1998-02-19 16:18:04# 122. lþ. 72.8 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[16:18]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu þáltill. sem felur í sér að skipuð verði opinber þverpólitísk nefnd til að fjalla um auðlindagjald á málefnalegan og skynsamlegan hátt eins og fram kom í framsöguræðu hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur. Það má segja að ekki fari þetta ferli gæfulega af stað því að þegar eru tekin að falla stór orð. Hér kom m.a. fram í ræðu hv. þm. Ágústs Einarssonar að stjórnarflokkarnir gripu tillögu sem þessa fegins hendi til þess eins að reka fleyg á milli jafnaðarmannaflokka í því sameiningarferli sem á sér stað. Ég held að ég hafi heyrt það rétt. Það þykir mér afskaplega einkennilegt og auðvitað má túlka þau orð á marga vegu. Það má t.d. spyrja hvort hv. þm. sé að halda því fram að Alþb. sé að reka þann fleyg. Ég tel að svo sé ekki. Ég held einmitt að menn ættu að fagna því að fá stuðning við tillögur því að það er ekki oft sem það gerist að stjórnarsinnar taki undir tillögur stjórnarandstæðinga og öfugt.

Ég vil líka mótmæla því, herra forseti, sem fram kom í viðbrögðum við andsvörum hv. þm. Jóns Kristjánssonar þar sem því var haldið fram að tilgangur hans með andsvörunum væri að koma illu til leiðar. Ég mótmæli því vegna þess að í máli og andsvörum hv. þm. kom aðeins eitt fram. Hann dró þar fram ákveðinn grundvallarmun, þ.e. muninn á gjaldtöku og skattlagningu. Það er grundvallarmunur og hann hefur komið fram í umræðunni. Það er ekki að koma illu til leiðar. Það er að draga á málefnalegan hátt fram það sem er kjarni málsins. (Gripið fram í: ... Framsóknarflokkurinn.)

Umræðan hefur verið afskaplega hávær síðustu missiri um auðlindagjald eða gjaldtöku sérstaklega á sjávarútveg í einhverri mynd. Grunnurinn að þessari umræðu eru auðvitað auðlindir hafsins og arðurinn af þeim, þ.e. það sem oft er kallað skipting kökunnar. Því hefur verið haldið fram að um þessar mundir sé þetta eitt mesta deilumál þjóðarinnar og má með sanni taka undir það. Ég held að það deilumál muni endast á meðan þjóðin byggir landið og fiskar synda í sjónum. Svo sem vænta má fer umræðan út og suður enda er um tilfinninga- og réttlætismál að ræða. Og ekki vantar svo sem viðleitni meðal almennings, í þingsölum og fjölmiðlum til að koma með lausnir og skýringar sem teflt er fram í hinu mikla tilfinninga- og réttlætismáli og sannarlega er hugmyndauðgin þar mikil. Nú virðast ýmis hugtök vera að festast í sessi í málinu, svo sem sægreifi, braskari, jafnvel glæpamaður heyrist oft í umræðunni og fleira í þeim dúr.

Það sem e.t.v. er alvarlegast í því er að vart hefur orðið við það að heiðarlegir sjómenn og útgerðarmenn, sem hafa ekkert til saka unnið annað en að stunda sína útgerð og sína vinnu á heiðarlegan hátt, ekki stundað neitt sem kallað er brask, eru að flýja úr greininni vegna þess að þeir geta ekki komið innan um fólk án þess að sæta þeim árásum að vera sakaðir um það jafnvel að vera glæpamenn, braskarar og fleira í þeim dúr. Það er auðvitað áhyggjuefni.

Í skýringarviðleitni og patentlausnum á auðlindagjaldi heyrist oft minnst á svokallað kvótakerfi og skuldinni oft skellt á það. Þeirri umræðu fylgja þó sjaldnast nánari skýringar, sem von er, því að um þetta atriði hafa menn verið að deila allt frá því að hlutaskiptakerfið á árabátum var tekið upp fyrir yfir 100 árum þegar menn voru að deila um það í fjörunni hvernig ætti að skipta aflanum milli háseta og formanns. Þessi deila átti sér líka stað meðan við stunduðum hér svonefnt skrapdagakerfi eða annað afbrigði af sóknarstýringu eða hverju nafni sem fiskveiðistjórnarkerfið er kallað. Þetta er deila sem snýst um hvernig á að skipta kökunni og hún mun alltaf eiga sér stað. Þetta er með öðrum orðum hápólitískt mál.

Nú hefur umræðan verið að snúast í átt að einhvers konar gjaldtöku og þar hafa jafnaðarmenn skotist mjög vasklega fram undir merkjunum auðlindagjald --- skattlagning á sjávarútveginn. Ég tel að þetta hafi verið sett fram á nokkuð öfgafullan hátt og án þess að taka á ýmsum öðrum vanda sem er í sjávarútveginum, svo sem því sem menn vilja kalla kvótabrask tengt framsali og þar fram eftir götunum. Það er skoðun mín að framsetning jafnaðarmanna hafi um margt verið nokkuð blekkjandi í þessu máli, m.a. af því að hún hefur byggst á þeirri forsendu að þjóðin njóti einskis af auðlindinni í dag og hins vegar að gjaldtaka sé engin. Það þarf ekki annað en líta til góðærisins sem blessunarlega er gengið í garð. Það stafar auðvitað af því m.a. að ræst hefur úr varðandi sjávarútveginn. Þjóðin er að njóta góðs af, fyrirtæki, almenningur, ríkissjóður og sveitarfélög. Gjaldtakan engin. Fyrir liggur að gjaldtakan, ef ég man rétt, nemur í dag um 3 milljörðum kr. þar sem útgerð og greinin sjálf þurfa að standa undir ýmsum gjöldum, veiðieftirliti og þannig má áfram telja. Fram hefur komið að greinin hyggst fjármagna hafrannsóknaskip.

Á það hefur verið bent m.a. að hefðu hugmyndir jafnaðarmanna verið teknar upp árið 1993 með 6 milljarða skatti, þá hefði Útgerðarfélag Akureyringa farið á hausinn með tilheyrandi hörmungum fyrir Akureyri og almenning þar. Við höfum heyrt tölur allt upp í 30 milljarða, við höfum heyrt talað um að tekjuskattur yrði afnuminn. Síðan hefur þetta lækkað niður í 2 milljarða. Þetta er með öðrum orðum nokkuð á reiki og ég tel að sú framsetning hafi á margan hátt komið í veg fyrir málefnalega umræðu um þetta viðkvæma og stórpólitíska mál.

Auðvitað eru þessi mál rædd innan allra flokka og innan allra flokka er einhver ágreiningur. Framsóknarmenn báru gæfu til að komast að niðurstöðu á miðstjórnarfundi sínum og sumpart svipaðri niðurstöðu og fram kemur í greinargerð með þessari þáltill. Grundvallaratriðið er þó gjaldtaka versus skattlagning þar sem við höfum m.a. bent á að í fyllingu tímans þurfi að skoða hvort og hvenær greinin geti staðið undir hugsanlegri viðbótargjaldtöku m.a. til að fjármagna hafrannsóknir, markaðssókn og annað í þeim dúr.

Herra forseti. Ég tel að tillagan feli í sér skipun þverpólitískrar nefndar þar sem fulltrúar allra flokka komi að til að fjalla á málefnalegan og skynsamlegan hátt um þetta stórpólitíska mál og það er hugmynd sem mér hlýtur að vera þóknanleg.