Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 16:38:18 (4126)

1998-02-19 16:38:18# 122. lþ. 72.8 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[16:38]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það sem hefur einkennt gjaldtökustefnuna gagnvart sjávarútvegi á síðustu sex til sjö árum á meðan Sjálfstfl. hefur farið með þennan málaflokk hafa verið stórhækkaðar álögur á atvinnugreinina. Það hefur verið tekið upp þróunarsjóðsgjald og eftirlitsgjöld og skoðanagjöld hafa verið stórhækkuð í gegnum breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Það mætti segja mér að þessar nýju auknu álögur á atvinnugreinina nemi 1--2 milljörðum á ári sem eru afrek Sjálfstfl. í þessa veru.

Ég undirstrika að þegar atvinnugrein gengur vel, þá á sú atvinnugrein að borga skatta í ríkissjóð. Ég geri ekki mikinn greinarmun á því hvort menn kalla skattinn skatt eða gjald. Menn eiga að borga þegar þeir hafa peninga aflögu. En afkoman í sjávarútvegi er ekki sem sýnist og mér fannst ég heyra það á máli hv. þm. að hann teldi að afkoman í sjávarútvegi um þessar mundir væri mjög góð. Ég minni þingmanninn á þá staðreynd að hlutabréf í sjávarútvegsfyrirtækjum seljast varla um þessar mundir nema með miklum afföllum. Ég minni t.d. á fyrirhugaða sameiningu Borgeyjar á Hornafirði við fimm sjávarútvegsfyrirtæki þar, sem átti að ganga fram með þeim hætti að sjávarútvegsfyrirtækin fimm áttu að fá greitt með hlutabréfum í Borgey og síðan átti að selja þau hlutabréf á markaði, breyta þeim í peninga. Sú sameining gekk til baka vegna þess að hlutabréfin seldust ekki. Ég gæti nefnt fleiri sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi sem talin eru öflug en eru í verulegum vandræðum vegna þess hve afkoman er léleg og skuldirnar miklar.