Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 17:29:09 (4140)

1998-02-19 17:29:09# 122. lþ. 72.8 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál., ÓÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[17:29]

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Til að fyrirbyggja allan misskilning þá á Framsfl. það sameiginlegt með öllum þingmönnum sem hér eru inni að vera opinn í báða enda. Sé því á annan veg með einhvern háttað, þá vil ég biðja um að hann gefi sig strax fram svo að hægt sé að senda hann til læknis.

Varðandi það atriði sem hér er til umræðu, um hvort skipa eigi nefnd níu manna til að fjalla um auðlindagjald, þá verður að segja alþýðubandalagsmönnum það til hróss að þeir eru hér að fjalla málefnalega um hluti sem verið hafa til umræðu í þjóðfélaginu á hálfgerðum lýðskrumsgrundvelli. Menn hafa veifað því að hægt sé að leggja niður tekjuskattinn á Íslandi og taka bara upp auðlindagjald í staðinn. Það er hreint lýðskrum. Það vita allir.

[17:30]

Sumir hafa talað um það aftur á móti að nú eigi að fara að leggja einhver gjöld á sjávarútveginn og láta svo sem aldrei hafi verið gjöld á sjávarútveginum. Ég veit ekki betur en íslenskur sjávarútvegur hafi verið látinn borga til hins íslenska samfélags óhemjugjöld í gegnum árin. Mest var hann látinn greiða í gegnum ranga gengisskráningu sem var á íslensku krónunni áratug eftir áratug. Gjaldeyririnn sem hann skilaði inn til þjóðarinnar var hirtur af honum og hann látinn fá aðra seðla í staðinn sem skráðir voru á miklu hærra verði en raunverulegt verðmæti þeirra var. Þannig skattlögðu menn sjávarútveginn áratug eftir áratug og þetta veit hv. þm. Ágúst Einarsson mætavel enda kinkar hann kolli.

Hér er aftur á móti verið að tala um það og, með leyfi forseta, vil ég lesa þáltill.:

,,Alþingi ályktar að kjósa níu manna nefnd sem hafi það hlutverk að fjalla um auðlindir sem eru eða kunna að verða þjóðareign, ...`` --- Er þá eitthvað sem ekki er upp talið? Geta menn upplýst mig um að þá sé eitthvað út undan, annaðhvort það sem við eigum eða munum eiga? Er eitthvað óljóst eða sem hægt er að bæta við upptalninguna? Rökfræðilega er það ekki hægt. Hér er búið að telja allt upp sem um er að ræða, það sem við eigum eða munum eiga. Það er kjarni málsins. Þess vegna skil ég ekki hvers vegna menn telja að nú þurfi að hefja upptalningu. Það þarf mikið hugmyndaflug til að ætla að fara svo að hefja upptalningu eftir að menn eru búnir að telja allt upp. Ég verð að segja eins og er að þó að ég sé náttúrlega hlynntur því að allt sem við fáum á borð sé vel kokkað og allt það, þá vil ég helst fá að tyggja það sjálfur en ekki fá það alveg tuggið. Þess vegna sýnist mér að hér hefði getað verið amen eftir efninu eða punktur. Svo hefði mátt halda áfram.

,,Nefndin skilgreini þessar auðlindir á skýran hátt og hvernig skuli með þær farið. Nefndin kanni einnig hvernig staðið skuli að gjaldtöku fyrir afnot af auðlindum í sameign þjóðarinnar, með hliðsjón af þeim gjöldum sem fyrir eru. Nefndin kanni möguleika á að nota auðlindagjald til að tryggja að afrakstur sameiginlegra auðlinda skili sér á réttmætan hátt til þeirra sem hagsmuna hafa að gæta.``

Auðvitað hefur þjóðin öll hagsmuna að gæta, það vitum við. Það þýðir ekkert að ætla að fara að sundurgreina íslenska þjóð og segja: Sumir hafa hagsmuni að gæta þegar talað er um auðlindir þessa lands og aðrir ekki. Allir sem búa í landinu hafa þar hagsmuna að gæta. Svo einfalt er það. Með leyfi forseta vil ég þá halda áfram lestrinum:

,,Um verði að ræða hóflegt gjald sem varið verði til að standa undir rannsóknum og til að stuðla að vernd og sjálfbærri nýtingu auðlindanna og réttlátri skiptingu afrakstursins, m.a. til að styrkja byggð í landinu.``

Allt er þetta rökrétt. Þetta er viðleitni manna sem líta á það að landið sé ekki of stórt fyrir íslenska þjóð, það sé litið á það sem eðlilegan hlut að nýta þetta land allt enda finnst mér dálítið hlálegt ef menn telja landið of stórt fyrir þjóðina þegar t.d. Bretland telur að það sé skynsamlegt hjá þeim að fara í herför til Falklandseyja bara til að viðhalda eign sinni á eyjunum.

Ég held að með þessari tillögugerð hafi Alþb. varpað fram ágætri tillögu sem ég er reiðubúinn að styðja vegna þess að hér er ekki verið að veifa þeirri vitleysu sem búið er að halda að alþýðu manna að hægt sé að kúpla út á einu bretti tekjuskattinum og lifa í vellystingum, bæta honum sem sagt við neysluvenjur þjóðarinnar og lifa á því að taka auðlindaskatt í staðinn. Þessi málflutningur hefur verið viðhafður og hann er ósæmilegur vegna þess að hann er aðför að heilbrigðri skynsemi Íslendinga, hann er blekking á þann veg að verið er að reyna að selja eitthvað sem er ekki söluvara vegna þess að það er ósatt. Það gengur ekki upp að hægt sé að skipta á þessu tvennu.

Auðvitað er það svo að ekkert verður tekið nema það sé tekið frá einhverjum. Engu að síður skiptir miklu máli hvað við þetta er gert. Þessi þjóð á stóra landhelgi sem við höfum eytt sáralitlum fjármunum í að rannsaka. Við eigum auðlindir á hafsbotni sem við höfum eytt sáralitlum fjármunum í að rannsaka. Við eigum auðlindir á landi sem við höfum eytt sáralitlum fjármunum í að rannsaka. Við þurfum að hefja stórsókn í nýtingu þessara auðlinda og við gerum það ekki nema með því að taka einhvers staðar fjármuni til þess. Þess vegna verð ég að segja eins og er að það er athyglisvert þegar ágætur hv. þingmaður eins og Guðmundur Árni Stefánsson stendur hér upp og heldur skörulegar ræður til stuðnings þessu máli, þá brýtur maður heilann um það hvort hann sé kannski að nálgast Alþb. meira en menn höfðu áður hugleitt. Hvort hann hafi gert þetta vegna áhrifa frá Framsfl. skal ég ekkert fullyrða um en auðvitað minnumst við þess allir framsóknarmenn að einu sinni ætlaði Alþfl. að hefja nautgriparækt í Krýsuvík eins og frægt varð þó það sé ekki enn komið til framkvæmda.