Hollustuhættir

Þriðjudaginn 24. febrúar 1998, kl. 16:15:38 (4180)

1998-02-24 16:15:38# 122. lþ. 74.9 fundur 194. mál: #A hollustuhættir# (heildarlög) frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 122. lþ.

[16:15]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég byrja á því að þakka hv. umhvn. fyrir vinnu hennar við þetta mál sem er sannarlega viðamikið eins og hefur komið fram í máli hv. þingmanna sem tekið hafa til máls í umræðunni. Ég þakka nefndinni fyrir hvernig hún hefur staðið að málinu, bæði meiri hluti nefndarinnar sem ber ábyrgð á þeim brtt. sem hér eru fluttar fyrst ekki náðist fullkomin samstaða um breytingar eða málsmeðferð í nefndinni. Einnig vil ég þakka fulltrúum úr minni hluta nefndarinnar fyrir hvernig þeir hafa staðið að vinnu við nefndarstarfið. Þrátt fyrir að skoðanir séu eitthvað skiptar um það hvaða tíma menn hefðu þurft til að fjalla ítarlegar um málið en gert hefur verið hefur þó verið lögð mikil vinna í það. Ég þykist heyra það á hv. þingmönnum sem skipa minni hluta nefndarinnar að þeir telja að a.m.k. nokkrar af þeim breytingum sem eru lagðar til af hálfu meiri hlutans séu til bóta og e.t.v. megi vænta stuðnings þeirra við einhverjar þeirra þó að þeir vilji ekki skrifa undir málið allt.

Hæstv. forseti. Áður en ég kem að efnisatriðum og þeim þáttum sem hv. þm. hafa gert að umtalsefni langar mig að fara nokkrum orðum um umræðu sem fór fram í hv. Alþingi og fjallaði um málsmeðferð og undirbúning málsmeðferðar þeirrar nefndar sem vann frv. Því miður hef ég ekki dagsetninguna á þeirri umræðu sem ég hélt að ég hefði hér, hæstv. forseti, en það skiptir reyndar ekki máli. Hv. þingmenn vita að hér fór fram umræða um vinnubrögð nefndarinnar, hvernig staðið hefði verið að málum þegar frv. var í vinnslu og hvernig stjórn Hollustuverndar ríkisins hefði komið að málinu.

Í fyrsta lagi lýsi ég óánægju minni með það að umræðan skyldi fara fram án þess að ég væri viðstaddur. Við því er út af fyrir sig ekkert að segja og síst af öllu mörgum dögum seinna og hv. málshefjandi hefur gert grein fyrir því að honum hefði ekki verið ljóst að ég hafði fjarvistarleyfi þennan dag. Auðvitað er líka bagalegt að taka umræðu upp með þeim hætti inn í þingið þar sem vitað er að ráðherra er ekki til svara og náttúrlega alls ekki formaður viðkomandi nefndar, sem á ekki sæti hér, og á þess vegna ekki möguleika á því að svara á neinn hátt fyrir það hvernig vinnubrögð voru eða hvernig hann taldi hafa verið staðið að málum. Því kom fyrst og fremst fram málflutningur annars málsaðilans, þ.e. fulltrúa þeirra í stjórn Hollustuverndar ríkisins sem gerðu athugasemdir við vinnubrögðin.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þetta, hæstv. forseti, en ég vil þó segja það eftir að hafa rætt við formanninn og farið yfir athugasemdir sem hann hefur reyndar sent öllum hv. þingmönnum og síðan rætt við og gert grein fyrir í hv. umhvn., að mér finnst að ekki sé hægt að segja að á nokkurn hátt hafi verið staðið óeðlilega að vinnubrögðum. Nefndin er auðvitað á ábyrgð ráðherrans, hún er skipuð af honum og formaður nefndarinnar er skipaður af ráðherra án tilnefningar. Síðan er leitað tilnefninga frá nokkrum aðilum til að taka þátt í þessu nefndarstarfi og endurskoðunarvinnu og þá helst þeim aðilum sem voru taldir eiga aðild að málinu og bæri að koma að því. Eðlilegt hlýtur að teljast að þeir aðilar sem koma að málum tilnefndir af stofnunum eða stjórnum stofnana eða fulltrúar einhverra hagsmunaaðila hafi samráð með einum eða öðrum hætti við þá sem þeir eru umbjóðendur fyrir. Ég tel að það komi skýrt fram í fundargerðum nefndarinnar að svo hefur í raun verið. Nefndin er skipuð 16. febrúar og 28. júní er sérstaklega bókað um málsmeðferð þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Formaður nefndarinnar setti fundinn og greindi frá því að drögin sem liggja fyrir væru ekki til almennrar dreifingar en efnið þó ekki trúnaðarmál gagnvart þeim sem tilnefndu í nefndina.``

Nokkru síðar, 13. september, segir í fundargerð nefndarinnar, með leyfi forseta:

,,Fram kom að drögin væru komin til takmarkaðrar dreifingar þar sem hluthafandi hafa þurft að afla álits sinna umbjóðenda. Drögin eiga ekki að fara í dreifingu þótt nefndarmönnum sé heimilt að sýna þau völdum aðilum.``

Þarna er tvívegis með tiltölulega stuttu millibili á vinnutíma nefndarinnar rætt aftur um hvernig skuli haga málsmeðferð. Þetta finnst mér vera fullkomlega eðlileg vinnubrögð og tel að nefndir sem starfa að svona málum þurfi og eigi að hafa nokkurn vinnufrið til þess, verði síðan að hafa eðlilegt samráð við aðila sína en vinnugögn og drög að nefndarálitum eða frumvörpum séu í raun ekki í almennri dreifingu og út um allt og m.a. á fjölmiðum svo að ég nefni það sem dæmi. Þetta vildi ég því hafa sagt, hæstv. forseti, og látið það koma fram af minni hálfu að ég tel að hér hafi formaður staðið rétt að og nefndin unnið þetta hárrétt.

Aðeins út af því sem fram kemur í skjali sem er undirritað af Kristínu Einarsdóttur og Sigurði Óskarssyni, fulltrúum í stjórn Hollustuverndar ríkisins, og þau dreifa til allra alþingismanna 10. febr. 1998, þar sem sagt er að þau hafi fyrst og fremst verið að skýra frá því hvernig komið hafi verið í veg fyrir að þau hafi eðlileg áhrif á undirbúning lagafrv. Nú ætla ég ekki að hnotabítast við þetta ágæta fólk sem hefur unnið starf sitt vel í stjórn Hollustuverndarinnar og unnið þar af samviskusemi og haft fullan vilja á því að hafa áhrif á nefndarstarfið en auðvitað er fullt af fólki sem gæti sjálfsagt sagt að það vildi gjarnan hafa áhrif á nefndarstarf eða áhrif á frumvarpsgerð eða frumvarpssmíði. En að segja að það hafi verið komið í veg fyrir að þau gætu haft eðlileg áhrif á undirbúning lagafrv., sem er unnið að í nefnd á vegum og ábyrgð ráðherra, finnst mér mikil spurning en það segi ég bara af því að þetta kemur fram í þessu skjali, undirritað af þessu ágæta heiðursfólki, og að öðru leyti ætla ég ekki að hnotabítast við það.

Ég tel að eðlilega hafi verið staðið að málsmeðferð af hálfu nefndarmanna og ég hef út af fyrir sig engar athugasemdir við það þó að einhverjir hafi aðrar skoðanir á því og geri við það athugasemdir. Það sem ber á milli er að hv. --- þó að formaður stjórnar Hollustuverndar ríkisins sé að vísu varaþingmaður þarf kannski ekki að ávarpa hana háttvirta en hún á líka allt gott skilið --- formaður stjórnar Hollustuverndarinnar hafi annaðhvort tekið hlutverk sitt sem nefndarmann með trúnaði við nefndarstarfið og ráðherrann og formann nefndarinnar óþarflega hátíðlega og þess vegna ekki skýrt nákvæmlega frá því á stjórnarfundum Hollustuverndarinnar hvernig umræður hafi verið í nefndinni eða á einhvern hátt mistúlkað það eða mátt hafi misskilja vinnuaðferð hennar í því efni. Það kann að vera að eitthvað hefði mátt fara með öðrum hætti í því starfi en ég sé ekki og mér finnst ekki í raun að menn bæti sig neitt með frekari umfjöllun um þennan þátt í starfi nefndarinnar. Ég ítreka að ég er fyllilega ánægður með það hvernig það hefur gengið fram og tel að það hafi verið gert eðlilega og vona að þessu máli sé að öðru leyti lokið.

Ég vildi nefna þetta og koma aðeins inn á það. Af því að það kom fram í umræðunum sem ég gat um hér í upphafi að gera mætti ráð fyrir því að sjónarmið ráðherra kæmu fram síðar, bæði af hálfu hv. málshefjanda á þeim tíma svo og af hálfu hæstv. forseta þar sem hann getur um það í athugasemd að búast megi við að ráðherra svari fyrir sig þegar hann komi aftur til þings, þá vildi ég hafa sagt örfá orð um þennan þátt málsins.

Að öðru leyti, hæstv. forseti, ætla ég aðeins að snúa mér að frv. og þeim brtt. sem eru lagðar fram af hálfu meiri hluta nefndarinnar og þeim athugasemdum sem koma fram í nál. minni hlutans og hv. þingmenn, fulltrúar minni hlutans, hafa gert grein fyrir. Kannski má segja, sem eðlilegt er, að ræður þeirra hafi allar snúist um nokkurn veginn sömu athugasemdaatriðin. Í fyrsta lagi að málsmeðferð hafi verið hraðað, að nokkurt óðagot hafi verið í nefndarstarfi eins og sagt er í minnihlutaálitinu sjálfu, þar sem segir að óskiljanlegt óðagot hafi einkennt málsmeðferðina. Mér finnst í raun ómögulegt að taka undir það þó svo að það sé formanns nefndarinnar og meiri hlutans að svara fyrir það hvernig staðið hefur verið að nefndarstarfinu sjálfu frá degi til dags eða frá nefndarfundi til nefndarfundar. Ef við lítum aðeins á það að málið kemur fram snemma á þingtíma, mælt er fyrir því 23. október, það er til umfjöllunar fram í febrúarlok og reyndar með fleiri nefndarfundum sem ber að þakka en dagskrá þingsins og nefndanna gerir ráð fyrir samkvæmt samkomulagi sem gert var og hér hefur verið vitnað til að afgreiða málið um það bil á þessum tíma frá þinginu. Mig langar að geta þess til samanburðar að þingið afgreiðir auðvitað ótal mörg stór mál á skemmri tíma en þetta. Við erum t.d. að afgreiða mál fyrir áramót sem eru lögð fram kannski ekki einu sinni í þingbyrjun heldur þegar nokkuð er liðið á haustþing, mál sem þurfa og verða í mörgum tilfellum að afgreiðast fyrir áramót. Ég nefni t.d. bara af handahófi ýmiss konar skattamál sem eru oft flókin og erfið viðfangs og fá afgreiðslu í þinginu. (Gripið fram í: Það tekst nú ekki alltaf vel til.) Það má sjálfsagt segja það, hv. þm. sem hér grípur fram í, að það geti verið skiptar skoðanir um það hversu vel takist til með afgreiðslu einstakra mála og það er ekki alltaf gott að flýta sér um of. Ég tek undir það en mér finnst að hér hafi verið gefinn nokkur tími og ég nefni annað frv. sem var samþykkt á seinasta þingi eftir mikla vinnu í hv. umhvn. og var búið að koma fimm sinnum fyrir Alþingi og nefndin vann við allan veturinn og gerði miklar breytingar á. Þar á ég við byggingar- og skipulagslögin. Við erum nú þegar búin að taka það mál þrátt fyrir þessa miklu og vönduðu vinnu upp til endurskoðunar einu sinni, en þ.e. það voru afgreiddar brtt. við þau lög á haustþingi sem taldar voru nauðsynlegar. Seinast í gær fékk ég upphringingu frá einum af fulltrúum hönnuða sem hafði miklar athugasemdir að gera við lögin eins og þau líta út í dag og taldi nauðsynlegt að gera á þeim ýmsar breytingar fyrr en seinna þannig að það er einu sinni svo með alla löggjöf. Ég má ekki heldur eyða allt of löngum tíma í þetta, hæstv. forseti, og kannski er ekki ástæða til að fara fleiri orðum um það en mér finnst þó að hér hafi verið gefinn allnokkur tími til umfjöllunar, a.m.k. það að fallast á að málið væri ekki afgreitt fyrir áramót eins og var þó upphafleg ósk. En ég ítreka að ég þakka nefndinni fyrir að hafa unnið vel að málinu og gert það á þeim tíma sem um var rætt.

[16:30]

Síðan hafa hv. þm. sem skipa minni hlutann talað um að markmiðssetning sé ekki skýr eða nægjanlega markviss og að það vanti kannski í þetta ýmis sjónarmið, áhrif frá Ríó-ferlinu og fleira sem ætti að vera í þessum lögum. Nú er ég ekki gera lítið úr því en ég minni þó á að við erum náttúrlega ekki hér að fjalla um heildarlöggjöf um umhverfismál. Sumar þjóðir eru með slíka löggjöf. Við höfum reyndar rætt um það í umhvrn. að setja sérstaka löggjöf hér á landi sem fjallaði um meginreglur umhverfisréttarins sem væri kannski vísir að slíkri heildarlöggjöf. Drög að slíku frv. eru reyndar til í umhvrn. Við höfum hins vegar valið þennan kostinn að vera hér með löggjöf um ýmsa aðskilda málaflokka sem taka hver á sínum þætti. Það t.d. er stór og veigamikill hlutur málanna sem fjallar um hollustuhættina. Við erum með sérlög um náttúruvernd. Við erum með sérlög sem fjalla um Náttúrufræðistofnun og hennar hlutverk. Við erum með sérlög um skipulags- og byggingamál og starfsemi Skipulagsstofnunar sem m.a. hefur veigamikinn þátt sem varðar umhverfismál á sinni könnu, þ.e. umfjöllun um lög um mat á umhverfisáhrifum svo ég nefni einhver dæmi um þetta. Auðvitað geta menn haft misjafnar skoðanir á því hvað beri að telja upp í markmiðslýsingu.

Einnig hafa hv. þm. held ég allir fjallað um alþjóðasamninga og hvernig tekið sé á því máli í frv. Nú er öllum ljóst að þessi stofnun fjallar mjög um ýmsar afleiðingar af þeim fjölmörgu alþjóðlegu samningum sem við höfum gert og erum að gera og eigum væntanlega eftir að gera. Það gerir þessi stofnun eins og aðrar stofnanir sem vinna á vegum umhvrn. og auðvitað á vegum Stjórnarráðsins í heild, þar sem fjallað er um ýmis mál sem við höfum skuldbundið okkur til að vinna að samkvæmt alþjóðlegum samningum. Það hlýtur þessi stofnun að gera og gerir og hefur tekið á sig miklar skuldbindingar eða margvísleg verkefni á undanförnum árum í þessu sambandi. En yfirstjórn þessara samninga og meðferð mála sem fjallað er um í viðkomandi samningum tel ég að eigi að vera í ráðuneytinu sjálfu og þannig höfum við verið að þróa það hvað varðar nokkra samninga sem við höfum fjallað um og erum enn þá með í umfjöllun. Ég nefni t.d. margumræddan loftslagsbreytingasamning sem hefur verið algjörlega í umsjá ráðuneytisins sjálfs, og fleiri alþjóðlega samninga sem við reynum að fylgjast með í ráðuneytinu. Hinar ýmsu, mismunandi stofnanir ráðuneytisins fjalla síðan um framkvæmd einstakra þátta hvað þetta varðar.

Einnig hefur verið rætt töluvert mikið um aðkomu og þátttöku atvinnurekenda eða vinnuveitenda í frumvarpsgerðinni, undirbúningi málsins í fyrsta lagi og síðan aðkomu vinnuveitenda að heilbrigðisnefndunum og hollustuháttaráðinu. Ég verð að segja að ég er svolítið undrandi á þeirri afstöðu sem hv. fulltrúar minni hlutans taka varðandi þann þátt málsins því ég hef talið það afar mikilvægt að eiga gott samstarf við fulltrúa vinnuveitenda í ýmsum málum sem við höfum verið að vinna að að undanförnu á sviði umhverfismála og tel að það hafi allt saman verið til bóta. Ég man ekki eftir nokkru tilviki þar sem slíkt samstarf hafi ekki verið til bóta frekar en hitt. Sérstaklega vil ég þó nefna í því sambandi afskipti vinnuveitenda og þátttöku þeirra fyrst í samningu frv. um gjald á vörur sem geta orðið að spilliefnum, svokallað spilliefnagjald, og svo úrvinnslu þeirra mála sem ég tel að hafi gengið með miklum ágætum og spilliefnagjaldsnefndin sem við venjulega köllum svo, hefur unnið mikið og gott starf með öflugri þátttöku vinnuveitenda. Ég hygg að það hefði verið miklu erfiðara að ná þeirri stöðu sem við höfum nú þegar náð varðandi framgang þeirra laga og eftirfylgd ef við hefðum ekki haft svo góða samvinnu og samstöðu með vinnuveitendum um málið. Mér finnst því þessi gagnrýni á þeirra aðkomu að málunum vera nokkuð sérkennileg, a.m.k. af þeirri reynslu sem ég hef af málinu get ég ekki tekið undir hana.

Ég man eftir því að strax við 1. umr. kom fram í máli hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur athugasemd og sjálfsagt fleirum sem hér töluðu, að bæði inn í hollustuháttaráðið og heilbrigðisnefndirnar vantaði fulltrúa, talsmann eða rödd almennings og náttúruverndarsjónarmiðanna. Nú ætla ég ekki að fara orðrétt með þetta. Ég man ekki nákvæmlega hvernig þetta var orðað hjá hv. þm. en ég hygg að efnislega hafi það verið þetta sjónarmið. Ég held að ég hafi tekið undir það þá strax að ég teldi eðlilegt að nefndin skoðaði einmitt þá þætti og velti þessu fyrir sér þannig að ég vil líka lýsa ánægju minni með að þar eru gerðar tillögur um að eiga betra samstarf við t.d. fulltrúa náttúruverndarnefnda sveitarfélaganna og má geta þess hér að ráðuneytið hélt nýlega fund með fulltrúum í náttúruverndarnefndum sveitarfélaga. Hingað komu fjölmargir einstaklingar alls staðar að af landinu sem lýstu sérstakri ánægju með þann fund og báðu um og buðu upp á aukið samstarf við umhverfisyfirvöld þannig að ég held að þetta sé eitt skref í því að mæta þeim sjónarmiðum sem m.a. komu þar fram.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson spurði m.a. um viðhorf til þeirrar breytingar sem lögð er til að aðeins skuli gerð krafa um einn heilbrigðisfulltrúa í stað tveggja. Ég tel að ef heilbrigðisnefndirnar vinna sitt verk eins og þær eiga að gera samviskusamlega og standa rétt að málum, þá sé þetta ekki tilefni til að hafa áhyggjur af. Ég tel að fyrst og fremst sé nauðsynlegt að löggjöfin kveði á um að heilbrigðisfulltrúi sé starfandi og það sé síðan svæðanna, heilbrigðisnefndanna í samráði við sína umbjóðendur, sveitarstjórnirnar, að ákveða hversu öflugt þetta eftirlit skuli vera og þurfi á tveimur fulltrúum eða fleirum að halda þá sé það þeirra að taka slíka ákvörðun.

Áður en ég kem að starfsleyfismálunum, sem er kannski það sem hv. þingmenn hafa velt einna mest fyrir sér og eðlilega því það er mál sem hefur verið oftsinnis hér til umræðu og var töluvert rætt við 1. umr. málsins, vil ég fara örfáum orðum um umræðuna sem hefur orðið um stjórnir og ekki stjórnir opinberra stofnana. Það er vissulega rétt og ég held ég hafi reyndar lýst því yfir áður í ræðustól í hv. Alþingi að full ástæða væri til og kannski nauðsynlegt að taka það mál allt til endurskoðunar í Stjórnarráðinu í heild sinni, ekki bara í umhvrn. þótt auðvitað megi gera það líka þar og það sé nauðsynlegt, heldur að mótuð sé heildarstefna um það hvernig eigi að fara með slíkt, hvort einhverjum ákveðnum stofnunum beri að hafa stjórn fremur en öðrum og hvaða stofnanir það ættu þá helst að vera.

En hér hafa sérstaklega verið nefndar þrjár til fjórar stofnanir sem undir umhvrn. heyra. Miðað við tillöguna sem hér er gerð, um að hafa ekki lengur stjórn yfir Hollustuvernd ríkisins, borið saman við aðrar stofnanir ráðuneytisins, þá er það rétt að hér gætir nokkurrar misvísunar. Náttúrufræðistofnun hefur stjórn sem svo háttar til með að þar gæti undirmaður forstjórans orðið yfirmaður hans í stjórninni og er það auðvitað óásættanlegt. Það er því nú þegar tillaga á mínu borði um að breyta stjórn Náttúrufræðistofnunar og ég hygg að kannski væri eðlilegt í slíkri stofnun að einhvers konar fagráð væri þar að störfum og sú tillaga sem er á borðinu hjá mér nú fjallar um það. Lög um náttúruvernd ríkisins eru í endurskoðun og ég veit að þar verður m.a. fjallað um þennan þátt, hvernig beri að haga með stjórn eða ekki stjórn, eða þá stefnumótunarnefnd eða fagráð, hvað sem menn vilja kalla það, ef slíkur samráðshópur er talinn nauðsynlegur. Og varðandi Landmælingarnar er það rétt að nýlega hafa farið í gegnum þingið lög þar sem sett var stjórn yfir þá stofnun. En það ber þó að árétta að sú stjórn hefur fyrst og fremst með stefnumótun að gera en alls ekki með nein mál sem varða forræði forstjóra stofnunarinnar sem hefur með starfsmannahald, fjármál og daglega stjórn að gera eins og ber að hafa. Þetta eru mál sem ég tel að ætti sannarlega að fjalla um í víðara samhengi af hálfu Stjórnarráðsins í heild sinni.

Hæstv. forseti. Ég held að hér hafi svo margar athugasemdir komið fram sameiginlega hjá hv. þingmönnum sem skipa minni hlutann að ég hafi kannski drepið á þeim þáttum sem mér fannst beint til mín sérstaklega án þess að um spurningar væri að ræða. Þó nefndi hv. þm. Kristín Halldórsdóttir sérstaklega að mikið reglugerðarvald væri sett í hendur ráðherra með frv. Sjálfsagt er það rétt en það á við um ýmiss konar löggjöf og við höfum áður rætt um það í þinginu að e.t.v. ætti að taka einhvern veginn skipulegar á því en gert hefur verið. Þó má benda á að hitt viðhorfið sem kemur æðioft upp líka er að lagasetning eigi að vera meira í rammaformi og framkvæmdarvaldið eigi síðan að vinna úr því. Ég verð að játa, hæstv. forseti, að ég hef svo sem ekki sérstaka skoðun á því hvernig eigi að standa að þessu nákvæmlega en við þurfum að tryggja að stjórnsýsla geti gengið eðlilega fram og þá þarf að fela framkvæmdarvaldinu æðimikið vald á ýmsum sviðum til þess. Ef allt sem fjallað er um í reglugerðum ætti að vera lagabókstafur þá hygg ég að það væri nærri því að æra óstöðugan og þyrfti þá e.t.v. enn meiri tíma til að vinna við lög og lagafrv. hér í hv. þingi.

Hæstv. forseti. Að lokum ætlaði ég að fjalla ofurlítið um starfsleyfismálin og þær athugasemdir sem hér hafa verið gerðar um það hvernig staðið hefur verið að því og kæruferlinu. Vil í fyrsta lagi koma með athugasemd við orðalag í nál. minni hlutans þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

,,Leiddi þetta til þess að meiri hlutinn sá sig knúinn til að gera breytingar á þessum þætti frumvarpsins á síðustu stigum umfjöllunar í nefndinni ...``

Ég held ég hafi getið þess strax í upphafi við 1. umr. málsins og hef ekkert farið í launkofa með það að ég teldi mjög brýnt að löggjafinn tæki á þessu starfsleyfismáli, starfsleyfisferlinu. Ég gerði tillögu um hvernig það ætti að vera í frv. eins og það var lagt fram. Það var fyrst og fremst tillaga um að það væri skýrt, að menn vissu nákvæmlega hvernig starfsleyfisferlið ætti að vera, að getið væri um það í lögunum sjálfum og kveðið á um það þannig að menn þyrftu ekkert að velkjast í vafa um það og að það væri ekki reglugerðarákvæði heldur sagt hvaða meðferð starfsleyfin ættu að fá. Og ef löggjafinn kæmist að niðurstöðu um að það ætti að vera einhvern veginn öðruvísi þá væri sjálfsagt að skoða það.

[16:45]

Miklar umræður hafa farið fram um það bæði í nefndinni og utan nefndar hvernig þetta mætti gerast og ég hef tekið þátt í þeim umræðum að hluta til. Niðurstaðan varð sú að fela heilbrigðisnefndum sveitarfélaganna og Hollustuvernd ríkisins alla útgáfu starfsleyfa. Ég er fyllilega sáttur við þá niðurstöðu. En það er líka kveðið alveg skýrt á um það hvernig þetta ferli skuli vera og það tel ég að sé líka mikilvægt þannig að aðilum sem málið varðar sé það þá ljóst.

Sama er síðan með kæruferlið. Þar voru einnig gerðar breytingar á. Hv. þm. Ásta B. Þorsteinsdóttir talaði um, og reyndar fleiri hv. þingmenn held ég, að enn væri sá galli á gjöf Njarðar að kæruaðilarnir væru tveir og hætt við því að hliðstæð efnisatriði gæti borið upp hjá tveimur aðilum á sama tíma. Ég vil minna á að gert er ráð fyrir að allar starfsleyfisumsóknirnar séu kæranlegar til ráðherra. Áður var hugmyndin sú að hluti af starfsleyfistillögunum færi til úrskurðarnefndarinnar en hluti til ráðherra þannig að ég tel að hér hafi einmitt verið reynt að mæta því sjónarmiði sem hv. þm. benti á í lokamáli sínu.

Ég ætla ekki að segja um það fyrir fram að ekki komi upp slík mál að þau séu skyld eða svipuð í efnisatriðum. Þarna er þó skilið á milli að starfsleyfistillögurnar eru kæranlegar til ráðherra en aðrar til nefndarinnar. Af hverju til ráðherra en ekki allt til nefndar? Meðal annars er talað um það í nefndaráliti hv. minni hluta að þetta sé dæmi um pólitíska tortryggni. Ég lít alls ekki svo á heldur er það í raun pólitísk ábyrgð sem framkvæmdarvaldið, stjórnvöld, ráðherrar hljóta að bera í málum af þessu tagi. Þeim ber að hafa þá ábyrgð og ég vitna til þess, án þess að ég hafi það skjalfest fyrir framan mig en ég hygg að þetta sé viðhorf sem hefur komið fram hjá umboðsmanni Alþingis, að það beri að taka það til gaumgæfilegrar athugunar, eins og ýmislegt fleira í stjórnskipulagi okkar, hvort rétt er að fela úrskurðarnefndum æ meiri hluta og hlutverk eins og við höfum freistast til þess að gera, síðast hvað varðar umhverfismálin í byggingar- og skipulagslögunum. Þar eru kærumál um ýmiss konar ferli af því tagi sett í kærunefnd en ekki lengur inn í ráðuneyti og á borð ráðherra. Við þetta hafa verið gerðar athugasemdir og það væri óeðlilegt að hið pólitíska vald, í þessu tilfelli ráðherrann, kæmi sér undan þeirri ábyrgð sem honum ber að hafa og væri ekki snertanlegur varðandi ýmiss konar kærumál eða kæruferli.

Ég tel að einmitt sé farið að á þann hátt að hér eru starfsleyfismálin kæranleg til ráðherrans þannig að hann ber þá áfram ábyrgð á því máli en því er ekki vísað til úrskurðarnefndar þar sem segir gjarnan að þar sé endanlegur úrskurðaraðili og mál verði ekki kærð til ráðherra heldur verði að leita til dómstóla um endanlega niðurstöðu ef menn ekki sætta sig við úrskurð kærunefndanna.

Hæstv. forseti. Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um þetta. Ég vil endurtaka þakkir mínar til nefndarinnar fyrir vinnu hennar að málinu og lýsi yfir stuðningi mínum við þær breytingartillögur sem eru fluttar af meiri hluta nefndarinnar.