Dánarvottorð o.fl.

Þriðjudaginn 24. febrúar 1998, kl. 19:09:13 (4195)

1998-02-24 19:09:13# 122. lþ. 74.10 fundur 464. mál: #A dánarvottorð# (heildarlög) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 122. lþ.

[19:09]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi bara árétta að vangaveltur mínar voru ekki hugsaðar á þann veg að við ættum að skrifa niður í lagatexta hvað menn ættu að segja og hvernig þeir ættu að haga sér við tilkynningu andláts. Ég var hins vegar að koma að því að mér er kunnugt um --- og menn mega ekki horfa eingöngu á höfuðborgarsvæðið í því sambandi --- að víða úti um land er gangur þessara mála dálítið mismunandi. Það sem ég var einfaldlega að segja er að hér er verið að koma skikk á og formfesta ákveðinn farveg sem til verður við andlát. Og af hverju ekki þá líka að menn segi hver skuli gegna því hlutverki til að mynda og undir hvaða formerkjum, að tilkynna um andlát til næsta venslamanns? Í 7. gr. er m.a. kveðið á um hvernig skuli haga málum þegar nánasta venslamanni er tilkynnt um nauðsyn réttarkrufningar. Hér er með öðrum orðum auðvitað verið að kveða á um samskipti opinberra aðila og einstaklinga og það er í þessu samhengi sem ég sagði: Hvers vegna þá ekki að gera það eilítið víðfeðmara og fara nokkrum orðum um það hvernig löggjafinn sér gang þeirra mála fyrir sér varðandi fyrstu félagslega aðstoð við andlátstilkynningu? Nú er gangur þessara mála kannski svipaður á flestum stöðum en þó ekki alls staðar. Hér er til að mynda ekki getið um hvort sóknarprestur gegni einhverju hlutverki. Og það eru ekki svör, virðulegi forseti, að lög um réttindi sjúklinga veiti svör við þessum vangaveltum mínum. Þau gera það ekki. Ég ræddi þau mál eilítið við þá lagasmíð og vakti einmitt athygli á ýmsum þeim atriðum sem ég var að nefna til sögunnar.

Ég heyrði það ekki hjá hæstv. ráðherra, það hefur kannski farið fram hjá mér, en spurning mín var þessi: Finnst hæstv. ráðherra, og nefndinni kannski ekki síður, mikilvægt að a.m.k. verði um tvær heimsóknir að ræða, tilkynning um lát og ósk um réttarkrufningu?