Framhaldsskólar

Miðvikudaginn 25. febrúar 1998, kl. 14:32:33 (4203)

1998-02-25 14:32:33# 122. lþ. 75.6 fundur 355. mál: #A framhaldsskólar# (ráðningartími aðstoðarstjórnenda) frv., Frsm. HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 122. lþ.

[14:32]

Frsm. menntmn. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breytingar á lögum nr. 80/1996, um framhaldsskóla.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórunni Hafstein og Karl Kristjánsson frá menntamálaráðuneyti, Elnu Katrínu Jónsdóttur frá Hinu íslenska kennarafélagi, Eirík Jónsson frá Kennarasambandi Íslands og Margréti Friðriksdóttur frá Skólameistarafélagi Íslands.

Með frumvarpinu er lagt til að heimilað verði að afmarka ráðningartíma aðstoðarstjórnenda í framhaldsskólum í þeim tilgangi að stuðla að æskilegri endurnýjun starfsfólks í þessum stöðum. Frumvarpið nýtur stuðnings Hins íslenska kennarafélags, Kennarasambands Íslands og Skólameistarafélags Íslands. Nefndin tekur undir markmið frumvarpsins og telur að takmörkun á ráðningartíma aðstoðarstjórnenda í framhaldsskólum sé heimil með vísan til 3. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.

Nefndin leggur til breytingu við 1. gr. frumvarpsins þannig að skólameistari geti ráðið aðstoðarskólameistara til allt að fimm ára í senn í stað þess að hann sé ráðinn til fimm ára. Verði frumvarp þetta að lögum ræður skólameistari áfangastjóra til allt að fjögurra ára og telur nefndin að samræma eigi skilyrði við ráðningu þessara aðila.

Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins þó með þeirri breytingu að á eftir orðunum ,,ræður aðstoðarskólameistara til`` í fyrri málslið 1. gr. komi: allt að.

Undir þetta rita Sigríður Anna Þórðardóttir, formaður nefndarinnar, Hjálmar Árnason, Tómas Ingi Olrich, Arnbjörg Sveinsdóttir, Árni Johnsen, Svanfríður Jónasdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir og Guðný Guðbjörnsdóttir.

Herra forseti. Ég hygg að ekki sé fleiri orða þörf um þetta nál. Um það er samstaða og það skýrir sig sjálft og ég mæli með að því verði vísað til 3. umr.