Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 04. mars 1998, kl. 14:23:20 (4326)

1998-03-04 14:23:20# 122. lþ. 79.1 fundur 354. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# frv., Flm. ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 122. lþ.

[14:23]

Flm. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Á þskj. 538 hef ég leyft mér að bera fram frv. til laga ásamt hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur og Rannveigu Guðmundsdóttur, um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt.

Tilgangur frumvarpsins er að efla menningu, kvikmyndagerð og vísindi með tilteknum skattalegum aðgerðum. Meginefni frv. er að fyrirtækjum verði heimilt að draga frá tekjum framlög til vísindastarfsemi, kvikmyndagerðar og menningarstarfsemi með tilteknu álagi. Nú er í lögum að fyrirtæki og aðrir lögaðilar mega draga ýmis framlög frá tekjum, m.a. framlög til menningarmála og vísindalegra rannsóknarstarfa. Ekki liggur fyrir, herra forseti, af hálfu skattyfirvalda í hve miklum mæli þessi framlög hafa verið.

Allir sem þekkja til á markaði menningar, vísinda og kvikmyndagerðar vita að oft og tíðum er reynt að afla fjármagns hjá fyrirtækjum. Það gengur misjafnlega en í frv. er lagt til að fyrirtæki megi draga tvöfalda þá fjárhæð frá tekjum sem þau verja til menningarmála, kvikmyndagerðar og vísindastarfsemi. Þetta, herra forseti, hvetur fyrirtæki til að auka framlög sín, enda lækka skattskyldar tekjur þeirra þar með.

Ef fyrirtæki gefur t.d. 200 þús. kr. til menningarstarfsemi má það samkvæmt frv. draga 400 þús. kr. frá tekjum. Þetta hvetur fyrirtæki til að styðja við menningu og vísindi.

Í núgildandi lögum segir að slík framlög megi ekki nema meira en 0,5% af veltu og er í þessu frv. ekki lögð til breyting á því. Frv. felur þannig í sér ekki neina hættu á tekjutapi fyrir ríkissjóð. Við flutningsmenn teljum brýnt að sú aðferðafræði að heimila aukinn frádrátt verði reynd hérlendis.

Menningarstarfsemi sem fellur undir frv. er hvers konar menningarstarfsemi fyrir almenning, svo sem fræðiritaútgáfa, fræðslumyndagerð, bóka-, skjala-, lista- og minjasöfn, bókmennta- og listastarfsemi, verndun fornra mannvirkja og sérstæðra náttúrufyrirbrigða o.fl. Með vísindalegri rannsóknarstarfsemi er átt við hugvísindi, raunvísindi, félagsvísindi og heilbrigðisvísindi, enda er vísindastarfsemi í háskólum gjarnan skipt í þessi fjögur meginfræðasvið. Með vísindastarfsemi er m.a. átt við starfsemi innan æðri menntastofnana. Framlög fyrirtækja til eflingar rannsókna og kennslu innan háskóla mundu þannig falla undir þetta frv.

Flutningsmenn telja að um framlög til kvikmyndagerðar eigi að gilda sömu ákvæði og til annarrar menningarmálastarfsemi og eru sérstök ákvæði um það í frv. Hér er bæði átt við gerð lengri leikinna kvikmynda og heimildarmynda. Í kvikmyndaiðnaði felast mikilvæg sóknarfæri og það er réttur kvikmyndagerðarmanna að nýta sér þessa frádráttarmöguleika.

Fjármögnun kvikmynda er oft þannig háttað að nái innlend fjármögnun tiltekinni upphæð kemur mun hærra mótframlag frá erlendum aðilum. Þannig geta upphæðir margfaldast. Oft hefur vöntun á fjárframlagi innan lands staðið í vegi fyrir því að fá fé erlendis frá en samþykkt þessa frv. ætti að bæta úr því.

Ríkisvaldið fær til baka vegna aukinna umsvifa allt það fjármagn sem það veitir í Kvikmyndasjóð. Kvikmyndagerð hefur auk þess mjög mikil áhrif á ferðaþjónustu en tekjur ríkissjóðs vegna ferðamanna sem ákváðu Íslandsferð eftir að hafa séð íslenska kvikmynd eða þátt í sjónvarpi eru taldar vera um 400 milljónir á ári.

Kvikmyndagerð getur orðið umfangsmikill og arðbær atvinnuvegur hérlendis. Starf íslenskra kvikmyndagerðarmanna jafnast á við það besta sem gert er í heiminum. Það er því skynsamlegt þegar horft er til framtíðar að stuðla að eflingu þessarar atvinnu- og listgreinar, eins og samþykkt þessa frv. mundi leiða til.

Íslendingar hafa náð verulegum árangri á þessu sviði og kvikmyndir framleiddar á hvern íbúa eru býsna margar hérlendis miðað við önnur lönd.

Þess má geta, herra forseti, að á síðustu sjö árum hafa verið framleiddar hér á landi um 25 kvikmyndir og heildarkostnaður tæpir 2 milljarðar. Þátttaka Kvikmyndasjóðs í þessum myndum hefur verið rúmlega 400 millj. eða liðlega 20%. Þess má geta að framlög ríkisins til kvikmyndagerðar hafa ekki verið mjög mikil á undanförnum árum, og af framlögum til menningarmála upp á rúman milljarð, 1,4 milljarða, af hálfu ríkisins í fjárlögum, er um 10% varið til kvikmyndagerðar. Sömuleiðis má nefna að ekki er staðið sérstaklega vel af hálfu opinberra aðila að sýningum á íslenskum kvikmyndum, hvort sem það eru leiknar myndir, heimildarmyndir eða leiknir þættir. Ef sl. þrjú ár eru skoðuð þá sendir Ríkisútvarpið út unnið myndefni í samtals 72 klukkustundir. Þetta svarar til u.þ.b. 40 fótboltaleikja sem Ríkissjónvarpið hefur sent út af íslensku efni og það í þrjú ár. Við sjáum vel á þessu, herra forseti, að ekki er stutt við bakið á þessari nýju atvinnu- og listgrein eins og vert væri.

Stuðningur við kvikmyndagerð hér á landi er ekki sjálfvirkur heldur er úthlutunarnefnd starfandi á vegum Kvikmyndasjóðs. Ég nefndi áðan að árlegar tekjur ríkisins í ferðaþjónustu vegna þeirra sem hafa séð íslenskt myndefni erlendis eru um 400 millj. á ári en framlög í Kvikmyndasjóð nema einungis rétt liðlega 100 millj. kr.

Einnig má geta þess að fjárfesting í hverri kvikmynd hér á landi er hagkvæm miðað við í öðrum löndum. Þannig er meðalfjárfesting hér í kvikmynd liðlega 100 millj. kr. á meðan meðalkostnaður við mynd innan Evrópusambandsins er tvöfalt sú fjárhæð eða yfir 200 millj. kr. Mér finnst á þessu, herra forseti, að það sýni sig glöggt að íslenskir kvikmyndagerðarmenn kunna vel til verka og vinna úr þeim fjármunum sem þeir hafa úr að spila.

Ríkið fær beint til baka í sköttum um það bil 1/3 af innanlandskostnaði við kvikmyndagerð og ef tekið er fjögurra ára tímabil voru úthlutanir Kvikmyndasjóðs 265 millj. kr. Ríkið fékk hins vegar beint til baka vegna þessarar úthlutunar 300 millj kr. Ríkið hagnaðist þannig um 35 millj. kr. á því að úthluta í gegnum Kvikmyndasjóð á síðustu fjórum árum. Þá er ótalinn ávinningur ríkisvaldsins vegna aukningar á ferðaþjónustu sem ég gat um áðan.

Áhrif landkynningar vegna kvikmynda, leikinna þátta og heimildarmynda eru mjög mikil. Það hefur verið rannsakað, herra forseti, að hjá Þjóðverjum og Frökkum vaknaði áhugi eða hugmynd að Íslandsferð í 25% tilvika vegna þátta í sjónvarpi eða hljóðvarpi. Þetta segir okkur að besta landkynningin sem við getum eflt til að örva ferðaþjónustu hér er að styðja við bakið á kvikmyndagerð. Hvert 1% í aukningu ferðamanna skilar í tekjum u.þ.b. 100 millj. kr. og hér er einungis um að ræða eyðslu ferðamanna en ekki flugfargjöld eða hefðbundin ferðapakkaútgjöld. Óbein ferðakynning er þannig mun árangursríkari en ferðaauglýsing.

Ég sé ástæðu til þess, herra forseti, að gera þetta að sérstöku umtalsefni vegna þess að ég held að það séu ekki mjög margir sem hafa gert sér grein fyrir þessum óbeinu áhrifum sem kvikmyndagerð hefur og að þau áhrif koma strax fram í auknum tekjum vegna ferðamanna. Þannig hafa verið skoðuð sérstaklega áhrif af þáttunum sem gerðir voru hér á landi um Nonna og Manna. Þetta voru þættir sem voru gerðir eftir bókum Jóns Sveinssonar og voru sýndir á jólunum 1988 í þýskumælandi löndum og ollu umtalsverðri fjölgun ferðamanna til Íslands frá Þýskalandi, Sviss, Austurríki og Ítalíu. Þetta eru staðreyndir sem tala sínu máli.

Sömuleiðis má geta þess að tekjur vegna erlendra tökuliða eru mikilvægar og vitaskuld eru margföldunaráhrif vegna kvikmyndagerðar veruleg í hagkerfi okkar. Þannig er hægt að fullyrða að beinn þjóðhagslegur ávinningur fyrir ríkissjóð vegna kvikmyndaiðnaðar er ekki undir 500 millj. kr. á hverju ári og þá er búið að taka tillit til framlaga ríkisvaldsins í gegnum Kvikmyndasjóð.

Það er alveg hægt að sjá það fyrir sér, herra forseti, að kvikmyndir geti orðið jafnmikilvæg stóriðja í okkar landi og sjávarútvegur og orkufrekur iðnaður. Kvikmyndaiðnaður byggir á ákveðinni sérstöðu sem við höfum töluverða hér á landi. Hann byggir á skapandi hugsun. Hann byggir á góðri menntun. Hann byggir á tæknikunnáttu. Hann byggir á auðlindanýtingu í formi fólks og sérstæðrar náttúru. Þetta eru allt saman þættir sem við getum lagt áherslu á en að auki má geta þess að þessi atvinnugrein er mjög umhverfisvæn.

Alþjóðaviðskipti hafa margfaldast á síðustu áratugum í heiminum og sú þróun mun halda áfram. Og það eru merkileg rök fyrir stuðningi við þessa atvinnugrein að eftirspurn eftir myndrænu efni hefur aukist stórkostlega á síðustu árum og mun gera það á næstu árum. Tölvuvæðingin, internetvæðingin og sjónvarpsvæðingin hefur haft þetta í för með sér og styrkt umhverfi kvikmynda mjög mikið á undanförnum árum. Erlendar rannsóknir sýna að í kvikmyndaiðnaði munu lítil og meðalstór fyrirtæki einkum hasla sér völl og það er einmitt sú umgjörð sem hentar okkur ágætlega. Í Bandaríkjunum hefur til að mynda fjöldi starfsfólks í kvikmyndaiðnaði þrefaldast á síðustu tíu árum og það er það land þar sem umsvifin eru hvað mest.

Þó svo mér hafi, herra forseti, orðið nokkuð tíðrætt um kvikmyndagerð í tengslum við þetta frv. þá ber að hafa í huga að það nær yfir fleiri þætti eins og ég lýsti áðan, vísindalega rannsóknarstarfsemi og menningarstarfsemi almennt þannig að samþykkt frv. mun einnig efla bókmenntir og ýmiss konar annað liststarf, svo sem leiklist, tónlist, myndlist og starfsemi safna, en allir þessir málaflokkar falla undir ákvæði frv.

Frv. er ætlað að leiða til aukinna framlaga til menningarmála, kvikmyndagerðar og vísindalegra rannsókna og auðvelda þeim sem að þeim starfa að afla fjár, einfaldlega vegna þess að það er hagkvæmt fyrir viðkomandi fyrirtæki. Ef þetta frv. verður að lögum verður mun auðveldara fyrir alla þessa aðila að bera sig eftir fjármagni hjá íslenskum fyrirtækjum vegna þess að hægt er að benda á að ef menn styrkja þetta góða málefni, þá hagnast þeir sjálfir á því með því að draga tvöfalda þá fjárhæð frá tekjum sínum en það hefur nokkra lækkun tekjuskatts í för með sér.

Svipuð ákvæði þekkjast erlendis og þá einnig í tengslum við rannsóknar- og þróunarstarfsemi sem er einnig mjög mikilvægur málaflokkur sem sjálfsagt væri að fella undir þessa hugmyndafræði þó svo það sé ekki lagt til í þessu frv. Stuðningur fyrirtækja við menningu og vísindi hefur aukist undanfarin ár hérlendis eins og annars staðar og við flutningsmenn teljum að það sé góð þróun að íslenskt atvinnulíf komi meira að stuðningi við þessi mikilvægu verkefni.

Þetta frv. var lagt fram á síðasta þingi í aðeins öðru formi og sent til umsagnaraðila og fékk þá mjög jákvæðar umsagnir frá þeim sem þekkja vel til mála. Meðal þeirra sem studdu frv. voru Bandalag íslenskra leikara, Bandalag íslenskra listamanna, Félag íslenskra hljómlistarmanna, Félag íslenskra leikara, Háskóli Íslands, Listasafn Íslands, Rannsóknarráð Íslands, Rithöfundasamband Íslands, Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda og Vísindafélag Íslands. Frv. hefur fengið mjög góðar viðtökur í því umhverfi sem því er tengt, þ.e. bæði hvað varðar kvikmyndaiðnaðinn, menningargeirann og vísindaheiminn hérlendis og það er von fjölmargra aðila sem starfa í þessu umhverfi að við berum gæfu til þess að lögfesta þetta í þessu formi.

Aukin framlög til þessara málaflokka skila einnig tekjum í ríkissjóð, m.a. í formi virðisaukaskatts eða tekjuskatts einstaklinga. Þannig er líklegt að frv. leiði til aukningar á tekjum ríkisins, en ekki sé um að ræða útfærslu sem leiði til tekjurýrnunar hjá ríkissjóði. Og ef frv. leiðir bæði til aukningar á tekjum ríkisins auk þess að auðga menningarlíf og vísindastarf og hlúa að þeim mikilvægu vaxtarmöguleikum sem við höfum á þessum sviðum, þá væri vel að verki staðið.

Ég vil að lokum, herra forseti, benda á að lögfesting frv. hefur enga áhættu í för með sér. Þessi aðferð hefur verið reynd erlendis, reynst þar vel, og við flutningsmenn teljum brýnt að það verði reynt á það hér á landi hvort þessi aðferðafræði geti ekki eflt menningarstarf, vísindastarf og kvikmyndagerð eins og við teljum brýnt. Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til hv. efh.- og viðskn.