Leigubifreiðar

Fimmtudaginn 05. mars 1998, kl. 17:34:45 (4405)

1998-03-05 17:34:45# 122. lþ. 80.21 fundur 519. mál: #A leigubifreiðar# (vöru- og sendibílar) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 122. lþ.

[17:34]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Þetta frv. er samið í samgrn. og snýr fyrst og fremst að leiguakstri sendibifreiða og vörubifreiða. Fram að þessu hafa þeir sem þann akstur stunda ekki þurft að hafa leyfi fyrir akstri sínum og að öðru leyti hefur lagaumhverfi þeirra verið mun óljósara en þeirra sem stunda leiguakstur á fólki. Með þessu frv. verður breyting á. Lagt er til að sendibifreiðastjórar og vörubifreiðastjórar skuli hafa starfsleyfi og uppfylla almenn skilyrði leigubifreiðalaga eins og gildir um leiguakstur á fólki. Er hér átt við óflekkað mannorð, fullnægjandi ökuréttindi og fjárhagsstöðu. Eftir sem áður er gert ráð fyrir að þeir sem starfsleyfi hafa geti í forföllum sínum ráðið annan mann á bifreiðina og þarf sá aðili ekki sérstakt starfsleyfi.

Í frv. er enn fremur heimild til að halda námskeið fyrir verðandi bifreiðastjóra á sendibifreiðum og vörubifreiðum. Er það í samræmi við ákvæði laga um leiguakstur á fólki. Verði ákveðið að halda slík námskeið er þó gert ráð fyrir því að þeir sem stunda þennan akstur við gildistöku laganna þurfi ekki að fara á námskeið af þessu tagi. Leyfi til aksturs sendibifreiða og vörubifreiða verða gefin út í samgrn.

Ég vil að lokum taka fram að nokkuð hefur verið kvartað undan svartri atvinnustarfsemi, einkum í sambandi við sendibifreiðar. Þessu frv. er ætlað að vinna á móti þeirri tilhneigingu og snýr að því leyti til réttlætisáttar og heilbrigðari samkeppnishátta en verið hefur um hríð.

Ég vil taka fram að hér er í sambandi við starfsleyfi fólksbifreiða í leiguakstri dregið úr kröfum um fjárhagsstöðu og látið nægja að segja í frv., með leyfi forseta: ,,hafa fullnægjandi fjárhagsstöðu sem felst í því að vera fjár síns ráðandi.``

En í gildandi lögum er gert ráð fyrir að samgrn. ákveði að viðkomandi maður þurfi að eiga eigið fé, eins og segir í reglugerðum, sem mig minnir að séu 400 þús. kr. Hér er sem sagt látið við það sitja að fullnægjandi fjárhagsstaða felist í því að viðkomandi sé fjár síns ráðandi enda mjög erfitt að fylgja því lagaákvæði eftir sem er í gildandi lögum.

Ég veit að ýmislegt í lögunum um leigubifreiðar orkar tvímælis. Það eru uppi mjög skiptar skoðanir meðal þeirra sem eru í þessum stéttum, einkum leiguakstri fólksbifreiða, um það hvernig á málum skuli haldið. Hér er valinn sá kostur að láta við það sitja að leggja til lágmarksbreytingar sem einvörðungu snúa að vörubifreiðum og sendibifreiðum en um leið er vilji til þess að athuga löggjöfina í heild og þá í ljósi þess að niðurstaða geti legið fyrir á hausti komanda.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og samgn.