Húsnæðismál

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 13:20:58 (4430)

1998-03-06 13:20:58# 122. lþ. 81.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[13:20]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Ræða hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur var um margt merkileg, í raun og veru ótrúleg varnarræða. Hún talar eins og húsnæðiskerfið, þ.e. félagslega húsnæðiskerfið sem er við lýði í dag sé í lagi. En félagslega húsnæðiskerfið virkaði að sjálfsögðu í upphafi, eins og mörg kerfi gera, en það virkar alls ekki í dag. Ég þekki það vel úr mínu fyrra starfi sem sveitarstjóri að í þessu kerfi er lítill sveigjanleiki, hvað sem hver segir, félagslega kerfið er ákveðinn baggi á sveitarfélögunum. Það er alveg sama hvort sveitarfélögin eru vel eða illa rekin eða hvort það eru fáar eða margar íbúðir í sveitarfélögunum. Í t.d. sveitarfélögum á Suðurlandi er til þess að gera jafnvægi í félagslegum íbúðum og íbúðum á almennum markaði. Kerfið er baggi á sveitarfélögunum. Og það er alveg klárt mál að það er óraunhæft verð á þessum félagslegu íbúðum. Fólk er mjög óánægt þegar til sölu og uppgjörs kemur og það eru fyrningareglur og fólk er virkilega í mörgum tilfellum að tapa peningum þarna.

Það er líka erfitt í kerfinu eins og það er að fá lán fyrir viðhaldi og kerfið er almennt þungt. Eignarmyndun er mjög seinvirk og mjög margt ungt fólk sem fer inn í þetta kerfi fer hundóánægt út úr því og fer inn á almennan markað. Og því finnst í mörgum tilfellum að það sé hreinlega hlunnfarið. Láglaunafólki hefur gengið illa í þessu kerfi, það er alveg sama með þá sem eru hærra launaðir og hafa lent í 4,9% vöxtunum, því hefur gengið verulega illa í þessu kerfi og ég fagna virkilega breytingum. Það er ekkert víst að kerfið sem við höfum áhuga á að setja á sé fullkomið, en ég fagna þeim breytingum sem eru vonandi að verða á þessu kerfi.