Húsnæðismál

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 14:11:18 (4436)

1998-03-06 14:11:18# 122. lþ. 81.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[14:11]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal hann lýsir því yfir að hann hafi verið mér nánast að öllu leyti ósammála og ég segi: Mikið þykir mér vænt um það. Þá hefur þetta greinilega verið nokkuð góð ræða sem ég hélt hér fyrir félagsleg sjónarmið um húsnæðismál.

Það er alrangt hjá hv. þm., og það veit hann sjálfur, að það sé hugsjón mín eða nokkurs annars lifandi manns að gera alla jafnfátæka. Auðvitað er þetta barnalegur málflutningur. Það sem ég er að tala fyrir er að allir geti lifað mannsæmandi lífi og líka hvað húsnæðismál snertir. Og það er það sem félagslega íbúðarhúsnæðiskerfið gerði á Íslandi. Það gerði lágtekjufólkinu í landinu kleift að flytjast út úr braggahverfunum og losna við rottuganginn og út úr moldarkofunum þannig að svo er nú komið að það heyrir til algjörra undantekninga að menn búi í heilsuspillandi húsnæði á Íslandi í dag og það er gott.

Hv. þm. aðhyllist einstaklingsframtak. En hann aðhyllist því miður ekki það að allir eigi að fá að verða jafnríkir. Það er nefnilega ekki það sem felst í einstaklingshyggju hv. þm. Það er það að sumir eigi að fá að vera mjög ríkir og aðrir verði þá þess vegna bara að vera fátækir ef svo ber undir. Frelsið sé einu sinni þannig.

Og varðandi svo þetta með verkalýðshreyfinguna þá er ég ekki feiminn við það. Ég er ekki feiminn við það að spyrja hæstv. félmrh. að því, sem hafnar samstarfi við verkalýðshreyfinguna um húsnæðismál, slítur áratugalöngu samstarfi opinberra aðila í landinu við verkalýðshreyfinguna um uppbyggingu og þróun húsnæðismála, hvort það sé þá þannig komið að verkalýðshreyfingin eigi engin önnur ráð, heildarsamtök launamanna, almenningurinn í landinu, til þess að hafa áhrif á þessi mál, en að beita vopni af því tagi sem verkfallsvopnið er. Og það er eins og það komi hv. þm. eitthvað á óvart. Hefur hv. þm. aldrei lesið mannkynssöguna? Veit hann ekki hvernig almenningur víða um heim, hér á landi og annars staðar, hefur með samtakamætti sínum orðið að knýja fram breytingar aftur og aftur? Það er ekkert lýðræði götunnar, það er enginn barbarismi þó að heildarsamtök launamanna í landinu vilji hafa áhrif á mikilvæg hagsmunamál sinna umbjóðenda. Það er fjarstæðukenndur málflutningur að halda slíku fram.