Húsnæðismál

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 14:48:09 (4442)

1998-03-06 14:48:09# 122. lþ. 81.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[14:48]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vek athygli á því að hv. þm. svaraði ekki meginspurningu minni, þ.e. hvort hún teldi þetta frv. leysa vanda þeirra sem ekki fá inni í hinu nýja kerfi og hvort hún teldi að 50 íbúðir á árunum 1999 og 2000 muni duga fyrir þá sem ekki fá aðgang að þessu kerfi. Hv. þm. viðurkenndi að sum sveitarfélög hefðu byggt umfram þörf og þar með er hún auðvitað að taka undir það sem ég hef nú stundum verið að segja, að félagsleg aðstoð sumra sveitarfélaga, langt í frá allra, vegna þess að mörg hafa staðið sig vel, hafi í ýmsum tilvikum frekar runnið til verktakaiðnaðarins en að leysa þörf láglaunafólks í sveitarfélögunum. Þannig að auðvitað er um að ræða, ekki kerfið sjálft sem slíkt heldur kannski stöðu atvinnulífsins á stöðunum, og við eigum ekki að leggja niður félagslega íbúðakerfið vegna þess.

Varðandi kaupleigukerfið þá hefur það mikinn sveigjanleika í för með sér. En það sem ég hef bent á er að sveitarfélögin hafa ekki nýtt sér þann sveigjanleika. Þau hafa t.d. ekki lánað það sem vantar upp á 100% lán til 15 ára mörg hver, sem þau ættu að gera, sem hefði létt verulega greiðslubyrði fólks. Þau hafa alls ekki í öllum tilvikum leyft fólki að ráða því hvort það leigir fyrst kaupleiguíbúðina og kaupir hana síðan þegar hagur vænkast. En engu að síður hafa ýmis sveitarfélög nýtt sér þá kosti sem þarna eru með félagslegum kaupleiguíbúðum og margar af þeim íbúðum hafa verið notaðar sérstaklega fyrir láglaunafólk til þess að leigja því fólki sem ekki getur keypt sér sína eigin íbúð.

En meginspurning mín sem mig fýsir að vita hjá hv. þm., sem mælir mjög sterklega með þessu frv. og kannski ekki skrýtið af því að þetta er stefna Sjálfstfl. sem hér er verið að samþykkja, hvort hún telji að þessi leið sem hér er valin, leysi úr þörf þeirra verst settu í þjóðfélaginu. En það er megintilgangurinn með félagslega íbúðakerfinu.