Húsnæðismál

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 13:53:49 (4512)

1998-03-10 13:53:49# 122. lþ. 83.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[13:53]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég ætla mér að fara nokkrum almennum orðum um frv. til laga um húsnæðismál, markmið frv. og þær leiðir sem fara á til að ná þessum markmiðum. Í greinargerð með frv. segir að stefnt sé að því að skapa nýtt og einfaldara kerfi sem þjóni betur tekjulágu fólki og öldruðum. Því er haldið fram að það sé ódýrara í rekstri og henti sveitarfélögunum í landinu betur en það kerfi sem nú er við lýði. Ég legg áherslu á að það er talið henta þeim betur. Þetta frumvarp til laga um húsnæðismál á að leiða til þess að við fáum einfaldara kerfi, ódýrara kerfi, kerfi sem þjóni betur hagsmunum láglaunafólks en það kerfi sem við búum við nú. Þetta eru markmið sem ég held að þingmenn og þjóðfélagið almennt geti skrifað upp á.

Þjóðfélagið og stofnanir þess eru hins vegar mjög nýlega búnar að fá þessi frumvarpsdrög í hendur. Innan verkalýðshreyfingarinnar er nú unnið að því að skoða málin, stilla upp ólíkum módelum, fá svör við spurningum sem ekki liggja ljósar og þar fram eftir götunum. Yfir alþingismenn rignir ábendingum frá félagasamtökum sem láta þessi mál til sín taka.

Hæstv. félmrh. hefur haft orð á því að gott samráð hafi verið haft um þessi mál við samtök launafólks og ýmsa aðra sem láta sig húsnæðismál varða. Þetta samráð var þannig að stærstu samtök launafólks, Alþýðusambandið og BSRB, fengu fund með hæstv. ráðherra fáeinum mínútum áður en frv. var kynnt á fundi með fréttamönnum. Þetta var samráðið. Að vísu óskaði hæstv. félmrh. eftir samstarfi um hugsanlegar breytingar á frv. og að sjálfsögðu verður látið á það reyna hvort hugur fylgi þar máli. Þó tel ég alveg ljóst að ef fara á fram viti borið samstarf og samráð um þessa lagasmíð, þá verður það ekki gert á fáeinum dögum eða fáeinum vikum. Menn þurfa að gefa sér góðan tíma til þeirrar vinnu.

Hvers vegna segi ég þetta? Vegna þess að sporin hræða. Saga húsnæðismála á liðnum áratugum hlýtur að móta afstöðu okkar í þessum efnum. Við höfum búið við miklar og róttækar breytingar í húsnæðismálum á undanförnum áratugum. Þó ekki sé farið lengra aftur en til byrjunar síðasta áratugar, þá minnast menn misgengisáranna sem svo voru nefnd þegar vísitala launa var afnumin en lánskjaravísitalan látin halda sér. Gripið var til neyðarráðstafana á vegum stjórnvalda, komið á viðbótarlánaflokkum, viðbótarlánum og reynt að tjasla upp á það kerfi sem við þá bjuggum við.

Róttækar breytingar urðu á húsnæðiskerfinu árið 1986. Þá komu til sögunnar húsnæðisbætur en almenna húsnæðiskerfið var þá rekið þannig að allir nytu tiltölulega lágra vaxta. Svo gilti um alla og allir sem voru að kaupa eða byggja í fyrsta sinn fengu húsnæðisbætur í sex ár.

Aftur voru gerðar breytingar á húsnæðiskerfinu í byrjun þessa áratugar. Horfið var frá lágvaxtastefnu sem sumir kjósa að kalla niðurgreidda vexti vegna þess að hið eðlilega í þeirra huga eru markaðsvextir, allt annað er niðurgreitt. Ég vil heldur nota hugtakið háir vextir og lágir. Það kerfi, þ.e. sem byggir á hærri vöxtum, er tekið upp með húsbréfakerfinu og til sögunnar koma vaxtabætur. Í átta ára sögu vaxtabóta hefur fimm sinnum verið hreyft við þeim, fimm sinnum krukkað í þær og á hverju einasta ári, fyrstu fimm árin eftir að þær komu til í byrjun þessa áratugar, þá var hreyft við þessum stuðningi.

Auk þeirra breytinga sem ég nefni að hafi orðið á húsnæðiskerfinu voru einnig gerðar breytingar í félagslega kerfinu. Ekki var nóg með að kaupleigukerfið kæmi til sögunnar, heldur var sífellt verið að breyta forsendum í félagslega húsnæðiskerfinu, t.d. með breytingum á vöxtum.

[14:00]

Fyrsta atriðið í ljósi þessarar sögu sem ég vil leggja áherslu á er þetta: Í ljósi þeirra breytinga sem voru gerðar og ófyrirsjáanlegra afleiðinga sem hrákasmíðin iðulega hafði eigum við að gefa okkur tíma til að skoða málin. Þegar ég tala um ófyrirsjáanlegar afleiðingar nefni ég það t.d. að undanfarin ár höfum við búið við það að stórir tekjuhópar á húsnæðismarkaði hafa verið að lenda á milli kerfa, hafa hvergi átt heima, ekki komist inn í félagslega húsnæðiskerfið og ekki heldur í almenna kerfið. Ástæðan fyrir því að þetta gerist er sú að reynt var og með árangri að þröngva í gegnum Alþingi róttækum breytingum án þess að menn væru búnir að hugsa dæmið til enda. Nú, með þessu frv., á að stíga enn stærra skref en stigið hefur verið áður því hér er gert ráð fyrir mjög róttækum breytingum á húsnæðiskerfinu.

Hæstv. forseti. Ég mun nú gera hlé á máli mínu þar til hæstv. félmrh. kemur hingað í þingssalinn (Félmrh.: Hann er hér.) og sýnir mönnum þá lágmarkskurteisi að hlusta á þessi mál. Það er nóg að hann vanvirði samtök launafólks með þeim yfirlýsingum sem hann m.a. gaf hér í gær um að hann hefði haft mjög náið samráð við samtök launafólks sem er rangt. Það eru ósannindi. Það hefur ekki verið gert. Mér finnst að menn geti látið svo lítið að hlusta á þá umræðu sem hér fer fram. (Félmrh.: Ég var að því.) Það er lágmarkskurteisi sem ráðherrann hlýtur að sýna alþingismönnum þegar þeir eru að fjalla um þessi mál.

Það sem ég var að leggja áherslu á í mínu máli er að hér er gert ráð fyrir mjög miklum og róttækum breytingum á skipan húsnæðismála og ég er að vara við því að ráðist verði í þær breytingar án þess að málið sé hugsað til enda. Þetta er lágmarkskrafa. Og ég er að vekja athygli á því að yfir alþingismenn rignir nú ábendingum frá félagasamtökum og aðilum sem hafa verið að skoða þessi mál, varnaðarorðum og ábendingum sem við hljótum að gefa okkur góðan tíma til að skoða.

Ég byrjaði mál mitt á að vitna í grg. með frv. þar sem talað er um almenn markmið þess að gera kerfið ódýrara og betra en það sem við búum við nú, sérstaklega með tilliti til þeirra sem eru tekjulágir í þjóðfélaginu. Það er ýmislegt annað í markmiðum þessa frv. sem ég get skrifað upp á og tekið undir og ég held að ég geti talað þar fyrir hönd samtaka launafólks, t.d. hvað varðar valfrelsi sem á að treysta með þessu frv. Bæði BSRB og ASÍ hafa þannig ályktað um félagsleg lán sem geri einstaklingum kleift að ráða sínum dvalarstað, sínu húsnæði, þ.e. hvar það er og sú hugsun finnst mér vera að mörgu leyti jákvæð. Eins og ég segi þá er þetta nokkuð sem þessi samtök hafa ályktað um. En það er ekki þar með sagt, þótt menn vilji félagsleg valkvæð lán, að menn vilji fara með það kerfi út á markaðinn. Þannig ályktaði BSRB t.d. á síðasta þingi samtakanna sem fram fór 1997 um lán af þessu tagi, félagsleg lán sem einstaklingurinn gæti ráðstafað að eigin vild. Þar var einnig ályktað um vexti og lánskjör. Þar var ályktað á þá lund að vexti í félagslega kerfinu ætti að færa niður, ekki upp heldur niður --- þeir eru núna 2,4% --- að það ætti að fara með þá vexti niður í 1% þannig að ekki þarf að fara saman valkvæð eða félagsleg lán og hitt að fara með lánskerfið allt út á markað. Þetta þarf ekki að haldast í hendur. Það er eitt að segjast vilja félagsleg lán og gera fólki kleift að ákveða hvar það kemur til með að búa. Hitt er að einnig þarf svo að vera í reynd. Það þarf að vera alvöruvalfrelsi í reynd. En það er ekki tryggt með þessu frv., meira að segja langt í frá.

Frv. gerir ráð fyrir að lánað sé fyrir 65--70% kostnaðar á markaðsvöxtum eins og nú er í húsbréfakerfinu, en þar eru vextir núna yfir 5%, 5,1%. Því til viðbótar verði þeim sem uppfylla skilyrði sem eftir á að setja --- það á eftir að setja þessi skilyrði --- gefinn kostur á viðbótarláni fyrir 20--25% af kostnaði. Þeir munu því eiga kost á 90% kaupverðs íbúðar til láns. En þessi viðbótarlán eru háð ýmsum skilyrðum. Þau eru háð samþykki húsnæðisstjórnar. Þau eru háð því hvort sveitarfélögin eru tilbúin að leggja 5% af viðbótarláni í varasjóð. Þau eru háð mati stjórnar Íbúðalánasjóðs á heimildum sveitarfélags hjá sjóðnum. Þau eru háð því hvernig fjárhagsstaða Íbúðalánasjóðs er. Og síðan getur sveitarstjórnin skilyrt hvaða íbúð er keypt. Hún getur skilyrt lánveitinguna. Þar með erum við búin að gera þetta valfrelsi, sem við hugsanlega hefðum getað sameinast um að einhverju leyti, að engu. Möguleikar tekjulágs fólks til að kaupa íbúð eða byggja, byggjast að sjálfsögðu á því að fólk hafi peninga milli handa og þá lánsfjármagn væntanlega.

Auk þessara skilyrða sem ég nefndi hefur enn ein stórbreyting verið gerð því fólk kemur ekki lengur til með að eiga kost á 100% lánum eins og nú er. Og hvað þýðir þetta? Hvað þýðir það að fara úr 100% í 90%? Hvað þýðir þetta fyrir fólk? Við skulum taka íbúð sem kostar 7 millj. Hvað eru 10% af 7 millj.? Eru það ekki 700 þús.? Það eru 700 þús. kr. Einstaklingur sem hefði átt kost á að fá 7 millj. lánaðar --- gefum okkur það, það er verið að fara með þetta allt út á markaðinn --- fengi 6,3 millj. Ekki satt? Að auki --- nú hef ég nefnt ýmis formleg skilyrði þess að fólk geti fengið þetta val allt saman --- kemur til sögunnar margvíslegur nýr kostnaður við það að fara yfir í markaðskerfið, sölukostnaður t.d. og aðskiljanleg gjöld. Hér erum við að tala um mikla peninga. Við erum að tala um tugi þúsunda króna. (Gripið fram í.) Við erum að tala um 100 þús. kr. til viðbótar. Sú tala hefur verið nefnd. Þarna er því búið að reisa nýjan þröskuld upp á tæplega 1 millj. kr. sem einstaklingur, sá sem ætlar að kaupa þessa 7 millj. kr. íbúð þarf annaðhvort að hafa sparað eða tekið að láni á þeim kjörum sem koma til með að bjóðast á markaði. Þetta er það sem þessi einstaklingur stendur frammi fyrir þarna. Við vitum það ósköp vel hvernig lágtekjufólki tekst að leggja til hliðar 1 millj. kr. Það er ekkert hlaupið að því.

Að auki er með öllu óljóst hvernig aðgangurinn að þessu lánakerfi almennt verður. Það liggur ekki ljóst fyrir. Til að fá lán núna í húsbréfakerfinu þurfa menn að hafa 18% af ráðstöfunartekjum sínum til húsnæðiskaupanna, 28% í félagslega kerfinu. Hvaða skilyrði verða sett í þessu kerfi? Það liggur ekki ljóst fyrir. Það sem hins vegar liggur ljóst fyrir er að búið er að reisa ýmsa nýja þröskulda. Eitt af því, bara svona til áminningar eða upprifjunar öllu heldur, er að við vorum að samþykkja hér eða ríkisstjórnin knúði í gegn lög fyrir fáeinum mánuðum þar sem afnumið var þak sem var á þeirri söluprósentu sem fasteignasalar gátu tekið til sín vegna sölu á íbúðum. Talsverð umræða varð um þetta hér í þingsal. Við höfðum áhyggjur af þessu mörg úr stjórnarandstöðunni að þakið væri numið brott. Nú er búið að gera það þannig að við vitum ekki hvaða prósentu fasteignasalar koma til með að taka til sín. Það er búið að nema úr lögum þær skorður sem þeim voru settar á sínum tíma fyrir tilstilli sama hæstv. félmrh. og ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Enda vekur náttúrlega athygli sú mikla hrifning sem komið hefur fram í þessari umræðu af hálfu Sjálfstfl. Og því lengra sem menn standa til hægri í stjórnmálum því hrifnari eru þeir. Menn ná ekki brosinu af andlitinu sumir sem koma hér upp. Þeir eru svo ánægðir og glaðir yfir þeirri stefnu sem hér er verið að fylgja. Það er verið að markaðsvæða allt kerfið. (RG: Það hefur skinið sól síðan á föstudag hjá sumum.) Það skín sól.

Það sem verið er að gera hér er að við erum að hverfa frá hinu félagslega í þessu kerfi og það sem þegar hefur komið í ljós og kemur út úr þessari umræðu --- það á reyndar eftir að skoða miklu betur --- er að þeim mun fækka sem eiga kost á því að eignast íbúð. Því er spurningin sem við þurfum að fá svar við þessi: Hverjir eru þá aðrir kostir? Stærsti vandinn í félagslega húsnæðiskerfinu hefur verið sá að skort hefur góðar leiguíbúðir. Þetta er viðurkenndur vandi á húsnæðismarkaði hér og í húsnæðiskerfinu hér, þ.e. að það skortir góðar leiguíbúðir. Er gert ráð fyrir smíði nýrra leiguíbúða? Á að mæta þessari eftirspurn með nýjum leiguíbúðum? Það er talað um 25 leiguíbúðir á ári í tvö ár, 50 íbúðir. Þetta er nánast eins og brandari þó að mönnum sé ekki hlátur í hug. Það sem menn hljóta að velta fyrir sér þegar þeir skoða þá þætti frv. sem afmarkað skoðað kunna að vera til bóta, er hvort ekki liggi á að keyra þetta í gegn. Ég segi nei.

[14:15]

Í fyrsta lagi orkar margt af því sem talið hefur verið þessu frv. til ágætis mjög tvímælis, t.d. greiðslubyrðin og þeir útreikningar sem liggja þar að baki. Ég hef bent á það og aðrir þingmenn einnig að það er ekki nóg að skoða greiðsluhlutföll. Menn verða líka að skoða tilkostnaðinn við lántökuna og kostnaðinn við kerfið. Menn þurfa líka að skoða þessa greiðslubyrði miklu, miklu betur. Í ljós kemur að miðað við þær töflur sem birtar eru með frv. mundi fólk sem hugsanlega kæmist inn í kerfið, samkvæmt þeim reglum sem settar eru til að komast inn í húsbréfakerfi, ekki rísa undir greiðslubyrðinni þegar undir lok greiðslutímans líður. Einstætt foreldri með 80 þús. kr. á mánuði kæmi til með að borga 100 þús. kr. meira í lok tímabilsins en það gerir í því kerfi sem við búum við. Þeir stæðu ekki undir þeim byrðum sem settar yrðu á herðar þeirra undir lok tímabilsins þegar fólkið er að komast á ellilaunaaldur ef um ungt fólk hefur verið er að ræða. Þetta eru hlutir sem við þurfum að skoða miklu betur og krefjast miklu meiri umræðu áður en gengið er í að gera breytingar á kerfinu. Við eigum ekki að gera breytingar nema við séum sannfærð um að þær séu til bóta og í reynd í samræmi við þau markmið sem ég vitnaði til í upphafi og hæstv. félmrh. setti sér með setningu nýrra laga.

Eitt langar mig til að leggja mikla áherslu á og það er sú grundvallarbreyting sem gera á með þessu frv., á stuðningi hins opinbera við húsnæðiskaupendur. Hver er sú grundvallarbreyting? Hún er sú að stuðningur sem veittur hefur verið í gegnum félagslega kerfið, t.d. í formi lágra vaxta, er allur færður yfir í vaxtabótakerfið. Stuðningur hins opinbera kemur til með að liggja þar. Er þetta gott eða er þetta slæmt? Ég held að menn þurfi að vara sig á því að hrífast ekki svo af einföldum, skýrum og góðum kerfum að menn gleymi að skoða hugsanlega vankanta og hugsanlegar hættur sem í þeim kunna að felast. Um áramótin samþykktum við lög um húsaleigubætur og í 1. gr. þeirra laga segir að þau eigi að verða til þess að bæta kjör tekjulágra leigjenda. Síðan hafa menn vaknað upp við þann vonda draum, t.d. í Reykjavík, að kjörin hafa versnað með því samspili sem er á milli nýrra húsaleigubótalaga og markaðsvaxta sem búið er að setja á hjá félagslegum íbúðum hf. Reyndar hefur komið í ljós að það er ólögleg ráðstöfun. Kjörin versnuðu hjá sumum um margar þúsundir króna, í sumum tilvikum 15--20 þús. kr. á mánuði. Annars vegar erum við með þessi fínu lög sem líta óskaplega rökrétt og vel út en á hinn bóginn erum við með versnandi kjör hjá þeim sem lögin eiga að þjóna.

Í þessu máli vil ég vekja athygli á því hvaða hættur felast í að fara með stuðninginn allan yfir í vaxtabæturnar og hverfa frá stýringu í gegnum vexti eða aðra þætti í félagslega kerfinu. Hættan er sú að það er auðveldara að skerða kjörin í kerfinu sem ætlað er að taka við. Ég minni á að í tíð þessarar ríkisstjórnar voru uppi hugmyndir um breytingar á vaxtabótunum. Ef þær hugmyndir hefðu náð fram að ganga, þá hefðu kjör húsnæðiskaupenda stórversnað.

Hvenær reynir mest á vaxtabótakerfið? Undir hvaða kringumstæðum kæmi til með að reyna mest á vaxtabótakerfið? Það er í kreppu. Mest mundi reyna á vaxtabótakerfið í kreppu. Hvers vegna? Vegna þess að þá dragast tekjur fólks saman og meiri bætur þarf í vasann. Hver borgar þessar bætur? Það er hið opinbera. Hvernig hagar hið opinbera sér, þegar kreppir að, þegar minna kemur í ríkiskassann. Hvað gera menn þá? Þá skera menn niður. (Gripið fram í: Spara menn.) Spara menn? Þá skera menn niður. Hvar skera menn niður? T.d. í þessum málaflokki verður skorið niður. Þegar reynir á kerfið, þá er skorið niður. (Gripið fram í: Stundum eru skattarnir hækkaðir.) Stundum eru skattarnir hækkaðir líka en ef við ætlum að fá réttlátara skattkerfi og réttlátari dreifingu, þá þurfum við líka að skipta um ríkisstjórn er ég hræddur um.

Ég minni á að á átta ára sögu vaxtabótakerfisins hefur fimm sinnum verið krukkað í það. Ég er að vekja athygli á þeirri hættu sem er fyrir hendi og þeirri hættu sem skapast við að setja allan stuðninginn við húsnæðiskaupendur inn í vaxtabæturnar. Það verður svo auðvelt að skerða og þar með breyta forsendum fyrir alla þá sem eru að borga af lánum sínum. Mjög drjúgur hluti af kjörum hvers manns tengist húsnæði og það er því mjög mikilvægt að á því sviði ríki festa en ekki óvissa. Ýmsa þætti þarf því að skoða betur.

Að sjálfsögðu þarf einnig að hyggja að öðrum málum. Ég vek athygli á því að fólki verður ýtt út af eigendamarkaðinum. Fólk fær ekki kost á að eignast íbúðir og þarf að leigja íbúðir. Þó ýmsir kjósi fremur þann kostinn munu sumir ekki eiga um neitt að velja í því efni vegna þess að það er tekjulágt fólk. Pólitísk afstaða sveitarfélaga til leiguíbúða er misjöfn. Við þekkjum sveitarfélög sem hafa þá pólitísku afstöðu að vilja ekki leiguíbúðir. Garðabær er t.d. frægur að endemum í þeim efnum. Það er kapítuli út af fyrir sig og væri þess virði að taka góða umræðu um hvernig farið hefur fyrir fólki sem verið hefur í félagslega kerfinu eða tengst því sveitarfélagi. Í Vestmannaeyjum hefur þessi pólitíska stefna verið að því er ég best veit.

Kostir tekjulágs fólks ráðast því mjög af þeim áherslum sem viðkomandi sveitarfélag hefur. Ef lög af þessu tagi verða samþykkt mun reyna enn meira á þetta. Sýnt er að það mun fjölga mjög í þeim hópi sem þarf að fara út á leigumarkaðinn. Ég held að það sé alveg óumdeilt að fleira fólk þarf að leita þangað, þó ekki væri fyrir annað en það að lánin eru ekki 100% heldur 90%. Sá sem hefði getað átt kost á því að fá 7 millj. fær 700 þús. kr. minna með þessu frv. Þær eru teknar af vegna þess að menn þykjast hafa fundið það út að fólk hafi lent í greiðsluerfiðleikum. Ég held að þetta þurfum við að skoða enn þá betur. Eins þarf að skoða hver veruleikinn er í þessum efnum. Reyndar er ekkert undarlegt að tekjulægsta fólkið eigi í greiðsluerfiðleikum og einhverjir mánuðir komi sem það ekki getur greitt af lánum. Það er ekkert óeðlilegt. Mér finnst það ekki þýða að með einu pennastriki eigi að afnema þessi réttindi eins og hér á að gera, taka fleiri hundruð þúsund út, stroka þau bara út, 700 þús. kr. ef um væri að ræða lán upp á 7 millj. Það er ekki til lengur. Fólk verður annaðhvort að vera búið að safna af 80 eða 90 þús. kr. á mánuði, það verður að safna 700 þús. kr., eða fara annars staðar á lánamarkaðinn og fá þar þá dýrari lán. Þetta eru þeir valkostir sem hæstv. ráðherra Páll Pétursson býður fólki.

Ég vil taka undir þau orð sem hér hafa fallið og nú síðast frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, um Húsnæðisstofnun og það starfsfólk sem þar starfar. Í þessu frv. segir ekkert um að það eigi að tryggja starfsfólkinu atvinnu í nýrri stofnun ef til kæmi. Hins vegar vil ég að það komi fram að hæstv. félmrh. hefur sagt á öðrum vettvangi að hann vilji stuðla að því að svo verði. Það er mikilvægt að því verði fylgt eftir.

Svo ég dragi saman það sem mér finnst vera mikilvægt í meðferð þessa frv. er í fyrsta lagi að menn gefi sér góðan tíma til þess að skoða það frá öllum hliðum og gefi samtökum og stofnunum samfélagsins ráðrúm til þess að fara í þá vinnu. Stjórnvöld þyrftu strax að sýna vilja sinn til þess að taka við ábendingum og gera breytingar á sínum áformum. Mér finnst aðeins um eitt að ræða í því efni. Það er að hæstv. félmrh. lýsi því yfir að þetta frv. verði tekið út af borðinu að sinni, sent út í samfélagið, út til verkalýðshreyfingar, samtaka launafólks, Búseta, Leigjendasamtakanna og allra þeirra sem hlut eiga að máli. Í sumar eða á komandi mánuðum þyrfti síðan að kanna hvort unnt er að finna samkomulagsgrundvöll sem tryggir að yfirlýst markmið frv. nái fram að ganga.

Okkur vantar einfaldara kerfi, ódýrara kerfi og betra kerfi fyrir tekjulágt fólk. Það frv. sem hæstv. ráðherra Páll Pétursson hefur lagt fyrir Alþingi tryggir ekki þessi markmið. Þvert á móti er verið að reisa nýja þröskulda. Tekjulágu fólki verður gert erfiðara um vik að komast inn í húsnæði. Það er verið að skapa stórkostlega óvissu í húsnæðiskerfinu. Mér finnst það ótrúlegt ábyrgðarleysi af ríkisstjórninni og hæstv. félmrh. að bjóða upp á vinnubrögð af þessu tagi.

Í þessum málaflokki, öðrum málaflokkum fremur, þarf að ríkja staðfesta. Hér er þess krafist að menn afgreiði fyrir þinglok, eftir fáeinar vikur, frv. sem umturnar því kerfi sem við búum við í dag. Það leggur niður stofnanir, leggur nýjar kvaðir á fólk og setur fram spurningar sem engin svör eru við. Þetta eru vinnubrögð sem Alþingi er ekki bjóðandi og þjóðinni ekki heldur. Ef ráðherra væri reiðubúinn að draga þetta frv. til baka og leita eftir raunverulegu samráði við Alþingi og samtök og stofnanir í þjóðfélaginu, þá held ég að hvorki stæði á stjórnarandstöðu né samtökum launafólks né öðrum þeim sem hlut eiga að máli. Nú reynir á vilja hæstv. félmrh. og þeirrar ríkisstjórnar sem hér fer með völdin.