Húsnæðismál

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 15:10:15 (4516)

1998-03-10 15:10:15# 122. lþ. 83.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[15:10]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Því fer fjarri að ég hafi verið með dylgjur. Ég minntist á að ekki hefði farið fram hjá okkur hverjir hefðu talað, hverjir hefðu verið fjarri og hverjir hefðu fagnað þessu frv. Í því eru engar dylgjur. Það eru bara staðreyndir. Þingmaðurinn nefnir að þingmenn Framsfl. standi einhuga að baki ráðherranum og þau vilji ekki taka þátt í umræðunni af því að stjórnarandstaðan hafi notað til þess tíu tíma. Ég bendi á að þeir gætu alveg koma hingað upp og flutt ekki lengri ræðu heldur en þingflokksformaður Framsfl. flutti núna.

Ég vek athygli á því að við vorum hér í gærkvöld í málefnalegri umræðu eins og öll umræðan hefur verið. Ég geri mér alveg grein fyrir því að jafnmálefnaleg mun vinnan í félmn. verða. Í gærkvöldi funduðum við fram til kl. 10.30 ásamt félmrh., hann má eiga það, þannig að ég hrósi honum nú í allri þessari umræðu. Hann hefur setið hér. Sá ósiður er gjarnan hjá ráðherrum að víkja sér í burtu þegar mál þeirra eru til umræðu. Hann hefur setið hér og fylgdi sínu máli eftir. Í gærkvöld sást ekki einn einasti framsóknarmaður í þessum sal (Félmrh.: Ég sat hérna.) fyrir utan ráðherrann. Margir hafa efasemdir um stefnur og strauma í stjórnarliðinu. En það hefði verið bragur að því að hér hefðu verið fleiri framsóknarþingmenn og a.m.k. sýnt áhuga, í stað þess að vera fjarri og koma ekki inn fyrir múrana meðan málið var rætt.