Húsnæðismál

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 15:37:19 (4520)

1998-03-10 15:37:19# 122. lþ. 83.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[15:37]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef það hefur eitthvað farið á milli mála þá var það fyrsti punktur í áhersluatriðum Framsfl. fyrir síðustu kosningar að leggja Húsnæðisstofnun niður þannig að ég hélt að hv. þm. hefði þekkt nokkuð vel kosningastefnuskrá okkar en hann hefur greinilega ekki gert það. Það er svo einkennilegt með það að miðað við orð hv. þm. um að verið sé að leggja niður félagslega hugsun og félagslega aðstoð og annað slíkt, og hann taldi upp fleiri mál sem hæstv. félmrh. hefur lagt fram á ferli sínum sem stefndu öll í þá átt, virðist eins og þjóðin sé ekkert sammála hv. þm. hvað þetta varðar. Þess verður a.m.k. ekki vart í skoðanakönnunum að stjórnarandstaðan hafi mikinn hljómgrunn úti í þjóðfélaginu fyrir málflutningi sínum á hv. Alþingi sem beinist allur í þá átt að verið sé að rústa velferðarkerfið og leggja niður félagslega aðstoð. Framsfl. hefur alltaf haft það að meginmarkmiði að viðhafa félagslega aðstoð og það verður gert hér eftir sem hingað til en félagsleg aðstoð þýðir ekki nákvæmlega það sama og aukin útgjöld úr ríkissjóði eins og ýmsir stjórnarandstæðingar halda fram.