Húsnæðismál

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 15:52:14 (4523)

1998-03-10 15:52:14# 122. lþ. 83.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[15:52]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Örfáar athugasemdir. Tilefnin eru reyndar mörg til að gera athugasemdir við ræðu hæstv. félmrh.

Í fyrsta lagi ræddi hann meira um flesta aðra hluti en húsnæðismálin. Hann hældi sér af vinnulöggjöfinni. Það er alveg rétt að það hafa ... (Félmrh.: Að gefnu tilefni.) Það fannst Thatcher líka. Þegar hún setti lög til að þrengja að verkalýðshreyfingunni þá hældi hún sér af henni. Hins vegar vildi ég gera athugasemd við það að hæstv. félmrh. fullyrðir að bættur kaupmáttur launa sé vegna þessarar löggjafar sem sett var til að herða að og skerða réttindi launafólks. Það eru náttúrlega svo gróf öfugmæli að þau liggja í augum uppi.

Í annan stað er það rangt sem hæstv. ráðherra segir að lög sem hafa verið sett um atvinnuleysistryggingar og vinnumiðlun hafi orðið til þess að bæta kjör atvinnulausra. Þau mál eru reyndar öll í skötulíki enn, enda var varað við því að hreyft yrði við atvinnuleysistryggingum áður en lögin um vinnumiðlun færu að skila því sem þau þó gætu skilað til atvinnulauss fólks.

Í þriðja lagi er það rangt sem hæstv. félmrh. segir að félagsleg aðstoð í húsnæðiskerfinu samkvæmt því frv. sem hér er til umræðu verði aukin. Þetta er rangt, enda kom fram í ræðu hans að varðandi aðstoð við tekjulága fólkið er allt á huldu enn og hann ítrekaði það í ræðu sinni áðan að ekki væri t.d. búið að setja reglur um skilyrði fyrir viðbótarlánum.

Fjórða atriðið sem ég vildi nefna varðar 100% lánin. Það hafa verið veitt um 600 slík lán. 17% þessara lána eru í vanskilum. Aðeins 15--20 íbúðir hafa lent í nauðungarsölu. Þetta er afskaplega lítil forsenda og lítil rök fyrir að svipta fólk þessum réttindum. Hverjir hefðu valkostirnir verið fyrir þetta fólk sem átti kost á þessum lánum? Það eru leiguíbúðir sem eru leigðar á 40--60 þús. kr. á mánuði.