Byggingar- og húsnæðissamvinnufélög

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 16:32:29 (4533)

1998-03-10 16:32:29# 122. lþ. 83.2 fundur 508. mál: #A byggingar- og húsnæðissamvinnufélög# frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[16:32]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það þarf að lesa þessi tvö frv. saman til að átta sig á því hvað hér er á ferð, þ.e. frv. um húsnæðismál og síðan frv. til laga um byggingar- og húsnæðissamvinnufélög. Þá vil ég kvarta yfir að mér finnst mjög skorta á upplýsingar í greinargerðinni með frv. um byggingar- og húsnæðissamvinnufélög um stöðu þessara mála. Ég var að reyna að leita í hinni stóru og miklu greinargerð með stóra frv. en fékk ekki séð í fljótu bragði að þar væri sérstaklega fjallað um þetta búsetuform vegna þess að ég tel að það sé nokkuð nauðsynlegt að við áttum okkur á því hversu stór pakki það er sem við erum að ræða um en auðvitað munum við kalla eftir þessum upplýsingum í félmn.

Meginspurning mín er sú hin sama og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir bar fram. Er verið að gera hér þá breytingu að hér eftir verði fyrst og fremst miðað við lán til búseturéttarfélaga í því formi að þar sé um að ræða einstaklinga sem eiga rétt til félagsaðstoðar í húsnæðismálum eins og segir í 4. gr. frv.? Ég get ekki lesið annað út úr frv. Nú verð ég að viðurkenna að ég þekki ekki allt of vel til í búsetukerfinu eins og það er núna. Ég hef ekki fylgst með því um nokkurt skeið hvernig það hefur þróast en minnist þess þó að ekki fyrir mjög löngu var frá því sagt að búsetuformið væri það langhagstæðasta á markaðnum en hvort það hefur leitt af sér einhverja fjölgun félagsmanna eða fjölgun íbúða þekki ég bara ekki. Ég veit þó að innan Búseta hefur verið boðið upp á tvenns konar form, þ.e. það sem hefur flokkast undir eða verið á sömu kjörum og almennar kaupleiguíbúðir, og síðan félagslegar íbúðir, og þetta hefur verið mismunandi form. Annars vegar hefur í rauninni verið um leigu að ræða, hins vegar um ákveðinn eignarhlut. Ég fæ ekki betur séð í frv. en að 4. gr. skilgreini búseturéttinn þannig að eins og þar segir, með leyfi forseta:

,,Félagsmenn öðlast rétt til að fá keyptan búseturétt í þeirri röð sem þeir ganga í húsnæðissamvinnufélög, enda fullnægi þeir skilyrðum um rétt einstaklinga til félagsaðstoðar í húsnæðismálum samkvæmt nánari reglum sem félagsmálaráðherra setur í reglugerð og greiði ákveðna fjárhæð í stofnsjóð félagsins.``

Ég spyr hæstv. félmrh.: Er þetta réttur skilningur að hér sé verið að fækka valmöguleikum? Nú vitum við að verið er að gera breytingar á félagslega íbúðakerfinu eins og við höfum rætt í þrjá daga og hér virðist líka vera um ákveðnar breytingar að ræða. Það hlýtur að þýða að þeir sem hingað til hafa nýtt sér eignarréttinn í búsetukerfinu eigi að fara út á almennan markað. Það er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi. Ef þetta nær nú allt saman fram að ganga verður kerfið þannig að hinn nýi Íbúðalánasjóður á að annast lánveitingar til sveitarfélaga og félagasamtaka til bygginga eða kaupa á leiguhúsnæði og þá geta samvinnufélög eða búsetufélög í þessu tilviki leitað eftir slíkum lánum og fengið 90% lán til bygginga á leiguhúsnæði skv. 38. gr. frv. til laga um húsnæðismál og ég spyr: Felur þetta í sér einhverja breytingu frá því sem verið hefur gagnvart Búseta? Hafa þeir fengið meiri lán en þetta eða á öðrum kjörum? Ég spyr hreinlega af vanþekkingu.

Í 5. gr. er fjallað um búseturéttargjaldið og þar segir að búseturéttargjald ákvarðist annars vegar af byggingarkostnaði íbúðarhúsnæðis og hins vegar af lánsfé til langs tíma og að það sé stjórn húsnæðissamvinnufélags sem ákveði fjárhæð búseturéttargjalds. Það er kannski ósanngjarnt að spyrja ráðherra hvort hann hafi upplýsingar um hversu hátt þetta gjald hafi verið og hvernig það hafi verið reiknað út og hvort gera megi ráð fyrir að einhverjar breytingar verði þar á. Eins og ég nefndi þá segir í athugasemdum um þessar greinar að þær séu efnislega samhljóða gildandi lögum þannig að það er þá ekki verið að breyta lögunum. Þetta hlýtur að hafa verið býsna hagstætt ef þær upplýsingar eru réttar að búseturéttarkerfið hafi verið svona hagstætt á markaðnum en hefur þetta dugað? Hvernig er reksturinn á þessari hreyfingu? Við þurfum að átta okkur á því eins og ég sagði áðan hvað þetta er stór pakki. Hvað heyra margar íbúðir þarna undir? Hversu margar eru félagslegar, hversu margar eru á þessum almennu kjörum, til þess að maður hreinlega átti sig á því hverju er verið að breyta? Mér finnst ekki nógu gott að þessar upplýsingar skuli ekki liggja fyrir við 1. umr. Mér þætti líka afar forvitnilegt að vita hvort búsetufélögin hafa yfirleitt byggt eða hvort þau hafi keypt af framkvæmdaaðilum. Hefur byggingarkostnaður þeirra verið svipaður og t.d. í félagslega kerfinu í Reykjavík? Maður reynir að átta sig á því hvernig staða þessa fyrirbæris er. Það hefur verið býsna góð reynsla af búsetuforminu á Norðurlöndunum þótt það hafi gengið misjafnlega og ég minnist þess að fyrir allmörgum árum lenti sænska búsetuhreyfingin í miklum erfiðleikum, a.m.k. á ákveðnum svæðum en ég man nú ekki hvaða skýring var á því, þannig að það er býsna margt sem erfitt er að lesa út úr sjálfu frv. en kallar auðvitað á skýringar.

Ég sé að í 16. gr. er gert ráð fyrir að húsnæðissamvinnufélögin, eða hvaða form sem þar er um að ræða, eigi að leggja árlega fram í varasjóð. Það er sem sé gert ráð fyrir að þeir hafi varasjóð eins og eðlilegt verður að teljast. Bæði er þá gert ráð fyrir árlegu gjaldi til að standa undir endurbótum en jafnframt er gert ráð fyrir árlegu framlagi í varasjóð. Í gildandi lögum er kveðið á um 1% gjald í tryggingarsjóðinn sem hefur verið nefndur hér en reyndar segir hér: ,,Greinin er efnislega samhljóða 114. gr. gildandi laga ...`` en það kom fram hér að þetta gjald hefur verið 1% og ég ítreka spurningu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur: Er ekki eðlilegt að Búseti fái framlag sitt úr tryggingarsjóðnum ef hann á hvort eð er að halda áfram að hafa varasjóð sinn? Það hlýtur að vera ákveðinn bakhjarl í þeim sjóði sem fyrir er.

Við 1. umr. hef ég ekki miklu meira um þetta að segja þar sem mér gafst ekki tími til að afla mér þeirra upplýsinga sem mér hefði þótt eðlilegt að væru í greinargerð frv. til að hægt væri að átta sig á málinu en mér finnst stærsta spurningin í málinu vera þessi: Er verið að þróa þetta kerfi þannig að það verði þá eingöngu í búsetukerfinu fólk sem fellur undir skilgreininguna í 4. gr. um þá sem falla undir félagslega aðstoð og er í rauninni rétt og hvers vegna ætti að vera að takmarka þann hóp og þrengja þann hóp sem hefur þennan rétt? Er ekki ástæða til að blanda þarna eins og menn vilja stefna að annars staðar eða þýða breytingarnar einfaldlega að slíkur sveigjanleiki passi ekki inn í kerfið? Mér finnst það af hinu verra því þótt við séum eins og hér hefur oft verið talað um að tala um þá sem falla undir félagslega aðstoð þá er það svo afstætt hvað fólk ræður við og þetta margnefnda dæmi um einstæða móður með 80 þús. kr. í mánaðarlaun segir mér einfaldlega að sú kona þarf að leggja mikið hart að sér og börnum sínum til að geta staðið undir kaupum á íbúð, hvað þá að safna í þá útborgun sem gert verður ráð fyrir. Það þarf því að gera ráð fyrir fleiri kostum og efla leigumarkaðinn eins og hefur verið margnefnt. Ég spyr hvort þessi takmörkun sem verið er að setja í 4. gr. eins og ég skil hana sé ekki einfaldlega allt of þröng og þar með séu menn í rauninni bara að gera búsetuformið að því félagslega kerfi sem er verið að þrengja að á öðrum stað. Hvað eru menn eiginlega að gera? Ég bara spyr.