Byggingar- og húsnæðissamvinnufélög

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 16:50:28 (4535)

1998-03-10 16:50:28# 122. lþ. 83.2 fundur 508. mál: #A byggingar- og húsnæðissamvinnufélög# frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[16:50]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það virðist mjög erfitt að reyna að hafa almennileg skoðanaskipti við hæstv. félmrh. um húsnæðismál. Ef hann er spurður einfaldra spurninga af þeirri sem hér stendur, þá er sú hin sama ergileg, óánægð o.s.frv. Ég geri kröfu til þess, herra forseti, að hafa, eins og aðrir þingmenn, rétt til að spyrja hæstv. félmrh. einnar eða tveggja spurninga um mál sem mér finnst skipta miklu. Húsnæðismál á Íslandi sem skipta öllu um afkomu verst launuðu fjölskyldnanna á Íslandi. Þegar ég tel að ástæða sé a.m.k. til þess að spyrja hæstv. ráðherra um það hvort slá eigi af búsetukerfið og hef um það rökstuddan grun. Fulltrúar búsetuhreyfingarinnar telja það líka þannig að það þarf að skýra þetta vel fyrir þeim. Auðvitað er ástæða til þess að spyrja þann ráðherra sem mælir fyrir frv. þó hann telji að ekkert stórmál sé á ferðinni og þurfi ekki að hafa nema fá orð um.

Hæstv. ráðherra vísar í frv., ákvæði til bráðabirgða II. Hann segir að ekki sé verið að slá af búseturétt eða hlutareign. En hvað segir ákvæði til bráðabirgða og hvað þýðir ákvæði til bráðabirgða? Ákvæði til bráðabirgða er eitthvað sem á að standa tímabundið. Auðvitað hafði ég ekki hugmyndaflug til þess að ætla að afnema ætti búseturéttinn í íbúðum sem fyrir eru í búseturéttarkerfinu enda er ráðherrann ekkert að gera það. Ég sé ekki annað en að liður II í ákvæði til bráðabirgða, sem ráðherrann vitnaði í, gildi bara um íbúðir sem þegar eru í búseturéttarkerfinu. Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Fyrirmæli laga um Húsnæðisstofnun ríkisins um ákvörðun leigugjalds vegna félagslegra kaupleiguíbúða sem leigðar eru með hlutarétti, sbr. 73. gr. laga nr. 97/1993, og um kaup á eignarhlut í kaupleiguíbúð, sbr. 76. gr., [sem ég var að spyrja um] skulu halda gildi sínu [og ég bið ráðherra að taka eftir] eftir því sem við getur átt á meðan á slíkum íbúðum hvíla lán úr Byggingarsjóði verkamanna.``

Hvað gerist svo, þegar lánin hvíla ekki lengur á Byggingarsjóði verkamanna? Fellur þá 76. gr. niður? Ég var, herra forseti, að spyrja um framtíðina. Ráðherrann getur auðvitað ekki afnumið búseturétt af íbúðum sem þegar eru í kerfinu. Ég spyr um búseturéttaríbúðir sem verða byggðar eftir að lögin taka gildi. Á ákvæðið, sem ráðherrann vitnaði í, ekki bara við íbúðir sem fyrir eru í kerfinu? Ráðherrann þyrfti að skýra það betur fyrir mér. Honum leiðist að svara spurningum mínum en ég vil auðvitað fá að vita hvað hér er á ferðinni. Hvar er vikið að búseturéttinum að frágenginni 76. gr. ef hún á aðeins að gilda um lán úr Byggingarsjóði verkamanna? Ég minni á að leggja á niður Byggingarsjóð verkamanna. Það er aðeins talað um hann í þessari grein. Hvar er þá vikið að búseturéttinum? Að honum er vikið í 18. gr. og sagt:

,,Húsnæðissamvinnufélögum er heimilt að sækja um lán úr Íbúðalánasjóði til kaupa á íbúðarhúsnæði sem síðan er ráðstafað með búseturétti.``

Hvar er búseturétturinn skilgreindur og hvað felst í honum miðað við nýjar íbúðir sem verða byggðar eða keyptar á grundvelli búseturéttar eftir gildistöku þessara laga? Ég er ekki að spyrja um gamlar búseturéttaríbúðir sem fyrir eru í kerfinu. Einhverja ástæðu hafði forstjóri Húsnæðisstofnunar til þess að tala við hæstv. ráðherra og benda honum á að eitthvað vantaði inn í þennan búseturétt í framtíðinni. Frv. sem hæstv. ráðherra mælir hér fyrir er því ekki alfullkomið.

Varðandi tryggingarsjóðinn, þá segir ráðherrann réttilega: ,,Eignarhald á tryggingarsjóðnum er ekki ljóst.`` En ég spyr og bið um svör ráðherrans: Viðurkennir hann rétt Búseta til eignar á því framlagi sem þeir hafa látið í tryggingarsjóð? Er hann sammála bréfi sem fór frá félmrn. í maí 1992 þar sem segir að líta verði svo á að sjóðurinn sé eign félagsins? Er hann ósammála því mati félmrn. á sínum tíma, árið 1992?

Það er verið að breyta tryggingarsjóðinum og raunverulega eðli hans að miklu leyti. Auðvitað þarf að fara mun ítarlegar yfir það í nefnd en við höfum tækifæri til að ræða hér. Ég spyr hvort ráðherrann sé sammála því áliti ráðuneytisins frá 1992, að hlutur Búseta í þessum sjóði sé eign félagsins.

Herra forseti. Ég spyr einnig hvort ákvæði til bráðabirgða II nái ekki aðeins til eldri íbúða eða hvort það eigi líka við búseturéttaríbúðir sem byggðar verða eftir að lög þessi taka gildi. Ég spyr hvar eignarrétturinn er skilgreindur, líka að því er varðar búseturéttinn. Ég hygg að það verði að liggja fyrir. Annars er þessi nýja löggjöf eða frv., ef að lögum verður, auðvitað alveg meingölluð.

Ég á lítið eftir af ræðutíma mínum en vil þó fara nokkrum orðum um húsaleigubætur sem við gerðum kannski ekki nægjanlega í umræðunni um húsnæðismálin áðan. Þær skipta auðvitað máli varðandi það frv. sem við ræðum hér. Það kemur vitanlega mun betur í ljós nú þegar fara á að að greiða skattfrjálsar vaxtabætur á þriggja mánaða fresti, meðan þeir sem eru í leiguíbúðum, t.d. skjólstæðingar ýmissa félagasamtaka, fá húsaleigubætur og þurfa að greiða skatta af þeim. Það verður auðvitað enn sýnilegra og æpandi að þeir sem fá húsaleigubætur þurfa að borga skatta af þeim en ekki þeir sem fá vaxtabætur.

Af því að formaður félmn. hefur setið dyggilega undir þessari umræðu, þá spyr ég hvort það þurfi ekki að skoða það sérstaklega, þar sem svona mörgum verður vísað á leigumarkaðinn, hvort það gæti ekki leitt til þess að greiðsla húsaleigubóta og þörfin fyrir þær bólgni ekki verulega út hjá sveitarfélögunum.

Það er ekkert langt síðan við vorum að fjalla um framlag ríkissjóðs í húsaleigubætur til sveitarfélaganna. Þar var einungis gert ráð fyrir 200 millj. Við umræðu um það mál margbentum við á að það væri of lítið framlag miðað við skyldu sveitarfélaganna og það að þegar farið var af stað með húsaleigubótakerfið, þá var áætlað í það þyrfti a.m.k. 400 millj. kr. ríkisframlag.

Ég hygg að það komi fyrr á daginn heldur en menn héldu að húsaleigubætur sveitarfélaganna verði miklu meiri heldur en áætlanir sýna. Ég man að áætlun Þjóðhagsstofnunar sýndi verulega hærri fjárhæð heldur en ráðherrann taldi að fara mundi í húsaleigubætur á næstu árum. Mig minnir að munað hafi um 200--300 millj. kr. Ég hygg að við munum fyrr en seinna sjá, þ.e. ef sveitarfélögin og ríkissjóður tryggja fjármagn til uppbyggingar á leiguíbúðum, annaðhvort kaup á notuðum íbúðum eða til byggingar á leiguíbúðum. Ég hygg að t.d. þessu hafi sveitarfélögin ekki gert sér grein fyrir varðandi þetta frv. Útgjöld þeirra vegna húsaleigubóta munu aukast verulega. Væntanlega verður það kallað byrði á sveitarfélögum eins og allt annað sem snýr að félagslegri aðstoð fyrir láglaunafólk.

Hér tala margir um byrði þegar félagsleg aðstoð er annars vegar. Það á alls ekki við um alla en þeir sem vilja sjá markaðsvæðingu, á húsnæðislánakerfinu eins og það leggur sig, nota ávallt orðið byrði þegar talið berst að félagslegri aðstoð við þá verst settu í þjóðfélaginu.

Ég held að ástæða hafi verið til þess að vekja athygli á þessu af því að þetta skiptir máli upp á heildarmyndina af öllu þessu. Þessi mál eru því í tengslum við það frv. sem við ræðum hér.

Ég sé að tíma mínum er lokið og vænti, herra forseti, að hæstv. ráðherra svari án útúrsnúninga og fúkyrða, sanngjörnum og eðlilegum spurningum. Ég tel í hæsta máta eðlilegt að bera þær fram. Því miður hef ég ekki tíma til að ræða leigugjaldið en mér fundust svör ráðherrans varðandi það alls ekki fullkomin.