Örnefnastofnun Íslands

Þriðjudaginn 10. mars 1998, kl. 17:57:47 (4550)

1998-03-10 17:57:47# 122. lþ. 83.3 fundur 166. mál: #A Örnefnastofnun Íslands# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 122. lþ.

[17:57]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Eins og fram kom á síðasta þingi þegar þetta mál var fyrst flutt þá hef ég vissar athugasemdir að gera við það. Ég satt að segja tel að það sé alveg út í hött að stofna nýja ríkisstofnun um þennan afmarkaða flokk nafnorða sem örnefni eru. Það hefði verið miklu eðlilegra að búa til sjálfstæða nafnastofnun sem hefði þá verið með bæjanöfnin, örnefnin og jafnvel mannanöfnin líka og verið með heildaryfirlit og skráningu á þessu öllu saman. Eins hefði mátt hugsa sér að þeir fjármunir sem hér er um að ræða hefðu að einhverju leyti farið til að styrkja Íslenska málnefnd og í þriðja lagi hefði mátt hugsa sér líka að þetta hefði bara einfaldlega verið áfram eitt af verkefnum Þjóðminjasafnsins án þess að um það hefðu verið sett nein sérstök lög. Ég satt að segja hef ekki enn þá fengið neinn botn í það af hverju verið er að gera þetta að lögum. Ég segi það alveg eins og er.

Ég var svo heppinn að sitja á ákaflega skemmtilegum fundi í menntmn. þar sem Árni Gunnarsson skrifstofustjóri í menntmrn. kom og sat fyrir svörum um efni málsins. Það var mjög eftirminnilegur fundur og skemmtilegur og sérstaklega voru þau rök sem Árni flutti í málinu eftirminnileg. Án þess að ég hafi þau eftir í einstökum atriðum þá dugðu þau ekki --- ég vil láta það koma fram --- til þess að sannfæra mig í þessu máli. Ég hefði ekki talið neina ástæðu til að afgreiða þetta mál ef ég hefði haft eitthvað með það að gera. Ég hefði ekki flutt það ef ég hefði setið þarna uppi í menntmrn. og ég hefði ekki flýtt mér að afgreiða það ef ég hefði verið í menntmn. Ég veit eiginlega ekki af hverju í ósköpunum verið er að nudda þessu máli áfram svona.

Síðan kemur fljótlega frv. um bæjanöfn geri ég ráð fyrir. Það er enn þá í nefndinni ef ég man rétt og þá gefst kostur á því að ræða um þá alveg ótrúlegu miðstýringaráráttu sem þar er, þ.e. að lögbinda svo að segja eða að ætlast til þess að ákveðin heiti fái opinberan fastan stimpil. Það er mjög sérkennilegt. Ég rifjaði það upp í fyrra í umræðum um þessi mál að eitt dalverpi vestur í Dölum heitir fimm nöfnum og samkvæmt ákvæðum frv. eins og það lá fyrir í fyrra og ég held að það hafi verið eins endurflutt í haust, þá verður opinber aðili að úrskurða um hvert þessara fimm nafna er rétt. Ég hef ekki smekk fyrir uppsetningu af því tagi. Það mál er ekki á dagskrá hér en ég vildi bara láta það koma fram, herra forseti, að ég skil ekki af hverju þetta frv. um Örnefnastofnun er flutt. Það er varla hægt fyrir þingmann að segja það en ég nenni svo sem ekki að vera að berjast um út af málinu. Ég vildi bara láta það koma fram að ég get í öllum meginatriðum tekið undir þau rök sem hér komu fram áðan hjá hv. 19. þm. Reykv.