Staðsetning Fjárfestingarbanka og Nýsköpunarsjóðs

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 15:06:58 (4598)

1998-03-11 15:06:58# 122. lþ. 84.8 fundur 485. mál: #A staðsetning Fjárfestingarbanka og Nýsköpunarsjóðs# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[15:06]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Á þskj. 824 spyr hv. þm. Einar K. Guðfinnsson um staðsetningu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Í fyrsta lagi spyr hv. þm. hverjar hafi verið ástæður þess að skrifstofum Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins var ekki valinn staður á landsbyggðinni.

Eins og hv. þm. er kunnugt eru Fjárfestingarbanki atvinnulífsins og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins stofnaðir á grunni fjögurra fjárfestingarlánasjóða. Þeir eru: Fiskveiðasjóður Íslands, Iðnlánasjóður, Iðnþróunarsjóður og Útflutningslánasjóður. Allir þessir sjóðir höfðu skrifstofur sínar á höfuðborgarsvæðinu. Náin tengsl þessara sjóða við samtök atvinnuvega í sjávarútvegi og iðnaði gerðu það að verkum að ná þurfti samkomulagi um þá leið sem farin var við endurskipulagningu sjóðakerfisins. Um nokkurra ára skeið voru gerðar tilraunir til þess, og það margoft, að ná fram breytingum á sjóðakerfi atvinnuveganna. Það tókst ekki fyrr en nú um síðustu áramót. Í mínum huga er ljóst að sjónarmið um breytingar á staðsetningu hinna nýju stofnana hefðu getað tafið fyrir og jafnvel hindrað sátt um það mál.

Sameining sjóðanna er flókið ferli. Ein grunnforsenda þess að breytingarnar tækjust vel var að starfsfólk sjóðanna kæmi til starfa hjá hinum nýju stofnunum. Starfsemi sjóðanna og þau verðmæti sem í þeim fólust lágu að hluta í þekkingu og reynslu starfsmannanna. Þannig var lögð áhersla á að tryggja réttindi starfsmanna og ná við þá góðu samkomulagi vegna breytinganna. Niðurstaðan varð sú að flestir starfsmannanna tóku boði um nýtt starf hjá hinum nýju fyrirtækjum.

Hafa verður í huga að hinar nýju fjármálastofnanir gátu gengið í fyrra húsnæði Fiskveiðasjóðs og Iðnlánasjóðs og af því var mikið hagræði og sparnaður. Þegar málið var til umfjöllunar hér á Alþingi og við undirbúning málsins í báðum stjórnarflokkunum komu ekki fram tillögur um aðra staðsetningu en hér á höfuðborgarsvæðinu.

Í öðru lagi spyr hv. þm. hvort það hefði hamlað starfsemi fyrrgreindra stofnana ef þær hefðu verið staðsettar utan höfuðborgarsvæðisins.

Fjárfestingarbanki atvinnulífsins er lánastofnun í skilningi laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Meginrökin fyrir stofnun hans voru að hann ætti að veita ódýra og góða þjónustu á öllum sviðum atvinnulífs. Jafnframt var Fjárfestingarbankanum ætlað að auka samkeppni milli fyrirtækja á fjármagnsmarkaði. Þannig ætti hann að stuðla að hagræðingu í rekstri annarra fjármálastofnana og þar með minni vaxtamun. Þetta mun takast að mínu viti.

Bankanum er einnig ætlað að bjóða upp á nýja sérhæfða þjónustu á fjármagnsmarkaði. Fjárfestingarbankanum er nauðsynlegt að hafa greið samskipti við aðrar fjármálastofnanir, innlendar og erlendar. Náin tengsl við viðskiptamenn skipta jafnframt sköpum um hvernig til tekst. Bankanum er ætlað að vera í stöðugu og áþreifanlegu sambandi við atvinnulífið.

Með hliðsjón af þessu skiptir staðsetning Fjárfestingarbankans nokkru máli. Í því sambandi er miðstöð Fjárfestingarbankans óumdeilanlega staðsett í Reykjavík. Þar eru höfuðstöðvar stærri fjármálastofnana hérlendra, þaðan og þangað eru samgöngur á landi og með flugi greiðastar. Með hliðsjón af þessu verður að álykta að höfuðstöðvar Fjárfestingarbankans séu best staðsettar á höfuðborgarsvæðinu. Þó draga megi úr ýmsum ókostum annarrar staðsetningar með nútímatækni skiptir staðsetning bankans miklu um framtíð hans.

Svipuð rök má færa fyrir staðsetningu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Nýsköpunarsjóðurinn er lítil rekstrareining og framtíð hans ræðst af því hversu vel honum tekst að halda rekstrarkostnaði sínum niðri. Rökstyðja má að rekstrarkostnaður hans verði minnstur með staðsetningu hans á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar vil ég ekki fullyrða að staðsetning utan höfuðborgarsvæðisins hefði hamlað starfsemi beggja þessara fyrirtækja.

Rétt er að vekja athygli á því hér og nú að hluti af starfsemi Nýsköpunarsjóðs, starfsemi svo kallaðs Framtakssjóðs, lýtur sérstaklega að landsbyggðinni. Þeim sjóði er ætlað að laða fjármagn að nýsköpun og atvinnuuppbyggingu með áherslu á landsbyggðina og leita í því skyni samstarfs við sérhæfðra aðila á fjármagnsmarkaði og í atvinnuþróun. Nýsköpunarsjóðurinn mun semja við sérstaka rekstraraðila um vörslu og ráðstöfun á fjármagni Framtakssjóðs. Miðað er við að allt að fjórum rekstraraðilum verði falin varsla og ráðstöfun þessa fjármagns. Þessi starfsemi krefst náins samstarfs við aðila í nýsköpun og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni. Því er eðlilegt að raunveruleg umsýsla þessa fjármagns verði falin aðilum á landsbyggðinni þar sem því verður við komið og að því vil ég stefna.