Staðsetning Fjárfestingarbanka og Nýsköpunarsjóðs

Miðvikudaginn 11. mars 1998, kl. 15:14:13 (4600)

1998-03-11 15:14:13# 122. lþ. 84.8 fundur 485. mál: #A staðsetning Fjárfestingarbanka og Nýsköpunarsjóðs# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., TIO
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 122. lþ.

[15:14]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 1. þm. Vestf. fyrir að hafa vakið athygli á þessu máli. Við höfum í raun og veru tvo kosti til þess að styrkja landsbyggðina með starfsemi opinberra stofnana. Annar kosturinn er sá að flytja stofnanir sem hér eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu út á land. Hinn er sá að setja þar á laggirnar nýjar stofnanir.

Það hefur reynst erfitt að flytja stofnanir sem starfa nú þegar á höfuðborgarsvæðinu út á land. Það hefur mætt mikilli andstöðu. Nú kemur hins vegar fram að bestu starfsaðstæðurnar fyrir Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins eru, að mati hæstv. viðskrh., í Reykjavík.

[15:15]

En þá er rétt að varpa þeirri spurningu fram: Eru menn á vissan hátt að gefast upp fyrir einhvers konar örlagatrú og fara inn í vítahring? Ef við getum ekki brotið okkur út úr þessum vítahring þá verðum við að sætta okkur við það að þróunarmöguleikar landsbyggðarinnar séu miklu minni en við höfðum álitið og ég vil ekki taka undir það sjónarmið.