Félagsleg aðstoð

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 12:53:43 (4646)

1998-03-12 12:53:43# 122. lþ. 86.9 fundur 352. mál: #A félagsleg aðstoð# frv., Flm. ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[12:53]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir þetta innlegg. Þetta er alveg rétt hjá honum. Kerfið er orðið skattlagning á vanþekkingu. Auðvitað þarf að einfalda þessar reglur. Það þarf að einfalda kerfið svo þeir sem þurfa á því að halda njóti þess sem þeir eiga að fá. Vegna þeirra atriða sem ekki eru talin upp hér og hann nefnir, þá er margt af því rétt athugað. Ég hef ekki talið með í greinargerðinni barnabætur o.s.frv. vegna þess að þá hefði ég þurft að fara í miklu flóknara mál.

Þau atriði sem hv. þm. nefndi eru auðvitað framfærsla barnsins. Ég er að tala um lífeyrisþegann. Framfærsla hans skerðist. Þegar hv. þm. nefnir að flestir lífeyrisþegar hafi borgað í lífeyrissjóð, þá veit hann nú betur. Mjög stór hópur öryrkja hefur lítið sem ekkert borgað í lífeyrissjóð og margir öryrkjar hafa aldrei greitt í lífeyrissjóð. Þeir þurfa algerlega að treysta á almannatryggingabætur sem eru ekkert til að hrópa húrra fyrir. Það veit hv. þm. sem er einn helsti sérfræðingur okkar í tryggingamálum og þekkir þessi mál vel. Hann veit það að fjöldi öryrkja hefur aldrei greitt í lífeyrissjóð. Auðvitað treystum við á að lífeyrissjóðakerfið bæti úr því ástandi sem þarna er en meðan ástandið er eins og það er í dag, að margir fá ekkert nema bara slyppar almannatryggingabætur, getum við ekki annað en tekið á þessum málum. Ég minni á að barnabæturnar og meðlagið eru framfærsla barnsins en ekki tekjur lífeyrisþegans til framfærslu.