Félagsleg aðstoð

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 12:55:56 (4647)

1998-03-12 12:55:56# 122. lþ. 86.9 fundur 352. mál: #A félagsleg aðstoð# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[12:55]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég gat um áðan er kerfið sem við búum við ákaflega flókið, svo flókið að mér varð það á að gleyma áðan mæðralaununum sem eru 4 þús. kr. til viðbótar við allt hitt. Þær upplýsingar vantar í greinargerðina. Ég er ekki að segja að þetta fólk tapi ekki á þessu og það sé ekki réttlátt að laga þetta. Hins vegar þarf að taka alla þætti með inn í dæmið. Menn horfa alltaf á einn þátt í einu og þess vegna er kerfið orðið svona óskaplega flókið og ósanngjarnt. Oft og tíðum er um oftryggingu að ræða. Ég kom með dæmi um einstæða móður í háskólanum með tvö börn sem hefur 170 þús. kr. til ráðstöfunar á mánuði.

Menn líta alltaf á einn þáttinn, líta ekki á alla þættina. Að sjálfsögðu verða þeir sem leggja fram svona tillögu að vinna í málunum og kynna sér allar þær bætur sem barnið fær. Frá skattkerfinu fær það sem sagt um 14 þús. kr. Ef það er undir 7 ára aldri fær það til viðbótar um 4 þús. kr. á mánuði. Ég nefni þessar tölur að vísu eftir minni. Síðan fær það meðlag frá föðurnum um 12 þús. Og svo eru það mæðralaunin. Auðvitað er þetta allt til framfærslu barnsins. Það verður samt að geta um þetta. Það má ekki taka hlutina og rífa þá úr samhengi. Þetta kemur allt saman inn í dæmið. Það er ekki þannig að framfærslan lækki um 7.300 heldur hækkar hún um 24 þús. eða eitthvað slíkt. Ég veit þetta ekki nákvæmlega. Ég hef ekki aðstöðu til að reikna það núna. Dæmið lítur allt öðruvísi út. Með því er ég ekki að segja að ekki eigi að taka málið til umræðu.