Félagsleg aðstoð

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 12:57:38 (4648)

1998-03-12 12:57:38# 122. lþ. 86.9 fundur 352. mál: #A félagsleg aðstoð# frv., Flm. ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[12:57]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég minntist á mæðralaunin í máli mínu áðan og það hefur greinilega farið fram hjá hv. þm. Hann stuðlaði að því, ásamt félögum sínum í ríkisstjórninni, að mæðralaun með einu barni voru bara felld niður þannig að þau eru úr sögunni. Einstæð móðir sem er öryrki og með eitt barn fær engin mæðralaun. Hv. stjórnarliðar sáu til þess í þinginu, einhverja jólanóttina, að senda þann glaðning til einstæðra foreldra. Hér er rætt um framfærslu barnsins og það er alveg rétt, barnið fær vonandi meðlagsgreiðslur frá föður og barnabætur úr skattakerfinu. Ég er hins vegar að tala um að framfærsla móðurinnar sem er öryrki, getur ekki framfleytt sér og hefur ekki vinnuþrek, hún lækkar um rúmar 19 þús. kr. við að barn fæðist inn í fjölskylduna. Framfærsla einstæðrar móður sem verður öryrki og vill hafa barnið sitt hjá sér lækkar um 19 þús. kr. ef hún á ekki rétt á greiðslum úr lífeyrissjóði. Þetta er því ósanngjarnt kerfi sem við þurfum að laga. Það er rétt hjá hv. þm. Við þurfum að skoða þetta í heild. Skoða þarf marga þætti og því nauðsynlegra er að fara í þessa vinnu þannig að eitthvert vit verði í þessum lögum og við sitjum ekki uppi með þá dellu sem viðgengst í dag.