Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 16:08:14 (4676)

1998-03-12 16:08:14# 122. lþ. 86.14 fundur 438. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[16:08]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur verið að smáatriði fari fram hjá hv. þm. Það er ekki víst að hv. þm. hafi tekið eftir því að ýmislegt hefur breyst frá árinu 1994 eins og að Brunabótafélag Íslands er búið að selja einu umtalsverðu eign sína og er hætt að taka þátt í því sem var eina raunverulega hlutverk þess. Aðstæðurnar núna og aðstæðurnar 1994 eru með öðrum orðum gerbreyttar. (LB: Því var breytt 1994.) Það er hins vegar búið að ,,realísera`` mikla eign upp á 3.500 millj. kr. og ég tel þess vegna, virðulegi forseti, að það sé ekki bara eðlilegt heldur sjálfsagt að þeir sem eigi eignina ráðstafi henni. Mér finnst, virðulegi forseti, í ljósi allrar umræðunnar vera undarlegt að það þurfi að þrástagast á þessu, tvisvar í röð, fyrst á síðasta þingi og síðan núna, að það sé vilji okkar flutningsmanna og ekkert annað búi þar að baki en að þeir sem eigi þessar 3.500 millj. kr. geti ráðstafað þessu milliliðalaust. Þetta er ekki flóknara mál. Ef þetta væri hlutafélag mundi ekki nokkrum einasta manni láta sér detta í hug að það ætti að gerast þannig að menn hefðu ekki ráðstöfunarrétt á þessu þegar væri búið að gersamlega gerbreyta rekstri viðkomandi félags, að menn hafi ekki nokkur ráð til þess að bregðast við þegar forsendur kúvendast.

Þess vegna verð ég að játa, virðulegi forseti, að þó ég viti það að stundum geti menn verið pínulítið utan við sig og taki ekki eftir svona smáatriðum sem eru að breytast í kring þá átti ég von á því, virðulegi forseti, að hv. 6. þm. Suðurl. hefði orðið var við að það hefði orðið eignabreyting upp á 3.500 millj. kr.