Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 14:03:59 (4705)

1998-03-17 14:03:59# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[14:03]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Mikið held ég að hv. þm. hefði sómt sér vel í sovétkerfinu forðum. Hann getur sem sé verið algerlega á móti kerfinu en er hins vegar reiðubúinn til að stuðla að jákvæðum breytingum á því þótt hann sé algerlega á móti því. Slíkir menn voru kallaðir nytsamir sakleysingjar fyrir ekki svo margt löngu. Menn sem voru algerlega á móti kerfinu sem þeir lifðu við en voru reiðubúnir til jákvæðra breytinga á því. En það er gott og vel að hv. þm. skuli gefa hér yfirlýsingar um að þótt hann flytji tillögur um gjörbreytingu á skattkerfinu ætli hann engu að síður að standa með forsrh. að því að keyra enn lengra út í fenið sem tekjuskattskerfið hefur verið í en það er nú þegar komið. Það er því ánægjulegt til þess að vita að hæstv. forsrh. hefur svo traustan bandamann í sínum eigin röðum að þótt hann sé algjörlega á öndverðum meiði við hæstv. forsrh. í þeim tillögum sem hæstv. forsrh. mælir fyrir ætli hann engu að síður að ganga í lið með hæstv. forsrh. til að fá þær vitlausu tillögur afgreiddar. Þetta kallar maður nytsama sakleysingja, jafnt í dag sem í gær og það hlutverk er hv. þm. að leika hér á Alþingi.